Um öll Vesturlönd er fólk að endurmeta afstöðu sína til öryggis- og varnarmála í kjölfar innrásarstríðs Vladimírs Pútins Rússlandsforseta á hendur Úkraínumönnum. Þetta sést hér á Íslandi í afstöðunni gagnvart Atlantshafsbandalaginu (Nató). Það vakti athygli þegar Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík upplýsti að í ljósi stríðsins í Úkraínu hefði hann skipt um skoðun á Atlantshafsbandalaginu. „Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun af stjórnvöldum að gerast ein stofnþjóða Nató og við eigum að sinna því verkefni af þakklæti, metnaði og virðingu,“ skrifar hann núna í færslu á facebook síðu sinni eins og mbl.is og fleiri fjölmiðlar völtu athygli á, líklega vegna þess að um stefnubreytingu er að ræða hjá Jóni. Í færslu sinni upplýsti Jón að hann stæði á hugmyndafræðilegum tímamótum, en hann hafi verið „alinn upp í nokkuð miklum kommúnisma“.
Nú kann að vera að þetta sé að einhverju leyti uppgjör við fjölskyldusögu Jóns og það er auðvitað lofsvert hjá honum að sjá villu síns vegar. Það agnúast enginn út í friðarsinna. En þar með er ekki öll sagan sögð. Jón, þrátt fyrir galskapinn, var jú áhrifamaður í íslensku samfélagi og mótaði í senn þjóðfélagsumræðuna og tók þátt í stefnumótun og ákvörðunum sem vörðuðu öryggishagsmuni okkar á borgarstjóratímabili hans 2010 til 2014. Jón Gnarr lagði sérstaka áherslu á að hindra aðkomu okkar að ýmsum þáttum varnar- og öryggissamstarfs Íslands og Nató. Því má segja að stefna hans á þeim tíma hafi lagt stein í götu viðbragða og undirbúnings fyrir stríðsátök eins og nú eru að eiga sér stað. Hér er ekki verðið að teygja sig langt, hann þvingaði jú fram samning milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um að engin umferð herflugvéla yrði um Reykjavíkurflugvöll nema í þeim tilfellum þegar um leitar- eða björgunarflug væri að ræða. Í annan stað lagði hann til að herskipum yrði bannað að leggja að í Reykjavíkurhöfn og engar herflugvélar fengju að lenda í borginni. Við sama tilefni sagði hann að Ísland ætti ekki að vera í Atlantshafsbandalaginu.
Nú sjá allir hve mikilvægu hlutverki Ísland gegnir, sem herlaust land, þegar kemur að því að aðstoða slíkt flug og við að bjóða upp á hafnaraðstöðu. Ísland, lofthelgi landsins og hafnir hafa miklu hlutverki að gegna við sameiginlegar varnir Nató. Ákvörðun Jóns og félaga spillti fyrir undirbúningi þess og hafði án efa aukinn kostnað í för með sér. Hugsanlega mætti fara fram á skýrara uppgjör við ákvarðanir hans og stefnu en nú hefur birst. Væri til of mikils mælst að fá hreina og klára afsökunarbeiðni?
„Grínarinn sem varð leiðtogi“
Fræðimenn við Háskóla Íslands lögðust í skoðun á borgarstjóratíð Jóns Gnarrs og rannsókn um leiðtogahæfileika hans var birt undir heitinu „Jón Gnarr; Grínarinn sem varð leiðtogi.“ Þar er farið fögrum orðum um „innsæi“ grínarans. Jón er um margt áhugaverður maður en þarna virðist manni sem akademíuna hafi hreinlega langað að fá þá niðurstöðu sem hún fékk. Þar var til dæmis horft framhjá ásökunum um eineltistilburði sem höfðu fengið að þrífast undir stjórn Jóns en tilhneiging hans til að grínast með allt og alla getur valdið venjulegu fólki óþægindum, sérstaklega þegar það verður fyrir gríninu.
Að lokum tók samstarfsflokkur hans í borgarstjórn yfir ábyrgð og stefnumótun, grínarinn útvistaði í raun þeirri ábyrgð sem fylgir borgarstjóraembættinu. Akademían virtist ekki koma auga á það. Það er hins vegar rétt að Jón Gnarr kom inn eftir miklar pólitískar hræringar og við ríkjandi vantraust í samfélaginu öllu. Kosning hans var viðbragð frekar en að hún byggðist á nýrri stefnumótun, stefnumótun hans (eða skortur á henni) birtist fremur í störfum hans sem borgarstjóra eftir kosningar.
Nú segir Jón Gnarr. „Ég hef alla ævi átt í erfiðu sambandi við Nató. Ég hef látið bandalagið fara í taugarnar á mér. Ég hef líka látið, það sem mér hefur fundist, innihaldslaust Ísland úr Natókvak Allaballa, fara í taugarnar á mér.“
Vill forsætisráðherra fara úr Nató?
Þarna nefnir Jón til sögunnar „Natókvak Allaballa“ og vísar til þess sem allir þekkja að veigamikill þáttur í íslenskri stjórnmálaumræðu snýst um afstöðuna til Nató. Þannig hafa óteljandi mótmælastöður verið haldnar og tilheyrandi göngur. Undanfarið hefur pistlaskrifari fyrir forvitnissakir spurt þá sem talað hafa gegn Nató í gegnum tíðina hvort þeir séu sama sinnis og uppskorið vægast sagt óljós svör.
Segja má að andstaðan við Nató hafi verið lykilþáttur í stefnu vinstri manna allt síðan Ísland gekk í bandalagið. Arftaki þessarar andstöðu situr nú í forsætisráðuneytinu og stýrir viðbrögðum landsins við þeirri öryggisógn sem Ísland, eins og önnur Vesturlönd, búa nú við. Það getur verið að sú tillitssemi, sem forsætisráðherra nýtur dags daglega í hinni pólitísku umræðu, verði til þess að hún verði ekki krafin um svör um afstöðu sína eða flokksins þó að ástand heimsmála nú um stundir krefjist þess. Það er að sumu leyti hjákátleg niðurstaða í ljósi þeirra tíma sem við lifum um leið og allar þjóðir (og grínistar) eru að endurmeta öryggishagsmuni sína.