Flóttamenn í heiminum eru nú taldir vera um 84 milljónir talsins. Þar af eru 48 milljónir á flótta innan eigin lands en af þessum hópi teljast 27 milljónir vera hælisleitendur. Þetta eru tölur sem fengnar eru frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Á síðasta ári voru liðin 70 ár frá því að ríki heimsins fengu Samning um réttarstöðu flóttamanna frá 1951 til undirritunar. Samningurinn var gerður með stöðu flóttamanna vegna seinni heimsstyrjaldarinnar í huga en á honum hafa verið gerðar ýmsar uppfærslur, nú síðast 2018. Samningurinn frá 1951 kveður á um vernd grundvallarmannréttinda flóttamanna, réttindi þeirra, skyldur ríkja og vernd til handa þeim sem eru í hættu.
Fólk leggur á flótta af margvíslegum ástæðum. Það flýr stríð, ættflokkaerjur og þjóðernishreinsanir, hungursneyð, náttúruhamfarir, ofbeldi og mismunun af ýmsum toga. Frá örófi alda hefur fólk síðan fært sig til í leit að betra lífi og betri tækifærum. Einu sinni til ónuminna landa, í seinni tíð til þróaðri hagkerfa með betri og manneskjulegri þjóðfélög og stór velferðarkerfi. Hin seinni ár hefur færst í aukanna að skilgreina hluta flóttamanna sem fólk er flýr loftslagsbreytingar. Það er ný leið til að túlka þá sem áður flúðu þurrka og uppskerubresti.
Kerfi byggt fyrir aðra tíma
Tímaritið Economist benti á það í úttekt sinni á síðasta ári að þetta kerfi væri byggt upp við aðrar aðstæður en nú ríktu í heiminum. Grunnhugmyndin er þó alltaf sú að dreifa ábyrgðinni á fólk sem lendir í vandræðum. Það getur skapað vanda og í seinni tíð sjáum við viðleitni til að hafa áhrif á stöðu mála í nágranaríkjum með því að beina þangað flóttamönnum. Framferði Hvít-Rússa, Tyrkja og Marokkó-manna er kannski skýrasta dæmið um þetta eins og áður hefur verið vikið að.
Eins og kom fram hér að framan eru flestir á flótta innan eigin lands og svo hefur verið frá örófi alda. En nágranaríkin sitja einnig oft upp með vandann og nú hafa þau sum hver náð að nýta sér samningstöðu sína á öðrum vettvangi þó engin haldi því fram að þau séu sæl með hlutskipti sitt. Þannig greiðir nú Evrópusambandið um 6 milljarða evra til Tyrkja fyrir það að hýsa tæplega fjórar milljónir flóttamanna frá Sýrlandi. Tyrkir eru að hýsa trúbræður sína og það væri ekki sanngjarnt að ásaka þá fyrir framlag sitt þó þeir hafi vissulega reynt að nýta það í valdatafli þessa heimshluta. Tyrkir fara ekki leynt með þrýsting sinn á Evrópusambandið og telja að það eigi að greiða mun hærri upphæðir. Innflæði flóttamanna til Vestur-Evrópu minnkaði í kjölfar samningsins við Tyrki.
Alþjóðbankinn ákvað að láta Kólumbíumenn hafa 500 milljónir Bandaríkjadala til að ala önn fyrir Venesúelabúum á flótta erlendis. Alls hafa 5,1 milljón Venesúelabúa yfirgefið land sitt um mitt ár 2021. Af þeim teljast 186.800 vera flóttamenn, 952.300 hælisleitendur og 3,9 milljónir eru skilgreindir staðsettir á flótta erlendis. Ástandið í Venesúela er með ólíkindum en þeir eru ekki að flýja stríð heldur efnahagslega- og pólitíska óáran eins og oft hefur verið vikið að hér í pistlum.
Fleiri flóttamenn - fleiri múrar
Samfara aukningu í fjölda flóttamanna hafa ríki heimsins lagt meira á sig að byggja múra og girðingar. Þetta er í raun andstætt þeirri þróun sem okkur var tjáð að myndi eiga sér stað af hnattvæðingarfræðingunum samtímans, að heimurinn væri orðinn afmarkaður og landamæralaus. Undanfarna áratugi hefur orðið vart við aukningu í byggingu nýrra girðinga og múra sem hluta af landamærum milli ríkja innan alþjóðakerfisins. Þetta er að miklu leyti vegna ótta við utanaðkomandi í heimi eftir 11. september 2001 en önnur öfl eru einnig að verki. Hluti af þessum mannvirkjum er byggður í löndum sem hafa áhyggjur af félagslegum breytingum með hröðu innflæði fólks. Það eru þjóðfélög sem hafa ekki mikla reynslu af slíku og óttast allar breytingar. En það er svo sem einnig réttlætismál að þjóðir fái að stjórna aðflæði fólks inn á eigin yfirráðasvæði þó það geti sýnst óréttlátt í augum landlaus fólks.