c

Pistlar:

23. febrúar 2022 kl. 18:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Traustur ríkissjóður eða þjóðarsjóður?

Mjög jákvæð þróun varð á rekstri Landsvirkjunar á árinu 2021. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði var 29,5 milljarðar króna og hækkaði um 64% á milli ára í Bandaríkjadal talið. Rekstrartekjur Landsvirkjunar jukust um rúm 23% frá fyrra ári og voru meiri en áður í sögu félagsins. Fjölbreyttur hópur viðskiptavina sækist eftir að komast í viðskipti við félagið. Bætta afkomu Landvirkjunar á síðasta ári má því alfarið rekja til hækkunar á tekjum af sölu til stórnotenda.

Á síðasta ári lækkaði Landsvirkjun skuldir um tæpa 23 milljarða króna (175 milljónir Bandaríkjadala) frá upphafi árs. Í tilkynningu félagsins kemur fram að ekki er talin lengur þörf á að leggja áherslu á hraða lækkun skulda og hefur arðgreiðslugeta fyrirtækisins þar af leiðandi aukist. Í þessu ljósi áformar stjórn fyrirtækisins að leggja til við aðalfund um 15 milljarða kr. (120 milljóna Bandaríkjadala) arðgreiðslu vegna síðasta árs.fjarel

Þjóðarsjóður út af borðinu?

Fyrir nokkrum misserum voru menn uppteknir af því að setja upp sérstakan þjóðarsjóð og horfðu þá til arðgreiðslna frá Landsvirkjun og auðlindagjalds sjávarútvegsins. Hér í pistlum hafa verið uppi talsverðar efasemdir um slíkt, þegar upp væri staðið væri ríkissjóður hinn eini sanni sveiflujöfnunarsjóður og mestu skipti að hafa rekstur hans í lagi. Það kom á daginn þegar þurfti að bregðast við efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins. Síðan faraldurinn kom til sögunnar hefur ríkissjóður aukið skuldir sínar verulega og sem betur fer var hann fær til þess vegna góðrar stöðu. Því má segja að ríkissjóður sé hin eini sanni sveiflujöfnunarsjóður og fleiri virðast vera á því máli núna þar sem enginn er að velta fyrir sér að taka arðgreiðslur Landsvirkjunar þangað inn núna.

Óþarfa umbúðir

Það má meira að segja færa rök fyrir því að það setja upp sérstakan þjóðarsjóð sé óþarfa umbúnaður um ekki meiri fjármuni því áratugi tekur að byggja hann upp til þess að hafa einhver áhrif. Mestu skiptir að treysta stöðu ríkissjóð þannig að við Íslendingar sjáum það í lánakjörum og stöðugu gengi krónunnar. Það virðist reyndin núna þegar Seðlabankinn hefur afl og styrk til að halda gengi krónunnar þokkalega stöðugu.

Hugmyndin um þjóðarsjóð virðist stundum byggð á því að það sé skynsamlegt að reyna að koma fjármunum undan útgjaldaóðum stjórnmálamönnum. Það er virðingavert í sjálfu sér en ef stjórnmálamenn hafa ekki skilning mikilvægi trausts ríkissjóð núna eftir að horfa síðustu ár aftur í tímann þá læra þeir það aldrei.