c

Pistlar:

19. mars 2022 kl. 18:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stríðsrekstur og heildarmyndin

Hernaðarlegir og landfræðilegir hagsmunir Rússlands taka öðru fram, það sannar stríðið í Úkraínu ef við sneiðum framhjá hinni freistandi ályktun að Vladimir Pútin Rússlandsforseti sé orðinn brjálaður. Er hægt að orða slíka hugsun? Jú, það er í lagi hér á Íslandi en ekki í Rússlandi þar sem nú hefur verið lögfest að 15 ára fangelsi bíður þeirra sem gagnrýna eða segja óþjóðlegar fréttir af stríðsrekstrinum. Í eina tíð skrifaði Jónas heitin Kristjánsson ritstjóri DV í fyrirsögn leiðara að Boris Jeltsin væri róni. Jónas uppskar hörð mótmæli frá rússneska sendiráðinu sem krafðist þess að íslensk stjórnvöld hefðu afskipti af málinu. Íslensk stjórnvöld bentu á að tjáningarfrelsi ríkti á Íslandi og því yrðu Rússar að þola slíkt úr penna íslenskra blaðamanna.stríðsfr

Íslenskir fjölmiðlar standa sig að mörgu leyti ágætlega við að flytja fréttir af stríðinu í Úkraínu þó áherslur séu ólíkar. Þannig er áberandi að Ríkisútvarpið fjallar mikið um flóttamannavandann en síður um framvindu stríðsins. Gagnlegt var að hafa Jón Björgvinsson, fréttaritara Ríkisútvarpsins, á svæðinu en hann er margreyndur í slíku. Það er hins vegar ekki hægt að fara fram á að fréttamenn vinni á átakasvæði í langan tíma. Því verður ekki gerð athugasemd við að Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður hefði haldið heima á leið þegar stríðið hófst, Ríkisútvarpinu að óvörum eins og kom fram í heldur grátbroslegri yfirlýsingu. Það hefur í för með sér gríðarlegt álag fyrir fréttamenn að vera á vettvangi stríðs og nú þegar hefur orðið talsvert mannfall í þeirra röðum. Í Sýrlandi gerðist það að fréttamenn urðu lögmæt skotmörk hjá öfgafyllstu trúarhópunum sem ráku það stríð áfram. Þar og í Mexíkó hefur öryggi fréttamanna verið hvað lakast undanfarin misseri. Það hefur þó ekki stöðvað þá í að reyna að flytja fréttir af þessum svæðum en vitaskuld hefur það áhrif á fréttaflutninginn. Að jafnaði eru 100 til 120 fréttamenn myrtir á hverju ári við störf sín.

Spennufíklar

Það er sérstök tegund af fréttamönnum sem kjósa að starfa á átakasvæðum og fyrir suma verður þetta fíkn og þeir eiga erfitt með að aðlagast venjulegu lífi aftur. Um síðustu helgi sýndi Ríkissjónvarpið myndina Whiskey Tango Foxtrot sem fjallaði um veru bandarískrar fréttakona í Afganistan. Myndin var um margt forvitnileg og sýndi ágætlega hvernig stríðsfréttaritarar hverfa smám saman inn í það umhverfi sem þeir eru að fást við. Þetta er heimur spennufíkla eins og innfæddur leiðsögumaður segir við aðalsöguhetjuna þegar hann telur að hún sé augljóslega farin að stefna öðrum í hættu með framferði sínu. Það kemur til af því að hún þarf alltaf að fá stærra „fix“, hann líkir henni við heróínfíkla sem hann hafði umgengist. Þetta er rétt og myndin dregur upp eftirtektarverða lýsingu á hinum innilokaða heimi alþjóðlegra fréttaritara í Kabúl á meðan á stríðinu stendur. Þeir dansa, dufla, dópa og drekka á kvöldin þegar heimavist þeirra breytist í skemmtistað. Þeir eru í eigin heimi í framandi landi, að hluta til úr tengslum við allt sem þeir eiga þó að vera að fjalla um.mari covin

Ekki er langt síðan pistlaskrifari sá aðra mynd af líku tagi, Einkastríð, (A Private War) Þar var um að ræða eftirtektarverða lýsingu á lífi blaðakonunnar Marie Colvin sem frá árinu 1985 og allt til dauðadags starfaði fyrir breska dagblaðið The Sunday Times, lengst af við öflun frétta og frásagna frá stríðshrjáðum héruðum og löndum. Ástríða hennar fyrir starfinu gerði það að verkum að hún missti tengsl við hinn hversdagslega veruleika, gat ekki lifað á heimaslóð og þróar með sér þráhyggju og finnst eins og allir sitji á svikaráðum. Hið sérstaka ástand stríðsins verður að lokum eini veruleikinn sem gengur upp í hennar huga. Einkenni sem geta lagst á marga blaðamenn sem festast í tilteknum viðfangsefnum eða í baráttu við tiltekna andstæðinga.

Falsfréttir og upplýsingaóreiða

En upplýsingastreymi frá átakasvæðum er gríðarlega mikilvægt og skiptir miklu að fjölmiðlar hafi tækifæri til að staðreyna og meta áreiðanleika frásagna því falsfréttir og upplýsingaóreiða eru samofin stríðsrekstrinum. Því er vandasamt að takast á við það verkefni að fá einhverja sanna og heillega mynd af því sem gerist í Úkraínu, bæði á vígvellinum og ekki síður í hinu pólitíska ástandi utan hans. Nú eru samfélagsmiðlar mættir til leiks og allir eru með eigin upptökutæki í símanum sínum og geta nánast samstundis póstað myndum eða lýsingum af átakasvæðinu. Þetta er auðvitað einstakt en um leið hamast stríðaðilar við að rugla myndina og klæða sín sjónarmiðið í form frétta eða myndskeiða. Sem betur fer eru margir sem einnig eru í því að greiða úr óreiðunni þannig að það er hægt að fá þokkalega heillega mynd af stríðinu, en það þarf að hafa fyrir því. Það er svo sem ekkert nýtt þegar sannleikurinn er annars vegar, það er margt sem getur skekkt myndina.