c

Pistlar:

5. febrúar 2022 kl. 16:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er Kóralrifið mikla að deyja?

Fyrir áratug eða svo hófu fjölmiðlar að birta minningargreinar um Kóralrifið mikla (Great Barrier Reef) og sögðu það vera að deyja. Áhrifamikil lýsing fylgdi gjarnan með og vissulega hreyfði þetta við mörgum enda kóralrifið eitt af náttúrundrum heimsins. Þessi umræða hefur haldið áfram og náði líklega hámarki fyrir nokkrum árum þegar menn töldu sig greina umfangsmikla fölnun (e. bleaching) í rifinu. Það bera að taka fram að það er um 2.600 km langt og flatarmál er sambærilegt á við Ítalíu. Hér er því um gríðarstórt svæði að ræða sem getur í raun kallast ein stór lífvera þó það sé eðlisólíkt eftir svæðum og breiddargráðum. Í rannsóknum er því skipt í þrjú svæði. Mannkynið hefur alist upp við fegurð og sérstöðu þess og því viðkvæmt þegar því er haldið fram að það sé hreinlega að deyja, að mestu vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Vitaskuld hrökkva allir í kútinn við slíkar yfirlýsingar.koral

Brottrekinn vísindamaður

Þessi umræða hefur farið um heiminn og hefur eðlilega mest áhrif í Ástralíu. Hefur meðal annars borist inn í háskólaumhverfið í kjölfar brottreksturs dr. Peter Ridd sjávarlífsfræðings. Hann hefur lengst af starfað sem vísindamaður við James Cook háskólann í Ástralíu. Hann var hins vegar rekin þaðan 2018, meðal annars vegna ummæla sinna um ástand Kóralrifsins mikla. Peter Ridd er líklega einn af þeim vísindamönnum í heiminum sem hafa rannsakað kóralrifin einna mest. Hann taldi sig sýna fram á það með rannsóknum að rifið væri þrátt fyrir allt að þrífast vel og jafnvel betur en áður. Hann fór í mál við háskólann vegna brottrekstursins, vann það í undirrétti en tapaði í hæstarétti. Rétturinn taldi reyndar að háskólinn hefði unnið gegn tjáningarfrelsi hinnar frjálsu akademíu með brottrekstrinum en ákvæði starfsmannalaga og ráðningasamnings heimiluðu skólayfirvöldum eigi að síður að reka Ridd sem hefði meðal annars brotið siðareglur skólans. Úrslit málsins gáfu því báðum aðilum færi á að túlka niðurstöðuna sér í vil. Sumir telja þetta mál vísbendingu um hnignandi umræðufrelsi vísindanna á meðan aðrir telja að falsvísindamanni hafi verið vísað á dyr.

Pistlaskrifari hefur bæði lesið allmargar greinar um málið og hlustað á fyrirlestra og viðtöl við Peter Ridd og fleiri sjávarlíffræðinga, svo sem við sjávarlíffræðinginn og kóralrifjasérfræðinginn Gareth Phillips, sem er forstöðumaður hjá Reef Teach, en það er leiðandi vettvangur við að safna og deila upplýsingum um Kóralrifið mikla með rannsóknum, fræðslu og þjónustu við ferðamenn. Íslenskir fjölmiðlar hafa vitnað til hans um bætt ástand rifsins. Allt er þetta fróðlegt og sýnir að það er að mörgu að hyggja. Gareth Phillips bendir á að lífvera eins og Kóralrifið mikla komi og fari, þar eru umhverfisáhrif alsráðandi, einkum ísaldir. Núverandi kóralrif sé þannig um það bil 10 þúsund ára gamalt en greina meigi merki um 4 til 5 eldri lífverur af þessu tagi á þessum slóðum. Allt lífverur sem hafi fæðst og dáið.

Hitler og kóralrifið

Eins og gefur að skilja er umræða hér á Íslandi um ástand Kóralrifsins mikla. Þetta mátti til dæmis sjá í stuttri klippu úr þáttunum Hvað höfum við gert? með Sævari Helga Bragasyni stjörnuskoðunarmanni. Hann hefur heillað unga fólkið með ástríðufullum frásögnum af náttúrunni og vísindum henni tengd. Eiginlega íslensk útgáfa af David Attenborough! En stundum ber kappið hann ofurliði. Í umræddum þætti fullyrðir hann að kóralrif muni „hverfa á næstu áratugum, ef við breytum ekki okkar háttum.“ Að því loknu má sjá rithöfundinn Andra Snæ Magnason sem líkir framkomu okkar í garð kóralrifanna á einhvern hátt við Hitler og nasisma og með fylgir myndefni af Hitler, nasistafánum og gæsagangi (eftir ca 10 mínútur sést þessi kafli). Þetta efni virðist einkum ætlað börnum og unglingum en virðist hluti af einhverskona retorík hjá skáldinu. Þessi beiting myndefnis hlýtur að verða að teljast mistök hjá viðkomandi.koral2

Hugsanlega er þeim Sævari og Andra vorkunn, þeir eru hvorugur sérfræðingur í lífríki sjávar en líklega er dr. Rannveig Magnúsdóttir, spendýrafræðingur og sérfræðingur hjá Landvernd, betur fær um að skilja hin vísindalegu hlið málsins. Hún segir í þættinum að talið sé að þriðjungur af stóra kóralrifinu í Ástralíu sé ónýtt og skemmdir séu á um 90% af þessari stóru lífveru eins og hún orðar það. Þá lagði UNESCO til að Kóralrifið mikla yrði sett á lista yfir heimsminjastaði í hættu á síðasta ári.

Efni sem finnst frá Ástralíu er ekki beint að segja það sama og alls ekki áðurnefndur Peter Ridd. Hann heldur því fram að lífríki kóralrifsins gangi í bylgjum og geti skaðast til dæmis af fellibyljum sem geti kostað þau nokkur ár að vinna til baka. En það er einmitt eitt af því sem hann telur að hafi gerst undanfarin ár. Mikill vöxtur hafi hlaupið í kóralanna síðustu árin eftir að það var í lægð 2016. Nýjustu atburðir styðja þær fullyrðingar hans. Það er sem gefur ekki einfalt mál að meta stöðu svo stórs sjávarsvæðis en það styðst við rannsóknir þar sem meðal annars kafarar eru dregnir yfir mikið svæði og gefa sjónræna niðurstöðu. Ekki óumdeild aðferð en getur gefið sterkar vísbendingar.

Það er eðlilegt að menn fylgist vel með og meti ástand lífríkisins og ekki síst mikilvægra svæða eins og Kóralrifsins mikla. En ótímabærar minningagreinar, óstaðfestar fullyrðingar um dauða svæðisins og nasistafánar hjálpa ekki upplýstri umræðu nú þegar margt bendir til þess að þessi náttúrgersemi sé að endurnýja sig.