c

Pistlar:

15. apríl 2022 kl. 12:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stjórnarskrár þekkingarinnar

Áður en ritaður texti birtist fyrir sjónum almennings getur margt farið úrskeiðis. Stafsetninga- og málsfarsvillur eru því miður algengar í bland við einfaldar innsláttarvillur og svo geta efnisatriði og staðreyndir máls vitaskuld skolast til. Í gegnum tíðina hafa fjölmiðlar reynt að vinna gegn þessu, á flestum fjölmiðlum starfa prófarkalesarar sem hafa yfirleitt nóg að gera og pistlahöfundur hefur oft þakkað þeim fyrir að bögumæli, málvillur og aðrar ambögur fara ekki lengra. Þá búa flestir fjölmiðlar við fyrirkomulag ritstjórnar sem þýðir að fréttastjórar og ritstjórar lesa yfir og meta efni áður en það birtist og fara yfir hvort það sé yfir höfuð hæft til birtingar eða hvort að birting þjóni einhverjum tilgangi. Margir fjölmiðlar hafa síðan sérstakar deildir sem reyna að skoða staðreyndir málsins („staðreyndatékka“) og eru þær deildir jafnvel hafðar óháðar ritstjórninni. Allt er þetta til vitnis um vönduð vinnubrögð en vissulega er ástæða til að óttast að slíkar áherslur séu á undanhaldi, sérstaklega á vefmiðlum þar sem efnið er birt nánast jafnóðum og það er skrifað. Það er í það minnsta eitthvað sem orsakar það að fjölmiðlar njóta stöðugt minna trausts á Vesturlöndum.ritstj

Pistlaskrifari las áhugaverðar vangaveltur um þetta vinnulag í nýlegri grein í The Economist en á ritstjórn blaðsins eru einmitt nokkur lög yfirlesara sem meðhöndla efni áður en greinar birtast. Þar er bent á að ekki megi gleyma einum þeim aðila sem hjálpar fjölmiðlamönnum einna mest, nefnilega lesendur sjálfir. Þeirra hlutverk getur verið mikilvægt ef fjölmiðlar hlusta á þá og ekki aðeins þá sem skjalla og mæra viðkomandi fjölmiðil. Fjölmiðill sem tekur það alvarlega að leiðrétta sig hlýtur að njóta meira trausts meðal lesenda.

Í takt við tímann

En fjölmiðlar eru svo sem ekki einir um að reyna að verjast staðreyndavillum og rangfærslum. Segja má að það eigi við um alla sem birta efni, hvort sem það er innan háskóla- eða vísindasamfélagsins, nú eða meðal þeirra sem taka þátt í stjórnmálum og þjóðfélagsumræðunni almennt. Um allt þetta ríkir ákveðið kerfi gagnrýnnar umræðu sem þarf að taka alvarlega. Í nýlegri bók eftir Jonathan Rauch, The Constitution of Knowledge, reynir hann að útskýra á hverju heilbrigð og gagnrýnin umræða byggist. Ólíkt öðrum stjórnarskrám hefur þessi enga áþreifanlega höfunda, byggir að hluta til á reynsluþekkingu sem hefur myndast í gegnum mistök fyrri kynslóða. Vissulega sækir þessi „stjórnarskrá þekkingarinnar“ grundvöll sinn til lýðræðisþróunar upplýsingarinnar og þeirra þjóðfélagsbreytinga sem borgaralega þjóðfélög hafa alið af sér undanfarnar aldir. Hún helst þannig í hendur við önnur réttindi borgaranna sem skapa grundvöll að lýðræðisþjóðfélagi nútímans með öllum sínum kostum og göllum. Tjáningarfrelsið er augljós grunnur að öðru frelsi mannsins.newsroom-768x479

Skáld eða blaðamenn?

Það hefur hins vegar tekið tímann sinn fyrir fjölmiðla að temja sér þessi vinnubrögð. Lengi vel voru fjölmiðlar í nánum tengslum við skáldskap þess tíma, nánast eins og samvaxnir tvíburar og margir blaðamenn 19. aldar töldu sig fremur vera skáld en blaðamenn. Það átti við líka hér á Íslandi. Sannleikurinn var ekki markmið heldur að ná athygli lesenda, nánast sama hverju til var kostað. Þannig var algengt að blaðamenn semdu fréttir sínar með það eitt í huga að fá lesendur og athygli. Sannleikurinn var þannig engin frumforsenda fyrir starfi blaðamannsins. Þetta sást ágætlega þegar blaðið New York Sun birti árið 1844 áhugaverða „frétt“ um loftbelgur hitaður upp með heitu lofti hefði komist yfir Atlantshafið. Höfundurinn er þekktur fyrir annað en blaðamennsku en hann hét Edgar Allan Poe.

Að misnota formið

Segja má að 20. öldin hafi innleitt ný vinnubrögð. Fjölmiðlar tóku að starfa eftir skráðum og óskráðum reglum og bæði blaðamannastéttin og blaðamenn fóru að setja sér siðareglur til að auka á trúverðugleika sinn og innleiða vinnubrögð sem lesendur gætu treyst. Þetta hélst í hendur við breytingar á allri þekkingarfræðilegri nálgun og var ekki bundið við fjölmiðla, segja má að heimspeki Karls Poppers hefi fært stjórnarskrá þekkingarinnar aðferðafræðilegar forsendur. Blaðamenn eins og aðrir urðu að sækja fréttir sínar frá ólíkum heimildum og meta betur hvaðan upplýsingar komu. Þannig er heimildamaður sem talar í eigin nafni mikilvægari en nafnlaus heimild. Nafnlaus heimild er tvíeggja sverð fyrir blaðamenn og getur höggvið að trúverðugleika þeirra. Ef heimildin er í raun nafnlaus málpípa þekkingarfræðilegra takmarkanna blaðamannsins eða jafnvel skoðana hans er augljóst að hann er að misnota formið. Þetta er algengara vandamál en menn átt sig á.

En heimur þekkingarinnar er undir stöðugum árásum og áskoranirnar eru endalausar. Við sjáum í einföldu spjalli á samfélagsmiðlum að menn getur greint á um það sem áður mátti telja staðreyndir, einfaldlega vegna þess að upplýsingar koma úr mörgum mismunandi áttum og sumir leyfa sér þann munað að trúa því sem þeir vilja. Ankannalegast verður þetta samspil samfélagsmiðla og þekkingar þegar reynt er að stýra þessu samtali með aðferð ritstjórnarinnar sem nefnd var hér að framan. Þá breytist ritstjórnin í ritskoðun eins og við höfum til dæmis séð á Twitter og er líklega höfuðástæða þess að ríkasti maður heims hefur gert yfirtökutilboð í miðilinn með það að markmiði að gera umræðuna frjálsa. Það verðskuldar annan pistil.