c

Pistlar:

27. febrúar 2022 kl. 14:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvað gerir einangraður Pútin?

Segja má að Vesturlönd hafi vaknað upp við vondan draum við innrás Rússa inn í Úkraínu fyrir fjórum dögum síðan. Margir töldu að Pútin væri maður sem hægt væri að semja við og þó hann skilgreindi öryggishagsmuni Rússlands af mikilli hörku þá væri hægt að eiga samskipti og viðskipti við hann. Segja má að hugmyndin um spilltan Pútin, sem vissulega hyglaði sér og vinum sínum, væri orðin ásættanleg. Vesturveldin voru orðin vön því að rússneskir auðjöfrar kæmu og færu eins og þeim hentaði og væru orðnir hluti af borgarlífinu víða. London var í gríni kölluð Londongrad, rússneskir auðjöfrar keyptu glæsieignir út um allt í Englandi og voru hluti af gleðskapnum í ensku úrvalsdeildinni. Þegar Chelsea vann Evrópukeppni meistaraliða síðasta vor var Roman Abramovich hylltur af stuðningsmönnum félagsins. Stuðningsmenn annarra liða öskruðu eftir auðugum sykurpöbbum fyrir lið sín og skipti engu hversu spilltir þeir voru. Segja má að Newcastle hafi þar dottið í lukkupottinn þar sem hinn konunglegi Sádi-arabíski fjárfestingasjóður var talin öðrum ríkari. Titlar taka siðferði fram.ukranstr

Áður en innrásin hófst reyndu margir að hafa skilning á sögu Rússlands og þeim þjáningum sem rússneskur almenningur varð að þola í seinni heimsstyrjöldinni. Vesturveldin yrðu að taka tillit til þessa og því væri ósanngjarnt að ætla þeim að þola það að nágrannaþjóðir, sem ýmist hafa verið hluti af Sovétríkjunum eða rússneska keisaradæminu, væru komnar í hernaðarbandalag við Vesturveldin. Sumir reyndu að setja þetta í eitthvert skynsamlegt geópólitískt samhengi um leið og augljóst var að Pútin hafði að einhverju leyti endurreist rússneskt stolt, bætt innviði landsins og haldið alþjóðlegar veislur eins og heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu og ólympíuleika.

Pútin afhjúpar sig

En nú hefur Vladimir Pútin afhjúpað sig eins og fjallað var um hér í síðasta pistli. Hann er sannarlega hættulegasti maður heims. Nú er athyglin á það hvernig hann bregst persónulega við þeirri stöðu sem er að teiknast upp þar sem Vesturveldin eru að setja allsherjar lokun á hann um leið og þau reyna að styðja Úkraínumenn í hetjulegri baráttu þeirra. Nú þarf að meta hvernig brjálæðingurinn bregst við ef hernaðurinn dregst á langinn og hernaðaruppbygging eykst í nágranalöndunum. Hve lengi mun hann þola að vopn, vistir og hergögn berist inn í Úkraínu úr vestrinu? Nú er ljóst að almenningur og ráðamenn á Vesturlöndum sjá í gegnum lygaþvælu falsfréttasmiðju Rússa. Þeir sem áður voru þeim vinveittir eru að endurmeta stöðu sína. Meira að segja Kínverjar eru sagði efins um framferði Pútins og meta stöðuna þannig að þetta sé ekki heppileg þróun. Enginn vill óstöðugan mann með puttann á kjarnorkuvopnatakkanum. Hvernig bregst hann við ef hann missir stuðning heimavið? Tekst að fjarlægja hann áður en hann veldur óbætanlegum skaða?fleugar

Mislásu menn Pútin?

Einhverjir gældu við að hernaðaruppbygging Rússa á landamærum Úkraínu myndi aðeins leiða til staðbundinna átaka um héruðin í Austur-Úkraínu. Þannig hafði Pútin sjálfur talað, rætt um staðbundna aðgerð (e.special military operation). En svo virðist honum hafa snúist hugur. Allsherjarinnrás kom öllum á óvart þó svo virðist sem bandaríska leyniþjónustan hafi aldrei þessu vant verið nokkuð vel upplýst um áform Rússa. Umfang innrásarinnar hefur komið öllum á óvart, markmiðið virðist vera að taka yfir stjórn Úkraínu og vinna svo út frá þeirri stöðu.

Öll ríki sem eiga landamæri að Rússlandi verða að endurmeta stöðu sína. Í mörgum þessara landa eru rússneskir borgarar, stundum í svo miklum mæli að hægt er að tala um rússneskan minnihluta. Því miður mun þetta fólk verða fyrir áreitni sem mun enn auka vandann og hugsanlega búa til réttlætingu fyrir Pútin um frekari hernaðaraðgerðir. Í finnska þinginu er nú komið fram frumvarp sem leggur til þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu í Nató. Ef það nær fram að ganga, hvernig bregst brjálæðingurinn í Kreml við því? Þangað beinast nú augu heimsins.