Það er eðlilegt að þeir sem hafa talið fyrir því að efla og styrkja varnir landsins - oft fyrir daufum eyrum - séu dálítið áminnandi í tali nú þegar ljóst er að Nató var þrátt fyrir allt svarið þegar kom að vörnum Íslands og hins vestræna heims. Það gat engin séð fyrir hegðun og ákvarðanir núverandi Rússlandsforseta en það var alveg hægt að sjá fyrir sér að það gæti risið upp stríðsógn frá ólýðræðislegum öflum.
Í allmörg ár hafa margir óttast þróun mála í Rússlandi þó erfitt hafi verið að ráða beinlínis í hvað stefndi. Dyntir eins manns virtust allsráðandi. Við höfum hins vegar orðið var við mikla hernaðaruppbyggingu og ný vinnubrögð rússneska hersins mörg undanfarin ár. Allt var þetta augljóst þeim sem vildu sjá og margir höfðu varað mjög eindregið við þessari þróun í ræðu og riti. Það var því útbreidd skoðun að Nató og þó sérstaklega einstök ríki sambandsins hafi flotið sofandi að feigðarósi og lítið gert til þess að efla og styrka varnir gegn þessari uppbyggingu Pútins. Nú blasir við að ógnin af Pútin og hernaðarhyggju hans var raunveruleg. Það ættu þeir að hafa í huga sem hafa talað hana niður undanfarið ár, barist gegn öllum tilraunum til að efla og styrkja Nató og innlendar varnir eins og vakin var athygli á hér í pistli fyrir stuttu. Oft þegar slíkt bar á góma var gert grín að öllu saman eins og sást í furðulegri umræðu um „byssumálið“ svokallaða árið 2014 þegar íslenska ríkið fékk gefins 150 hríðskotabyssur frá norska hernum. Tæplega 8.000 manns gerðust aðilar að facebook-síðunni „Skilum byssunum.“ Umræðan var í senn hysterísk og yfirdrifin. Byssurnar höfðu verið geymdar í kistu merkt norska hernum á Keflavíkurflugvelli og var einfaldlega færð yfir í kistu merkt Landhelgisgæslunni! Málið varð að stormi í vatnsglasi en afhjúpaði á sinn hátt að leiðandi aðilar í umræðunni tóku öryggismál hér á landi ekki alvarlega.
Flokkurinn sem vill fara úr Nató
Það er eðlilegt að menn staldri við núna og spyrji forsætisráðherra og flokk hennar um afstöðu þeirra til Nató. Vinstrihreyfingin – grænt framboð skilgreinir sig sem róttækan vinstriflokk sem leggur höfuðáherslu á jöfnuð og sjálfbærni. Ein af grunnstoðum flokksins er „alþjóðlegri friðarhyggja“. Þegar forsætisráðherra og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sem einnig kemur úr VG, hafa verið spurð um afstöðuna til Nató í kjölfar innrásar Rússa hafa þau farið undan í flæmingi og í raun sagt að athafnir þeirra í utanríkismálum komi stefnu flokksins ekkert við. Bæði hafa sagst fylgja stefnu ríkisstjórnarinnar í þjóðaröryggismálum og eru sjálfsagt ýmsir fegnir slíkum yfirlýsingum. Nema hvað! Einhver myndi vilja vita hvort þau sjái fyrir sér að bjóða fram þessa stefnu í næstu kosningum, nú eftir að hafa tekið þátt í starfi Nató af fullum krafti. Hafa má í huga að Sósíalíski vinstriflokkurinn (Sósíalistik Venstreparti), systurflokkur VG í Noregi, er einnig andsnúin Nató-aðild. Sama á við um hinn danska systurflokk, Enhedslisten, sem stóð gegn ákvörðun danska þingsins um aukin útgjöld til hermála nú um helgina. Þar er hörð andstaða við Nató. Framkvæmdastjóri Nató, Jens Stoltenberg er hins vegar jafnaðarmaður og hann eins og aðrir jafnaðarmenn á Norðurlöndum styðja Nató-aðild.
Ræðir jafnréttis- og umhverfismál
Til að glíma við þá mótsögn að taka af fullum krafti þátt í starfi Nató sem forsætisráðherra aðildarríkis hefur Katrín Jakobsdóttir farið þá leið að ræða fyrst og fremst jafnréttis- og umhverfismál á fundum sambandsins. Það hentar betur pólitísku baklandi hennar en umræða um öryggis- og varnarmál. Hugsanlega skiptir máli að hinn nýi íslenski Sósíalistaflokkur hefur verið gagnrýnin á störf Katrínar og Íslands innan Nató en sá flokkur ásamt Pírötum stendur nú fyrir hörðustu gagnrýninni á Nató. Í því ljósi væri forvitnilegt að fá svar við þeirri spurningu hvort andstaða við aðild að Nató verður áfram hluti af kosningastefnu VG, þó enginn vænti þess að flokkurinn fylgi því eftir í því stjórnarsamstarfi sem hann velur eftir kosningar.
Leiðrétting:
Réttara er að tala um Socialistisk Folkeparti (SF) sem systurflokk VG í Danmörku, þá frekar en Enhedslisten eins og gerir í greininni. SF er með því þverpólitíska samkomulagi sem var kynnt á sunnudaginn, þar sem m.a. voru kynnt aukin útgjöld til varnarmála, og þéttara samtarf við Nató og Evrópusambandið um varnarmál. SF hefur aldrei talað sérstaklega vel um Nató, aðallega vegna andúðar vinstri manna á Bandaríkjunum, en hafa heldur ekki verið harðir andstæðingar.
SF breytti hins vegar um áherslu fyrir rúmum áratug eða svo og tók að ræða um Nató sem einn af hornsteinum danskrar öryggis- og varnarmálastefnu.