Sundabrautin er í traustum farvegi segir samgönguráðherra og engin ástæða er til að efast um heilindi hans í þeim efnum. En það á ekki við um viðsemjendur hans í Reykjavík. Núverandi meirihluti hefur leynt og ljóst unnið gegn lagningu Sundabrautar og Píratar beinlínis talað gegn henni eins og oft hefur verið bent á hér í pistlum. Um leið hefur meirihlutinn með skipulagsaðgerðum sínum útilokað hagkvæmar lausnir. Því er ástæða til að tortryggja tal um að nú sé Sundabraut komin á rekspöl - Og sér er nú hver rekspölurinn, áratugur þar til hún kemst í framkvæmd! Augljóslega er annað spítalaklúður í uppsiglingu.
Ferlið er skelfilega seinlegt, annað verður ekki sagt nú þegar liggur fyrir hver kostnaðurinn af töfunum er. Vinnu starfshóps um Sundabraut, sem hóf loksins störf í júní 2020 eftir margra ára tafir, er nú formlega lokið. Gert er ráð fyrir að mat á umhverfisáhrifum og nauðsynlegar skipulagsbreytingar taki 2 til 3 ár, frekari rannsóknir og hönnun 2 ár og útboðsferli stórrar framkvæmdar um 1 til 2 ár. Því er haldið fram að þessa verkhluta megi vinna að einhverju leyti samhliða og á allur undirbúningur við að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist árið 2026 og að Sundabraut frá Sæbraut að Kjalarnesi verði lokið árið 2031. Það eru því tæp 10 ár í að lofuð lok verði og þá er ekki gert ráð fyrir töfum vegna kærumeðferðar.
Stærsta vegaframkvæmd Íslandssögunnar?
Samgönguráðherra segir að Sundabraut verði ein stærsta einstaka vegaframkvæmd Íslandssögunnar, fyrir utan kannski Kóngsveginn, árið 1906. Það er rétt, en Kóngsvegurinn var nánast einnota framkvæmd á meðan Sundabraut er framkvæmd sem mun hafa gríðarleg áhrif á umferð, byggðaþróun og félagsleg samskipti. Það eitt og sér gerir hana arðbæra enda kemur upp úr kafinu að niðurstöður „félagshagfræðilegrar greiningar“ eru þær að lagning Sundabrautar er metin þjóðhagslega hagkvæm og feli í sér í mikinn samfélagslegan ávinning, hvort sem hún verði lögð með brú eða göngum. Kemur engum á óvart en þessi greining er búin að tefja verkið um tæpt ár en auðvitað hefði mátt ráðast í slíka úttekt miklu fyrr eins og margoft hefur verið hvatt til hér.
Gríðarlegur þjóðhagslegur ábati
Nú liggur semsagt fyrir það mat að þjóðhagslegur ábati af framkvæmdinni nemi 186 til 236 milljörðum króna, eftir útfærslu Sundabrautar með brú eða göngum. Mestur ábati felist hvort tveggja í minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu. Heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um hvorki meira né minna 150 þúsund km á hverjum sólarhring við opnun Sundabrautar. Þetta eru ótrúlegar tölur og við getum ætlað að 15 tonn af eldsneyti sparist á sólarhring eða 5.475 tonn á ári. Minnkun á svifryki og hávaða verður gríðarlega en líklega fara 10 þúsund færri bílar um Mosfellsbæ eftir að framkvæmdin er komin í höfn.
Nýjustu áætlanir gera ráð fyrir að kostnaður geti numið á bilinu 69 til 83 milljarðar króna eftir því hvort Kleppsvík verður þveruð með brú eða göngum. Það er því augljóslega margt sem mælir með Sundabraut eins og blasað hefur við þrátt fyrir tafir meirihlutans í Reykjavík. Hún er augljóslega gríðarlega arðsöm fyrir samfélagið, innri vextir eru um 11% hvort sem hún er um brú eða verður í jarðgöngum og þjóðhagslegur ábati til næstu 30 ára er áætlaður 186 til 236 milljarðar króna.