c

Pistlar:

13. apríl 2022 kl. 14:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Aðför að heilsu kvenna - engin pólitísk ábyrgð?

Fyrir stuttu birtist frétt sem vakti furðu litla athygli. Þar var sagt frá því að það væri álit starfshóps, sem skipaður var af Læknafélagi Íslands, að yfirfærsla leghálsskimana frá Krabbameinsfélaginu, þar sem hún hafði verið í meira en hálfa öld, hafi ekki verið vel rökstudd, ekki vel framkvæmd og hafi ekki tekist sem skyldi þegar hún var framkvæmd á síðasta ári. „Stjórnunaraðilum í heilbrigðismálum landsins hefði átt að vera ljóst að vandaðri undirbúning og mun meiri tíma hefði þurft vegna þessa umfangsmikla verkefnis og að ekki yrði rof á þjónustu sem var til staðar gegnum leitarstarf Krabbameinsfélagsins,“ sagði í tilkynningu Læknafélagsins við þetta tilefni.husid

Þessi tilkynning virtist marka niðurstöðu á máli sem vakti talsvert mikla athygli á síðasta ári, kallaði á umræðu, bæði á Alþingi og í fjölmiðlum, en virðist eigi að síður ekki hafa neinar pólitískar afleiðingar. Breytir engu að yfirfærsla leghálsskimanna var hluti af stefnumótun þáverandi heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, og hún bar að sjálfsögðu ábyrgð á allri framkvæmdinni. Enginn gat í raun efast um að allt sem gat farið úrskeiðis fór úrskeiðis og ábyrgðin var ráðherrans.

Nú fer fram talsverð umræða um ábyrgð stjórnmálamanna og hvenær tilefni sé til afsagnar, meðal annars vegna nýfallinna ummæla formanns Framsóknarflokksins en þau þóttu svo óviðeigandi að fjölmiðlar keppast nú við að fá ráðherra til að endurtaka þau! Hafa menn þráttað um hvort algengt sé eða óalgengt að ráðherrar segi af sér, í íslensku og erlendu samhengi. Af því tilefni hafa verið rifjaðar upp afsagnir stjórnmálamanna eins og Alberts Guðmundssonar, Guðmundar Árna Stefánssonar, Björgvins G. Sigurðssonar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigríðar Andersen. Hvert og eitt dæmi á sérstakan aðdraganda og forsendur en ekkert þeirra á sér jafn sterk tengsl við heilsu og líf fjölda fólks eins og ákvörðun og framkvæmd Svandísar Svavarsdóttur. Krabbameinsleit í landinu var einfaldlega sett í uppnám og sjúklingar, starfsmenn og aðstandendur máttu þola mikla óvissu. Má rifja upp að ætlað sóttvarnarbrot fjármálaráðherra kom upp á líkum tíma og fékk margfalt meiri fjölmiðlaumfjöllun og stöðugt ákall um afsögn.krabb

Aðeins hálft ár til stefnu

Til upprifjunar má benda á að í júní 2020 fékk Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins það verkefni frá Svandísi Svavarsdóttur þáverandi heilbrigðisráðherra að framkvæmd leghálsskimunar skyldi vera í þeirra höndum. Var því aðeins rúmt hálft ár til stefnu. Ljóst var frá upphafi að þetta gengi ekki og segja má að allt hafi farið úrskeiðis í framhaldi málsins.

Svo var komið fyrir ári síðan að það ríkti vægast sagt undarlegt ástand í krabbameinsskimunum hér á landi og líklega hægt að segja að á þeim tíma hafi ríkt stjórnleysi og glundroði sem ógnaði heilsu kvenna, svo mjög að heilbrigðisstéttir sögðu stöðuna ótæka. Sýni sem höfðu verið tekin höfðu ekki verið greind mánuðum saman og fæðinga- og kvensjúkdómalæknar sögðu það ógna heilsu kvenna. Þá höfðu ekki verið greind svonefnd bráðasýni frá því í desember árið undan. Lausnin hafði átt að felast í að flytja sýni úr landi. Um það skrifaði Krabbameinsfélagið: „Þá eru ótalin öryggissjónarmið um að flytja lífssýni íslenskra kvenna úr landi. Á Ísland að vera upp á önnur lönd komin? Hver fer með eignarhald á sýnum sem hafa verið greind? Hver verður biðtíminn eftir niðurstöðum rannsókna? Þessi óþarfa ráðstöfun og vannýting á sérfræðiþekkingu og dýrum tækjabúnaði hefur ekki verið rökstudd.” Svör ráðuneytisins byggðust oftar en ekki á rangfærslunum og rangtúlkunum.sýnin heim

„Aðför að heilsu kvenna“

Það merkilega við þetta mál er að það virðist vera niðurstaða af pólitískri stefnumótun heilbrigðisráðherra sem hrinti af stað atburðarás sem setti málaflokkinn í uppnám. Þá til að þjóna þeirri stefnu hennar að allt skuli færast undir stjórn ríkisins/Landsspítalans (í þessu tilviki frá Krabbameinsfélaginu) og þá án þess að málið hafi verið undirbúið eða það kerfi sem átti að taka við var ekki tilbúið. Með því að fela kostnaðinn hjá Heilsugæslunni þá lét ráðherra í það skína að það væri verið að spara fjármuni með framkvæmdinni. Að hver skimun færi úr 5000 krónur í 500 krónur. Ekki verður betur séð en að það hafi verið blekking, komugjald á heilsugæslu dekkar fráleitt kostnaðinn.

Á meðan á málinu stóð varð til baráttuhópur, nokkurskonar grasrótarsamtök, sem bar nafnið, „Aðför að heilsu kvenna“ og var hann stofnaður í kjölfar þeirra einstöku stöðu sem kom upp í leghálsskimun kvenna í framhaldi af ákvörðun ráðherra. Það var varaformaður Læknaráðs Landspítala sem sagði það fyrirkomulag að senda leghálssýni úr landi til greiningar vera aðför að heilsu kvenna. Líklega er þarna um að ræða eitthvert mesta hneyksli heilbrigðiskerfisins undanfarinna áratuga. Á aðeins 16 dögum tókst að safna 5.440 undirskriftum á þremur tungumálum til að mótmæla stöðunni. Framan af þögðu fjölmiðlar um málið og enn í dag sleppur fyrrverandi heilbrigðisráðherra við óþægilegar spurningar vegna þess. Hefur ekki komið upp ákall um rannsóknarnefnd hjá Alþingi af minna tilefni?