Í Fréttablaðinu í gær sagði frá nýrri könnun sem leiddi í ljós að sextíu prósent ungmenna telja mannkynið dauðadæmt vegna hnattrænna loftslagsbreytinga. Blaðið vitnar í Kristján Vigfússon, sérfræðing í stefnumótun og aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík, sem segir að loftslagskvíði barna og ungmenna sé gríðarlegt áhyggjuefni. Hann telur að hægt sé að tala um faraldur er kemur að versnandi geðheilsu ungmenna. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hve alvarleg tíðindi þetta eru og minnist ég samtals við lækni um daginn sem lýsti því yfir að það það væri kvíði sem væri að hrjá landsmenn öðru fremur og hafði hann þungar áhyggjur af þróun mála.
Þáttur Ríkissjónvarpsins
En hvernig skyldi standa á þessu? Jú, undanfarin misseri hefur dunið á börnum og unglingum gengdarlaus áróður um væntanlegar hamfarir í loftslagsmálum. Þeir sem stunda þetta óábyrga tal hafa kosið að færa vígvöllinn inn í barnaherbergin og skirrast þannig ekki við að beita börnunum fyrir sig. Sá er hér skrifar hefur margoft gagnrýnt þetta og þá sérstaklega þátt Ríkissjónvarpsins sem telur sér skylt að láta þetta sama áróðursfólk framleiða fréttaefni ofan í börn. Þetta birtist í allskonar þáttum en við getum hér nefnt Krakkafréttir og þættina, Hvað höfum við gert og Hvað getum við gert. Síðarnefndu þættirnir tveir byggja mjög mikið á einhliða viðtölum við börn og það fer enginn í grafgötur með að stjórn og umsjón dagskrárefnisins er í höndum fullorðinna sem eru með þessu að framfylgja áhugamálum sínum sem þeir hafa síðan tekjur af. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem þarf að ræða nú þegar við blasir að það er búið að hræða líftóruna úr börnum og unglingum landsins. Fréttaval og myndskreytingar bæta ekki úr.
Það er barnaskapur hinna fullorðnu að halda að börnin finni upp hjá sjálfum sér að verða loftslagsinnar. Hvað segir ekki máltækið: Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Við höfum séð sterkar vísbendingar um það að ýmis samtök aðgerðasinna, hvort sem það eru baráttumenn fyrir nýrri stjórnarskrá eða hamfarasinnar í loftslagsmálum, kjósi að beita fyrir sig börnum og ungmennum. Þegar horft er á mótmælastöðu eða göngur ungmenna má sjá þessa sömu aðgerðarsinna (og stundum þingmenn) inni í hópnum miðjum. Það er undarlegt að þeir sem láta sig velferð barna skuli ekki hafa sett sig inn í málið.
Stanslausar fréttir af heimsendi
Í áðurnefndri frétt Fréttablaðsins nefnir Kristján Vigfússon áhrif frétta og umfjallanna um loftslagsmál. „Það sem er við að eiga eru stanslausar fréttir af heimsendaspá.“ Um leið bendir Kristján á að nemendur hans í námskeiði um sjálfbærni hjá HR spyrji æ oftar hvort baráttan sé ekki vonlaus. „Krökkunum finnst að þróunin sé svo langt gengin. Von þeirra liggur helst í nýrri tækni en vonbrigði þeirra eru stjórnvöld,“ segir Kristján. Þá heyri hann æ oftar í kennslustundum að nemendur hans ætli ekki að eignast börn, þar sem framtíðin sé svo óviss.
Kristján segir að í raun telji um 60 prósent ungmenna mannkynið dauðadæmt. „Þau upplifa sig valdalaus,“ segir Kristján. „Þau upplifa áföll, ótta, kvíða, geðraskanir, áráttuhegðun, hræðslu, einangrun, reiði, vonleysi og skömm.“
Kristján telur að stjórnvöld verði að bregðast við með auknum krafti. „Þetta er að verða faraldur og mun bitna á geðheilsu núverandi og komandi kynslóða. Loftslagsmálin eru nógu kvíðvænleg ein og sér en afleiðingar kvíðans einar og sér eru líka grafalvarlegt mál.“
Þetta er auðvitað döpur niðurstaða en umfjöllun fjölmiðla, loftslagssinna og álitsgjafa í kjölfar þessarar frétta vekur ekki vonir um að þetta muni breytast. Því miður.