c

Pistlar:

20. janúar 2022 kl. 13:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Það þarf meiri orku til orkuskipta


Þeir sem hafa skoðað það sem orkuspánefnd hefur verið að skila frá sér ættu ekki að verða hissa á því að það þarf meiri orku á Íslandi í framtíðinni. Það á líka við um flest þjóðfélög heims, samfara auknum mannfjölda og hagvexti þarf heimurinn á meiri orku að halda um leið og hann reynir að skipta yfir í græna orku, hvernig sem það breytingarferli verður leyst. Það er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvort þetta sé mögulegt, er hægt að bæta við orku um leið og jarðefnaeldsneyti er skipt út en það er uppspretta meginþorra þeirra orku sem við notum í dag? Þeir sem horfast í augu við vandann sjá að það þarf að breyta um hugsun og nálgun. Liður í því er að skilgreina kjarnorku og jarðgas sem grænt eins og vikið var að í pistli hér fyrir skömmu.orkavatn

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hjó á hnútinn fyrir skömmu. Hann sagði að reisa þurfi nýjar virkjanir til að framleiða allt að fimmtíu prósentum meiri raforku en nú, svo unnt sé að ljúka orkuskiptum í samgöngum á landi, sjó og í flugi. Hörður sagði ekki væri til næg orka fyrir orkuskiptin eins og staðan er nú. Aukin þörf nemi um tíu terawattsstundum. Hörður sagði að þetta byggði á greiningu orkufyrirtækja og þeirra samtaka en tók fram að þetta magn þurfi ekki strax. Orkuskiptin muni gerast hægt, því miður, segir Hörður. „Þau munu taka tíma í upphafi en svo mun orkuþörfin aukast þegar líður á næstu 20-30 ár,“ sagir Hörður í samtali við Morgunblaðið. Þetta er væntanlega sagt með þá staðreynd í huga að það tekur um 20 ár að fara í gegnum hönnunar- og samþykktarferil nýrrar virkjunar.

Bílar, skip og flugvélar

En hvað þarf að horfa til þegar orkuskipti eru rædd? Segja má að það séu þrír þættir; bílar eða samgöngur á landi, skipafloti okkar og flugvélarnar. Hörður bendir réttilega á að okkur hefur gengið mjög vel með rafvæðingu bílanna. Þá minni bílanna en hér hefur verið bent á í pistlum að líklega mun rafbílavæðingin ganga hraðar og áreynslulausar fyrir sig en við hugðum. Nánast allir framleiðendur bjóða góða rafmagnsbíla nú þegar og neytendur eru að taka þá í sátt. Rafbílar eru í örri þróun og flest bendir til að þeir taki hratt yfir.

En þá eru það stærri og þyngri bílarnir, flutningabílar, vinnuvélar og rútur. Margt bendir til þess að til að knýja þá þurfi aðrar lausnir svo sem rafeldsneyti. Hugsanlega mun rafhlöðutækni þróast hratt og duga fyrir þyngri bíla en Tesla hefur verið að reyna að þróa eigin flutningabíl en ekki treyst sér til að setja í almenna sölu. Líklega þarf að nota lífdísil eða rafeldsneyti fyrir skip og flugvélar fyrst um sinn. Rafeldsneyti krefst hins vegar talsvert meiri orku og það er mun verri nýting því samfara. Landsvirkjun telur því réttilega að ef við förum að nýta það í stóru magni þá munum við sjá mjög aukna orkuþörf. Þessu mótmæla talsmenn Landverndar harkalega og segja að enga þörf að sækja svo mikla orku, unnt sé að spara annars staðar og hagræða. Það má hafa samúð með því sjónarmiði en menn verða að átta sig á að ef Ísland ætlar að nýta rafeldsneyti í miklum mæli og flytja það út jafnvel þarf að ná í miklu meiri orku. Samorka hefur áætlað að til þess að ná fram fullum orkuskiptum í samgöngum innanlands, á landi, sjó og lofti, þurfi um 1200 MW. 300 MW þarf bara til að uppfylla núverandi markmið um útskiptingu jarðefnaeldsneytis.ljosaorka

Hvaða kostir eru í stöðunni til að virkja?

Augljóslega bíður það ríkisstjórnarinnar að losa rammaáætlun úr þeim viðjum sem hún er í, að stærstum hluta bera Landvernd og Vinstri-grænir ábyrgð á því að ferlið hefur brugðist. Eins og áður segir þarf að sýna mikla fyrirhyggju við öflun orku. Það þarf að undirbúa kosti bæði til skemmri tíma og til langs tíma því bygging virkjana tekur mjög langan tíma. Það tekur a.m.k. tíu ár að undirbúa virkjun. Það tekur að lágmarki fimm ár að fá leyfin og svo tekur fimm ár að byggja. Þannig að það tekur um það bil 20 ár að undirbúa virkjun. Þannig að þær virkjanir sem á að fá í notkun 2040 til 2050, þær þarf að skoða núna.

„En til skemmri tíma, ef við horfum til næstu 5-10 ára, þá hefur Landsvirkjun verið að undirbúa virkjun í Neðri-Þjórsá, sem er Hvammsvirkjun. Við höfum möguleika á að stækka jarðhitasvæðin fyrir norðan, sérstaklega Þeistareyki. Við erum með virkjanir á veituleið Blöndu, svona litlar vatnsaflsvirkjanir. Svo sjáum við möguleika í vindi þar sem við höfum bæði verið að skoða Búrfellssvæði og Blöndusvæði,“ sagði Hörður við Morgunblaðið. Þetta hljómar skynsamlega og af ábyrgð. Og svo má hafa í huga að ef kjarnorka er skilgreind græn gæti lítið kjarnorkuver, til dæmis á Austurlandi, verið valkostur vilji menn hlífa náttúrunni sem mest. En það er kannski lítil von að sátt yrði um það.