c

Pistlar:

17. febrúar 2022 kl. 15:13

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hneyksli breyta fréttastefnu CNN

Sjónvarpsstöðin CNN var að sumu leyti miðjan í andspyrnu bandarískra sjónvarps- og fréttamanna í forsetatíð Donalds Trumps. Opið stríð ríkti milli forsetans og sjónvarpsstöðvarinnar sem naut þess í stöðugt auknu áhorfi. Nú, tæpu ári eftir að Donald Trump hvarf af sjónarsviðinu, hefur áhorfið á stöðina hrunið. Og það sem verra er, þá virðist sjónvarpsstöðin hafa tapað trúverðugleika sínum. Þetta kemur ofan í vandræði fyrri ára en árið 2020 þurfti CNN að borga háar skaðabætur fyrir að ljúga upp á 16 ára ungling rasísku viðhorfi (Covington strákarnir). Nú virðist stöðin vera að þola erfið mál tengd starfsmönnum sínum í ljósi #metoo-umræðunnar. Allt leiðir þetta til minnkandi áhorfs.fAY1HUu3

Skýringin á áhorfsmissinum er tvennskonar. Annars vegar virðist CNN þurfa á manni eins og Trump að halda. Andstaðan við hann laðar áhorfendur að. Nú þegar hann hefur horfið að mestu úr sviðsljósinu hafa áhorfendur yfirgefið CNN í stórum stíl. Hins vegar hefur röð hneykslismála ekki heldur stuðlað að auknu áhorfi hjá stöðinni. Stórblaðið The New York Times hefur rakið málavexti þeirra undanfarna mánuði í ítarlegri fréttaskýringu en hér í pistlum hefur verið fjallað um lykilpersónur þessara hneyksla. Ætla má að þessar uppákomur kunni að hafa varanleg áhrif á fréttastefnu CNN.

Brotið siðferði

Brotthvarf Jeff Zucker, forseta CNN Worldwide, úr starfi vegna ástarsambands við undirmann sinn, er nýjast þessara hneyksla. Sumir telja þó að opinbera skýringin á brotthvarfinu sé yfirvarp og eitthvað annað og meira búi að baki. Það verður tíminn þó að leiða í ljós. Þá er ekki langt síðan einn helsti fréttaþulur og andlit fréttastofunnar, Chris Cuomo var rekinn úr starfi. Brottvikningu hans mátti meðal annars rekja til samstarfs og hylmingar með bróður hans Andrew Cuomo eins og rakið var hér í pistli fyrir áramót.cuomo

Þá hafa tveir virtir framleiðendur hjá stöðinni verið staðnir að óhugnanlegum kynferðisbrotamálum, barnaníði, sem sett hefur að öllum starfsmönnum stöðvarinnar mikinn óhug. Nú ríkir mikil óvissa um framtíð og mannaráðningar CNN sem í eina tíð var fremsta heimsfréttastofan sem sá jarðarbúum fyrir fréttum allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.

Á síðasta ári hófst rannsókn á Rick Saleeby fyrir meinta varðveislu nektarmynda af unglingi undir lögaldri. Framleiðandi CNN, John Griffin, er líka undir smásjá alríkisins grunaður um kynferðisbrot gegn fjórum unglingum. Aðallögspekingur CNN, Jeffrey Toobin, var rekinn fyrir að fróa sér í beinni útsendingu á Zoom-fundi, en ráðinn aftur um mitt síðasta ár. Í viðtali við sjónvarpsstöðina þegar hann kom til baka lýsti Toobin sjálfum sér sem „gallaðri manneskju sem gerir mistök“ og sagði hegðun sína „mjög kjánalega og óforsvaranlega“. Hugsanlega mun vefjast fyrir fréttamönnum að setja sig á háan siðferðisstall en Toobin var einn harðasti gagnrýnandi Trumps og sagði hann ljúga stöðugt og bera með sér siðferðilega lágkúru.

Kallar eftir annarri tegund blaðamennsku

Fyrir ári síðan virtist staða Chris Cuomo vera traust, Trump farin úr embætti og Chris hampað bæði innanhús og meðal blaðamanna fyrir að hafa staðið uppi í hárinu á forsetanum. Nú um miðjan nóvember birtist John Malone, leiðandi hluthafi í Discovery, sem á CNBC og hefur fjárfest mikið í CNN, og sendi mikilvæg skilaboð. „Ég vil sjá CNN þróast aftur í átt til þeirrar tegundar blaðamennsku sem stöðin byrjaði með sem var í senn upplýsandi og kröftug.“

Með þessu er hann augljóslega að svara þeim sem hafa verið að gagnrýna CNN fyrir að hafa lagst í trúboð og fylla fréttaþætti sína af skoðanamyndandi fólki af vinstri væng Demókrataflokksins og halda þannig uppi heldur einhliða umræðu. Nokkuð sem CNN var alltaf að gagnrýna Fox fréttastofuna fyrir.

CNN hafði aðeins tæplega 600.000 áhorfendur í lok síðasta árs. Hlaðvarpsstjórnandinn Joe Rogan með sína ríflega sjö milljónir hlustenda myndi líklega gefa lítið fyrir það.