Loftslagumræðan er stundum undarleg hér á landi, sérstaklega þegar kemur að því að meta og skilja þær aðgerðir sem skynsamlegt er að grípa til. Þannig virðast margir áhugasamir um verkefni sem byggjast á bindingu koldíoxíðs, sérstaklega ef það eru flókin og kostnaðarsöm tæknileg verkefni. Carbfix-verkefnið er dæmi um það en enn er eftir að útskýra rækilega ávinning og kostnað af þeirri aðferð þó menn virðist tilbúnir að setja gríðarlegar upphæðir í það.
Um leið virðast menn horfa framhjá einstökum tækifærum sem við Íslendingar höfum í skógrækt eins og oft hefur verið vikið að hér í pistlum. Ekkert einstakt bindingarverkefni hentar eins vel hér á landi, bæði varðandi framkvæmd og kostnað. Hamfarasinnar í loftslagsmálum eiga erfitt með að sætta sig við slíka nálgun, hún hefur einfaldlega ekki nógu miklar þjáningar í för með sér fyrir almenning en ósk margra loftslagssina er að það verði gengið verulega á lífsgæði fólks sem einhverskonar yfirbót fyrir liðna tíma.
Annað vandamál sem lýtur að skógrækt er að innan heims líffræðinga og stjórnenda opinberra fyrirtæka virðist vera mikill ágreiningur um meðhöndlun vistkerfa eins og fjallað hefur verið um hér. Þannig eru sumir sem telja að allar erlendar skógarplöntur séu aðskotahlutir í íslenskri náttúru og eigi þess vegna að hafna. Aðrir, þar á meðal ráðamenn innan Landgræðslunnar, virðist vera sérstaklega uppsigað við einstaka plöntu- og skógartegundir og hafa úrskurðað þær ágengar í íslenskri náttúru. Kveður svo rammt að þessu að fyrrverandi landgræðslustjóri hefur beinlínis látið ryðja vel gróna skógarlundi til þess að útrýma erlendum tegundum.
Fyrirtækin að vakna
En vonandi er að íslensk fyrirtæki komi með skynsemi inn í þessa umræðu. Í Morgunblaðinu um helgina var vakin athygli á því að vakning er að verða meðal íslenskra stórfyrirtækja um að hefja skógrækt og þá helst á eigin jörðum til að kolefnisjafna starfsemi sína. Segir Morgunblaðið frá því að þrjú einkafyrirtæki hafa gert samninga við Skógræktina um ráðgjöf við ræktunina og að minnsta kosti fimm til viðbótar eru í viðræðum um það.
Þetta eru mikilsverð tíðindi og ekki síður það að mikill áhugi meðal erlendra samtaka sem hafa milligöngu um kolefnisjöfnun og stórfyrirtækja um að hefja skógrækt hér á landi í sama tilgangi. „Það er stefna ríkistjórnarinnar að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040,“ segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í samtali við Morgunblaðið og heldur áfram: „Ef Ísland ætlar að ná þessu markmiði þurfa allir að huga að sínum kolefnismálum. Öll fyrirtæki verða að gera það og að lokum allir einstaklingar líka. Menn vita að það er alvara í þessu en vita ekki hvernig á að standa að málum. Tíminn líður og átján ár eru ekki langur tími. Fyrirtækin þurfa að undirbúa sig. Mörg þeirra veðja á að hluti af lausninni verði að binda kolefni með skógrækt eða á annan hátt enda er skógrækt nærtæk og gerleg.“
Þetta er mikilsverð þróun en Þröstur nefnir að Skógræktin hafi fengið það hlutverk með nýjum lögum sem ítrekað hafi verið með ákvæðum í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að stuðla að aukinni kolefnisbindingu með skógrækt. Það sé því áhersluatriði hjá stofnuninni. Þess má geta að skógrækt fékk nánast ekkert vægi í einkunnagjöf Ungra loftslagssinna fyrir kosningar þegar verið var að meta ólíka nálgun stjórnmálaflokka.
Fyrirkomulagið tilbúið
Í Morgunblaðsgreininni kemur fram að Skógræktin hefur hrundið af stað verkefninu Skógarkolefni til að koma á fót viðurkenndu ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt. Verða skógarnir sem ræktaðir eru samkvæmt þessu gæðakerfi hæfir til skráningar í Loftslagsskrá Íslands.
Fyrsta fyrirtækið til að ganga inn í þetta kerfi var Festi hf. sem er að undirbúa skógrækt á jörð sinni, Fjarðarhorni í Hrútafirði. Eskja á Eskifirði hefur einnig samið við Skógræktina um að veita ráðgjöf við þróun kolefnisverkefnis í landi jarðarinnar Freyshóla á Fljótsdalshéraði. Nú hefur Síldarvinnslan í Neskaupstað keypt jörðina Fannardal í Norðfirði og áformar að nýta hana til skógræktar. Viðræður eru við Skógræktina um að veita ráðgjöf við það verkefni. Þá hefur Orkubú Vestfjarða gert verksamning um þróun kolefnisverkefnis á þremur jörðum fyrirtækisins í Arnarfirði. „Okkur finnst þetta spennandi tímar og fögnum framtaki fyrirtækjanna,“ segir Þröstur við Morgunblaðið.
Þröstur upplýsir ennfremur að Skógræktin sé að ræða við að minnsta kosti fimm einkafyrirtæki til viðbótar um svipuð verkefni auk sveitarfélaga. Þá séu allmargir erlendir aðilar í viðræðum eða að spyrjast fyrir um möguleika á skógrækt á Íslandi. Skógræktin hefur samið við þrenn erlend samtök sem gefi fólki og fyrirtækjum kost á að kolefnisjafna sig og á í viðræðum við fimm til viðbótar. Þá segir Þröstur að erlend fyrirtæki, sum stór, hafi haft samband og vilji kolefnisjafna starfsemi sína með skógrækt á Íslandi.
Fjármagna plöntun hér
Í Morgunblaðinu kemur fram að erlendu samtökin sem Skógræktin hefur þegar samið við munu fjármagna skógrækt á jörðum sem Skógræktin hefur umsjón með. Það færir okkur gjaldeyristekjur ofan á annað. Annars segir Þröstur við blaðamann Morgunblaðsins að fyrirkomulagið geti verið með ýmsum hætti. Fyrirtækin geti keypt jarðir eins og sagt er frá hér að framan, samið við Skógræktina um að fjármagna skógrækt á jörðum hennar eða samið við bændur eða aðra landeigendur um að rækta fyrir þá skóg. Þá er möguleiki að taka upp samstarf við Kolvið eða önnur slík samtök. Þröstur segir að þegar landeigandi gerir slíka samninga sé hægt að planta mörgum trjám á stuttum tíma og rækta skóginn hratt. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta gengur fyrir sig á því landi Evrópu þar sem minnstan skóg er að finna. Kannanir hafa sýnt ríkan vilja til að breyta því.