Fáir stjórnmálamenn hafa náð að ganga jafn rækilega gegn hagsmunum þjóðar sinnar og Angela Merkel, fyrrverandi kanslari Þjóðverja, sem ákvað í einni sviphendingu að loka á notkun kjarnorku í Þýskalandi í kjölfar slysins í Fukushima árið 2011. Ákvörðun sem í senn kemur illa við öryggishagsmuni landsins og ekki síður efnahagslega. Um leið eru umhverfisáhrif hennar umdeilanleg. Angela Merkel var þekkt fyrir að skoða fyrirfram hug þjóðar sinnar í skoðanakönnun, áður en hún tók mikilvægar ákvarðanir. Óvíst er hvort slíkt ráðslag leiðir til góðs en í það minnsta ber hún ekki einkenni leiðtoga.
En nú eru teikn á lofti um að þessi ákvörðun hafi heldur ekki verið mjög framsýn þegar kemur að orku- og umhverfismálum. Hér í pistlum hefur margoft verið bent á að markmiðum í loftslagsmálum verði ekki náð nema notast verði við kjarnorku og jarðgas. Pistlahöfundur getur ekki eignað sér þessa hugmynd þar sem þetta hefur verið til umræðu víða í alllangan tíma en hér var fyrir skömmu í pistli fjallað um kjarnorkunotkun á heimsvísu. Pólitískar þarfir Merkel ýttu án efa á eftir málinu en nú eru hlutirnir að breytast innan Evrópusambandsins, sérstaklega vegna þrýstings frá Frökkum, sem öfugt við Þjóðverja hafa aukið við notkun kjarnorku. Það sem rekur þó helst á eftir þessari viðhorfsbreytingu til kjarnorku og jarðgas er sú staðreynd að raforkuverð hefur hækkað upp úr öllu valdi í Evrópu og skapað mikinn óróa meðal neytenda sem horfa í forundran á rafmagnsreikninga sína. Um leið hefur þetta valdið geópólitískum óróa þar sem Rússar hafa í hendi sér hvort Vestur-Evrópa getur hitað hús sín. Þetta sást glögglega þegar Bandaríkjamenn sendu flota risastórra gasskipa til Evrópu fyrir jólin til að róa markað með gas.
Kjarnorka stendur undir 25% af raforku ESB
Árið 2020 framleiddu þau 13 aðildarríki ESB sem framleiða kjarnorku um 683.512 GWst í 109 kjarnorkuverum samkvæmt tölum Eurostat. Þetta er ríflega 25% af heildar raforkuframleiðslu ESB. Þar af framleiða Frakkar ríflega 50% af því rafmagni sem framleitt með kjarnorku innan ESB en kjarnorka stendur undir 67% af orkuþörf Frakka. Þjóðverjar og Spánverjar eru þar næstir með um 9% hvor þjóð. Svíar koma skammt á eftir en kjarnorka stendur undir 22% af orkuþörf þeirra. Margar þjóðir ESB treysta mjög á kjarnorku til raforkunotkunar. En öllum má vera ljóst að Frakkar hafa ekki yfirgefið kjarnorkuna, þvert á móti eru þeir að taka í notkun ný ver og leggja á ráðin um fleiri. Þeir munu væntanlega auka raforkusölu til nágranalanda sinna þar sem orku skortir. Lönd eins og Ítalía og Portúgal hafa ekki kjarnorkuver en kaupa raforku frá þeim eigi að síður.
Samkvæmt frétt Bloomberg nú skömmu eftir áramót þurfa ríki Evrópusambandsins að verja sem svarar 500 milljörðum evra til uppbyggingu kjarnorkuvera fram til ársins 2050. Höfðu fjölmiðlar þetta eftir Thierry Breton, framkvæmdastjóra innri markaðar Evrópusambandsins en hann tjáði sig fyrst um málið í franska blaðinu Journal du Dimanche eins og rakið var í frétt Ríkisútvarpsins. Breton segir að þau kjarnorkuver sem þegar eru starfandi þurfi minnst fimmtíu milljarða evru innspýtingu fram til ársins 2030 til að halda þeim við. Ný kjarnorkuver, sem nauðsynleg séu til að mæta skuldbindingum sambandsins í loftslagsmálum kalli hinsvegar á fjárfestingu upp á 500 milljarða evra.
Kjarnorka verði skilgreind sem græn orka
Nú þrýsta Frakkar á um að Evrópusambandið skilgrein fjárfestingu í orkuframleiðslu með jarðgasi og kjarnorku sem „græna“ fjárfestingu. Nái það fram að ganga mun það auðvelda að laða fjárfesta að verkefnum þessu tengd. Frakkar eru búnir að koma þessu inn til framkvæmdastjórnar ESB en þar eru skoðanir mjög skiptar um hvort hægt sé að flokka þessa orkugjafa sem endurnýjanlega eða sjálfbæra í raun og veru og þar með græna. Jarðgas skilar mun minna koldíoxíði frá sér en kol og olía.
Frakkar telja nauðsynlegt að skilgreina kjarnorku græna enda er hún gríðarlega mikilvæg við raforkuframleiðslu þeirra eins og áður sagði. Ekki er langt síðan Emmanuel Macron forseti tilkynnti um áform um að byggja ný kjarnorkuver til að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Um leið lofaði hann því að Frakkar þyrftu ekki að flytja inn orku frá öðrum ríkjum og að orkuverð haldi ekki áfram að hækka.
En kjarnorka er og verður umdeild. Austurríkismenn eru afar mótfallnir þessum áformum og Þjóðverjar, sem stefna að því að loka öllum sínum kjarnorkuverum á næstu árum, eru líka fullir efasemda.