c

Pistlar:

3. mars 2022 kl. 22:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Rússland í ruslflokk lífsgæða


Allt síðan Rússar tóku Krímskagann hafa verið í gangi efnahagslegar refsiaðgerðir sem Rússar hæddust að lengst af um leið og þeir nýttu tímann til að undirbúa sig undir alvöru refsiaðgerðir. Tilraun nokkurra ráðamanna í Evrópu til að undanskilja sínar vörur vegna núverandi stríðs sýna að oft fylgir hálfur hugur slíkum að gerðum. Nú virðist þó loksins hafa myndast sterk samstaða og það stefnir í að Rússar verði að þola meiri efnahagslegar refsiaðgerðir en verstu martraðir þeirra gátu gefið til kynna. Eitt og sér skiptir ekki máli að IKEA hefur ákveðið að loka öllum 14 verslunum sínum í Rússlandi en þegar nánast öll vestræn fyrirtæki hafa ákveðið að gera slíkt hið sama fer málið að líta öðru vísi út. Opnun IKEA var á sínum tíma talin til marks um að nú stæði almenningur í Rússlandi loksins jafnfætis vestrænum neytendum. Sami almenningur sér nú fram á slíkt hrun lífsgæða að það hlýtur að snerta hann og án efa mun þetta auka á reiði Pútins til skamms tíma. Pútin hagar sér nú eins og maður sem búinn er að mála sig út í horn og hann veit að hann mun aldrei aftur eiga inngöngu í samfélag þjóðanna.ikea-rus

Ef planið hjá Pútin er að skera Úrkraínu í tvo helminga og taka eystri hlutann til sín þá er ljóst að Rússar verða að þola gríðarlega útilokun næstu árin. Öll diplómatísk- og efnahagsleg samskipti verða í lágmarki og það getur líka orðið vandasamt fyrir þær þjóðir sem hugsanlega vildu nálgast Rússa að gera það. Þannig ættu menn að fara sér hægt í að ætla Indlandi og Kína að þau haldi áfram samskiptum við Rússa eins og ekkert hafi í skorist.

Engin framtíð með Pútin

Það sem heldur Pútin á floti núna er að Rússland er kjarnorkuveldi og hefur neitunarvald í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Hann virðist þokkalega traustur innan veggja Kremlar sem stendur en óvíst er hvað valdakjarninn í kringum Pútin þolir honum lengi þá stöðu sem hann er búinn að koma þjóðinni í. Engar lýðræðislegar aðferðir eru til sem koma honum frá enda Rússland fyrri löngu orðið einveldi. Líklegt verður að telja að smám saman muni renna upp fyrir mönnum að Rússland á enga framtíð með hann við stjórnvölinn. Það verður enn meira áberandi eftir því sem stríðið dregst á langinn auk þess sem hann hefur ekki enn útskýrt fyrir löndum sínum hvað hann ætlar sér og hvaða framtíð hann hyggst bjóða þjóðinni uppá.

Engum dyst að nú býður rússnesku þjóðarinnar að fara nokkra áratugi aftur í tímann og unga fólkið mun spyrja hvort það sé þess virði. Það vill aðgang að neytendavöru, samfélagsmiðlum, streymisveitum og merkjavöru. Fyrri kynslóðir Rússa sættu sig við skort af furðu mikilli þolinmæði en það er alveg óvíst að unga fólkið gerið það. Allmikil mótmæli hafa verið í Rússlandi og þúsundir manna handteknar á hverjum degi. Dugar það til að halda almenningi í skefjum eða grípur Pútin til enn harðari aðgerða? Kínverjar stjórna algerlega samfélagsmiðlum og umræðu á sínu svæði. Fetar Pútin í fótspor þeirra og tekur í burtu þau litlu lýðréttindi sem almenningur hefur núnar?skuta

Ólígarkarnir í skotlínu

Þá er ljóst að Vesturveldin ætla að beita mjög víðtækum refsiaðgerðum og þær beinast einnig að rússnesku auðmönnunum (ólígörkum). Samskipti þeirra og Pútins hefur verið með margvíslegum hætti og hann hefir ávallt gætt þess að halda þeim á tánum. En nú er verið að hundelta þá og höggva að hinu vestræna lúxuslífi sem þeir hafa tamið sér. Það er óvíst að þeir geti beitt Pútin þrýstingi. Svo einangraður virðist hann vera. Það er spurning hvaða heimildir vestræn yfirvöld hafa fyrir sér en nú þegar hafa lúxusfley nokkurra þeirra verið kyrrsett. Hyggjast yfirvöld taka þær eignarnámi og við hvaða lög verður þá stuðst eða er bara um tímabundna kyrrsetningu að ræða? Það er erfitt að segja en bæði þýsk og frönsk stjórnvöld hafa þannig gripið inn í líf þeirra. Bandarísk yfirvöld hafa hrint af stað aðgerð sem ætlað er að skoða eignir og umsvif olígarkanna („KleptoCapture“). Roman Abramovich, sem virtist hafa ágæt samskipti við Pútin, hefur sett enska stórliðið Chelsea á söluskrá, hugsanlega verður það brunaútsala, í það minnsta virðist samningsstaða hans ekki sterk, frekar en annarra Rússa núna.