c

Pistlar:

3. janúar 2022 kl. 9:52

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nýorkubílar taka yfir

Miklar breytingar urðu á bílamarkaði hér á landi á nýliðnu ári. Þar ber hæst að svokallaðir nýorkubílar voru í meirihluta seldra bíla. Heildarhlutfall nýskráðra bíla sem seldust á árinu 2021 og eru knúnir af nýorku, sem þá vísar til rafmagns-, tengitvinn- og metan­bíla, var 54,7% en árið áður (2020) var hlutfallið um 45%. Þetta eru tímamót og sýnir að breytingin yfir í nýorkubíla gerist hratt. Hybridbílar voru 17,8% af heildarsölunni í fyrra en 12,5% árið 2020. Það var athyglisvert að sjá að þegar bráðabirgðatölur fyrir desembermánuð lágu fyrir var hlutfall seldra bensín- og dísel-bíla undir 10% af heildarfjölda seldra bíla. Það sýnir kannski betur en annað hve hröð breyting er að eiga sér stað þessa mánuðina í sölu nýrra bíla.umferð

Hver borgar skattinn?

Breyttar endurgreiðslureglur munu án efa hafa áhrif á sölu tengitvinnbíla á næsta ári en við blasir að rafmagnsbílar munu seljast í sífellt meira mæli. Um áramótin var hámark á niðurfellingu VSK við kaup á tengitvinnbifreið lækka um helming og fer úr 960.000 kr. í 480.000 kr. á hverja bifreið. Hámark á niðurfellingu VSK fyrir rafmagns- og vetnisbifreiðar verður óbreytt. Um leið má velta fyrir sér hve lengi rafbílaeigendur verða lausir undan því að greiða skattinn sem felst í eldsneytiskaupum annarra bílaeigenda. Augljóslega er hér um að ræða tímabundna ráðstöfun á meðan á orkuskiptunum stendur. Flestum má vera ljóst að þetta getur ekki verið svona til langframa. Vandinn er að finna lausn sem virkar og deilir byrðunum af notkun vegakerfisins eftir því hversu mikið fólk notar það auk einhvers fastagjalds eða greiðslu upp í stofnkostnað.

Rafmagnsbílarnir sækja á

En samhliða aukningu í sölu nýorkubíla þá eru rafmagnsbílar að sækja verulega á eins og hefur verið bent í pistli hér áður. Stöðugt meira selst af rafmagnsbílum og ljóst að innleiðing þeirra mun ganga hraðar fyrir sig en spár hafa gert ráð fyrir meðal annars vegna þess að tengitvinnbílarnir hækka nú í verði. Orkuskipti í samgöngum ættu þannig að ganga til þess að gera hratt fyrir sig, verði næg innlend orka til staðar.

Þegar auglýsingar og kynningar bílaumboðanna eru skoðaðar sést að áherslan er nánast fyrst og fremst á rafmagnsbíla. Stöðugt fleiri gerðir og tegundir bjóðast af þeim og um leið er áhugi íslenskra kaupenda að aukast. Það má hins vegar velta fyrir sér hvort innviðir landsins eru tilbúnir að taka við þessu en talsverða aðlögun þarf til að geta þjónustað sístækkandi flota rafmagnsbíla. Þetta er í samræmi við þróunina annar sstaðar. Rafbílar voru vinsælasti kosturinn í Danmörku í fyrsta sinn á síðasta ári.teslajon

Eru innviðir tilbúnir?

„Uppbygging hleðsluinnviða gengur líka allt of hægt enda stefna stjórnvalda óskýr, allt of lítill stuðningur við uppbyggingu og tæknilegar kröfur til þeirra sem fá styrki til uppbyggingar hleðsluinnviða litlar sem engar enda skilningur lítill hjá stjórnvöldum á þörfum rafbílaeigenda. Einnig gengur allt of hægt hjá veitustofnunum að afgreiða umsóknir um aðgang að rafmagni fyrir hleðslustöðvar. Kerfið er ekki að virka og orkuskiptin í reynd aðeins í orði kveðnu,“ Skrifar Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, á Facebook-síðu sína. Þetta er alvarleg áminning um að stjórnvöld verða að taka sig á.