c

Pistlar:

17. apríl 2022 kl. 13:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Auðmaðurinn og umræðutorg heimsins

Bandaríski viðskiptaheimurinn hefur staðið á öndinni nú yfir páskanna í framhaldi af tilraun ríkasta manns heims til að taka yfir samfélagsmiðilinn Twitter. Miklar vangaveltur hafa verið um það hvað Elon Musk gangi til með tilboði sínu upp á 43 milljarða dala í Twitter en hann er talinn eiga 273 milljarða dala samkvæmt nýjasta verðmati. Ekki er langt síðan hann spurði fylgjendur sína á Twitter (sem eru 82 milljónir talsins) hvort hann ætti að selja hlut í Teslu, meðal annars til að borga skatta en þá höfðu demókratar með öldungadeildarmanninn Elizabeth Warren í broddi fylkingar kvartað yfir skattgreiðslum hans. Niðurstaðan var sú að Elon seldi 10% hlut í Tesla, borgaði skatta af því og situr eftir með fullar hendur fjár.musktw

En þó að Elon Musk sé opinskár um margt eiga margir erfitt að átta sig nákvæmlega á því hvað honum gengur til með aðkomu sinni að Twitter, þessu spjalltorgi þorpsins eins og honum verður tíðrætt um. Elon Musk hefur sagt að hann vilji frelsa samfélagsmiðilinn undan ritstjórnaráráttu og gera hann að sönnum kyndilbera tjáningarfrelsis í heiminum. Fyrirætlun Elon hefur glatt marga hluthafa í félaginu en ekki endilega stjórnendur Twitters sem nú beita öllum ráðum til að ónýta yfirtökutilboð Elons, meðal annars klækjum sem alla jafnan hafa ekki gott orð á sér í Bandaríkjunum þar sem allmennt viðhorf er að það sem er á annað borð á markaði sé þar með til sölu.

Óvenjulegur frumkvöðull

Elon Musk er engin venjulegur milljarðamæringur og alloft hefur verið fjallað um hann hér í pistlum. Honum hefur tekist að gera bílafyrirtæki sitt að verðmætasta bílamerki heims á til þess að gera stuttum tíma. Gríðarlegar væntingar eru í verðmati á bréfum Tesla en Elon Musk hefur bitið af sér allar úttöluraddir um leið og hann hefur verið með mörg önnur fjárfestingaverkefni í gangi. Svo mjög að menn undrast stundum kraftinn og ákafann og hefur því verið spáð með reglulegu millibili að hann fari fram úr sjálfum sér. Á tímabili var Tesla í skotlínu skortsölumanna en Elon tókst að standa þá áraun. Hann sagði í spjalli á Ted nú fyrir helgi að árin 2017 til 2020 hafi verið erfiðustu ár ævinnar og hann viðurkennir að félagið hafi rambað á barmi gjaldþrots á þessum tíma og hann hafi sofið á gólfi verksmiðjunnar til að blása samstarfsmönnum baráttuanda í brjóst.

Opinn algóritmi

Elon Musk þekkir erfiðleika. Hann gengst við því að vera með Asperger-heilkenni einhverfu og segist hafa þurft að þola stríðni og einelti í skóla. Hann stamar gjarnan og er mjög óvenjulegur í allri framkomu eins og sést ágætlega í áðurnefndu spjalli á Ted. Þar fer hann ágætlega yfir áform sín varðandi Twitter. Honum finnst eins og áður sagði að það sé of mikil stýring á efninu þar og frægast er auðvitað þegar miðilinn lokaði fyrir Donald Trump Bandaríkjaforseta (en leyfði ýmsum hryðjuverkasamtökum að halda áfram).

Það er ekkert leyndarmál að hægri menn telja að ritskoðun miðilsins beinist að þeim og sjónarmiðum þeirra og sé hluti af þeim „woke-isma“ sem ríkir í bandarískri umræðu. Þannig séu algóritmarnir sem stýra umræðunni forritaði með vafasömum hætti og Elon Musk segist ætla að gera þá opinbera og draga þannig úr leyndarhyggju í kringum þá. Aðrir segja að fyrir þessum sjónarmiðum séu fá rök önnur en vænisýki hægri manna.twitt

Hér hefur áður verið fjallað um það vandasama hlutverk að ritskoða efni sem birtist á samfélagsmiðlum en her manna vinnur við að taka út óæskilegt efni sem misbýður fólki, svo sem ofbeldisefni. En það hefur einnig komið í ljós að tilraunir til að standa gegn falsfréttum eða upplýsingaóreiðu geta snúist upp í andhverfu sína. Ef fréttir um Trump og cóvid eru ritskoðaðar efnislega þýðir það þá að allt annað efni sé í lagi? Tjáningarfrelsi er vandmeðfarið og ef þú ert með torg hugmynda og skoðana - eins og Elon talar um Twitter - þá verða allir þorpsbúar að fá að vera með. Óvíst er þó hvort Elon tekst að ná tökum á fyrirtækinu og líklega verða næstu vikur fullar af fréttum um þessa athyglisverðu stöðu.