Ekkert banaslys varð á sjó á síðasta ári. Stærsta frétt ársins gæti einhver haldið? Jú, það hefði verið það einu sinni en nú erum við Íslendingar orðnir góðu vanir, sem betur fer. Fyrir tveimur árum síðan benti pistlahöfundur á þetta undir fyrirsögninni: „Stóra fréttin sem allir missa af.“ Það hefði mátt nota hana á hverju ári síðan.
Árið 2008 var tímamótaár um margt en það var fyrsta árið sem ekkert banaslys varð á sjó hér við landið. Var haft á orði að það hafi verið fyrsta árið síðan um landnám að slíkt slys hafi ekki orðið. Mörg ár síðustu aldar fórust tugir og jafnvel hundruð sjómanna eins og margoft hefur verið bent á hér í pistlum. Árin 2011 og 2014 voru einnig án banaslysa og sömuleiðis fjögur ár í röð 2017 til 2020, samkvæmt ársyfirliti siglingasviðs rannsóknanefndar samgönguslysa. Við erum því búin að fá fimm ár án banaslysa til sjós en slys verða ennþá.
Þau hörmulegu atvik sem orðið hafa undanfarin ár verða ekki tengd við sjómennsku sem slíka en í Morgunblaðinu var þetta rifjað upp skömmu fyrir áramót. Þar kemur fram að árið 2018 lést maður í Sundahöfn sem hafði unnið að viðgerðum um borð í báti og er talið að hann hafa fallið útbyrðis í prufusiglingu og bandarískur ferðamaður fórst við köfun við Hjalteyri í september 2019. Í maí 2020 var gerð umfangsmikil leit í Vopnafirði að ungum sjómanni, en hann féll útbyrðis af fiskiskipinu Erlingi KE-140. Leitin bar ekki árangur, en líkamsleifar hans fundust í Vopnafirði 1. apríl í ár. Það mál kom ekki til kasta rannsóknanefndar samgönguslysa segir í frétt Morgunblaðsins. Allt hörmulegir atburðir en verða ekki beinlínis tengdir sjómennsku.
Samverkandi þættir og áhrif kvótakerfisins
En hvað veldur þessari ánægjulegu breytingu? Við blasir að margir samverkandi þættir eru að baki. Nefna má vaktstöð siglinga, Slysavarnaskóla sjómanna, hærri starfsaldur til sjós, nákvæmari veðurspár en áður var og stærri og betur útbúin skip með fullkomnara öryggisstjórnunarkerfi. Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) hefur verið óspör á að koma með tillögur í öryggisátt vegna mála sem ratað hafa á borð þess.
En hér í pistlum hefur verið bent á áhrif kvótakerfisins og þeirrar stýringar sem í því fellst en augljóslega eiga margir andstæðingar kvótakerfisins erfitt með að sætta sig við það. Því er fróðlegt að rifja upp að Jón Árelíus Ingólfsson, rannsóknastjóri RNSA, nefndi einmitt kvótakerfið fyrir tveimur árum þegar hann var beðinn að telja upp nokkra þætti, sem hefðu leitt til aukins öryggis á sjó. Um það sagði Jón: „Það á örugglega sinn þátt í að meiri skynsemi er í sókninni heldur en áður. Nú vita útgerðir og skipstjórar hver þeirra hlutur er og menn þurfa ekki að sperra sig til að ná í fiskinn og vinnslan stýrir oft sókninni,“ sagði Jón Árelíus en hann lét af störfum sem rannsóknastjóri um áramót.
Miklar fórnir
Þegar Morgunblaði 20. aldar er flett má segja að reglulega hafi birtist forsíður með myndum af sjómönnum, sem farist höfðu í sjóslysum. Hér hefur áður verið vitnað til skrifa Steinars J. Lúðvíkssonar rithöfundar sem hefur rakið sögur af baráttu íslenskra sjómanna við Ægi í ritröðinni, „Þrautgóðir á raunastund“. Steinar hefur meðal annars tekið saman fjölda þeirra sem fórust í sjósköðum við Ísland á liðinni öld. Þeir eru á fimmta þúsundið. Bara árið 1959 fórust 59 sjómenn og á árunum 1966 til 1970 fórust alls 101 sjómaður.