c

Pistlar:

19. apríl 2022 kl. 22:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Páskauppreisnin í Svíþjóð

Svo virðist sem sænska lögreglan hafi misst tökin á nokkrum bæjum í Svíþjóð um páskana og orðið að láta undan síga fyrir æstum múgnum um tíma. Samkvæmt fréttum sænskra fjölmiðla virðast hátt í 30 lögreglumenn hafa slasast og margir mótmælendur einnig. Tugir lögreglubíla voru eyðilagðir. Hátt í 50 manns hafa verið handteknir. Eignatjón var umtalsvert en kveikt var í bílum í nokkrum bæjum og þá var kveikt í það minnsta í einum skóla. Svíar telja þetta einhver verstu mótmæli gegn lögreglu í landinu, eiginlega var þetta fordæmalaust ástand og lögreglumenn hafa séð sig knúna til að játa að þeir hafi ekki haft nein tök á ástandinu um leið og þeir biðja venjulega borgara afsökunar á að hafa orðið að hverfa af átakavettvangi. Rétt eins og á við um sænska herinn þá hefur sænska lögreglan búið við fjársvelti og á engan hátt tilbúin í ástand sem þetta, hvorki þegar kemur að búnaði né þjálfun. Í nýlegum leiknum framhaldsmyndaþætti sem Ríkissjónvarpið sýni sást glögglega hve gríðarlegir erfiðleikar fylgja því að reyna að halda uppi löggæslu í fjölmenningarsamfélagi eins og nú má finna í Malmö. Þetta ástand ætti því ekki að koma á óvart því sænskar bækur og kvikmyndir eru nokkuð uppteknir af breyttri þjóðfélagsskipan. Þórhallur Heimisson, prestur í Svíþjóð, sagði í samtali við Bylgjuna í morgun að 70 morð væru nú óupplýst í Svíþjóð.sænsur bruni

Atburðarásin

Upphaf átakanna er rakið til þess að á skírdag brenndi Rasmus Paludan, leiðtogi danska flokksins, Stram kurs, Kóran og hafði tilkynnt um það fyrirfram. Múslimar telja slíkt helgispjöll er varði dauðarefsingu eins og margt annað sem telst samkvæmt vestrænni hugmyndafræði storkandi framferði. Rasmus ætlaði að gera hið sama í Linköping en áður en hann komst þangað brutust út óeirðir þar sem þrír lögreglumenn slösuðust og kveikt var í lögreglubíl. Um kvöldið kom einnig til óeirða í Nörrköping þar sem 15 bílar brunnu, ráðist var á sporvagn og grjóti var kastað að slökkviliði og lögreglu. Á föstudaginn langa brenndi Rasmus annan Kóran í Rinkeby í Stokkhólmi, þar sem grjóti var hent í lögregluna. Átta voru handteknir. Síðar um daginn mætti Stram kurs í Örebro. Margir lögreglumenn urðu þar fyrir grjóti og einnig almennur borgari. Síðan voru margir lögreglubílar brenndir og rænt úr þeim. Á laugardaginn hafði Paludan fengið leyfi fyrir samkomu í Landskrona en hún var flutt til Malmö. Á báðum stöðum kom til óeirða með grjótkasti og bílabrunum. Aðfararnótt páskadags réðust mótmælendur á strætisvagn með farþegum í Malmö og hentu logandi hlutum inn í vagninn þannig að kviknaði í bílnum. Snarræði bílstjórans leiddi til þess að allir farþegar komust heilir frá borði en bíllinn brann til kaldra kola.

Á páskadag hafði Paludan tilkynnt að hann hygðist mæta í Norrköping og Linköping en mætti ekki. Í Nörrköping söfnuðust á annað hundrað óeirðaseggir saman og lögreglan taldi sér ógnað, skaut og særði þrjá þeirra. Á páskadagskvöldið og aðfaranótt annars í páskum söfnuðust ungmenni saman í Rosengård í Malmö þar sem kveikt var í á mörgum stöðum og lögreglunni mætt með grjótkasti. Einnig var kveikt í skólabyggingu. Það er merkilegt að nákvæmustu upplýsingarnar um atburðarásina hér á heima á Íslandi fást á facebook-síðu Ingibjargar Gísladóttur sem þaulles sænska fjölmiðla og er stuðst við lýsingu hennar hér.

Tjáningarfrelsi Rasmus Paludan

Rasmus Paludan er með sænskan og danskan ríkisborgararétt en faðir hans er sænski blaðamaðurinn Tomas Polvall. Rasmus er lögfræðingur að mennt og hefur látið nokkuð til sín taka í málum sem takast á við kerfið. Íslenskir fjölmiðlar lýsa honum iðulega sem hægriöfgamanni en í viðtali við vefmiðilinn Samnytt segist hann alls ekki vera það og enginn öfgamaður heldur. Öfgamenn beiti ofbeldi eða hótunum og það geri hann alls ekki. Þess ber að geta að engin skemmdaverk voru unnin í Svíþjóð af Rasmus né fylgjendum hans.

Rasmus segist í áðurnefndu viðtali vera þjóðhollur og frjálslyndur (libertarian), elski frelsi og vilji minni ríkisafskipti. Það að hann sé þjóðhollur merki bara að hann elski danska og sænska þjóð. Í viðtalinu var hann spurður af hverju hann brenndi Kóraninn. Svar hans var að hann vildi koma því til skila að sér fyndist hugmyndafræði íslam vera afar heimskuleg og að enginn geti bannað sér að brenna bók í eigin eigu. Slíkt sé leyfilegt í Svíþjóð; menn megi gagnrýna hugmyndir í Svíþjóð og íslam sé hugmyndafræðilegt kerfi. Hann er reyndar ekki einn um að skilgreina íslam sem hugmyndafræði, það hafa ítölsk yfirvöld meðal annars einnig gert.bruni

Einnig var hann spurður út í þá gagnrýni að mótmæli hans væru of kostnaðarsöm fyrir skattborgarana og bitnuðu á lögreglunni. Því svarað i hann þannig: „Það er ekki ég sem beiti sænsku lögregluna ofbeldi og það er ekki ég sem brenni bíla. Sænskir stjórnmálamenn hafa í 40 ár fylgt þeirri stefnu að fólk þeirrar tegundar sem brennir bíla og ráðist á lögregluna fái að dvelja í Svíþjóð. Sænska þjóðin hefur valið stjórnmálamenn sem hafa tekið þær ákvarðanir. Ég reyni að sannfæra Svía um að þær ákvarðanir hafi verið slæmar.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Rasmus kemur róti á íslamista í Svíþjóð en á síðasta ári var kona og ungur maður dæmd fyrir að hafa staðið fyrir íkveikju árið á undan í Rosengard-hverfinu. Þau töldu sig hafa verið að mótmæla áformum Rasmusar en 13 einstaklingar höfðu verið ákærðir vegna þeirra óeirða. Rasmus nýtur verndar lögreglu allan sólahringinn og fyrir tveimur árum var reynt að ráða hann af dögum í árás með hníf.

Sænsk yfirvöld í vanda

Mikill vandi steðjar að sænskum yfirvöldum. Anders Thornberg ríkislögreglustjóri Svíþjóðar segir að páskauppþotið sé óvenjulegt, því þar hafi markmiðið verið að skaða lögregluna eins mikið og hægt væri. Morgan Johansson, dómsmálaráðherra, kallar Rasmus vandræðamann í viðtali á TV 4 en segir að áfram eigi jafnvel að gefa hægriöfgamönnum leyfi til að mótmæla. Hann vill meina að fleiri lönd en Svíþjóð þurfi að þola uppákomur eins og þær er urðu í Austurgotlandi, Stokkhólmi og Örebro á síðustu dögum en þær kalli þó á endurmat. Lögreglan gæti þurft að vera betur mönnuð, búin réttum tækjum og hafa fengið þjálfun í að takast á við svona atburði. Einhverjir gætu spurt af hverju Rasmus sé leyft að kveikja í Kóraninum en aðrir spyrja af hverju fólki var leyft að mótmæla mótmælum hans! Er hér um lýðræðislega þverstæðu að ræða?bruni sv

Þórhallur Heimisson sagði að skipulag mála í Svíþjóð torveldaði að bregðast við atburðum eins og páskauppreisninni. Það vanti sterkara miðstjórnarvald og sveitastjórnarstigið ráði ekki við lögregluaðgerðir af þessu tagi. Það sé augljóst að glæpagengi tengd innflytjendum séu orðin sterk en tilvist þeirra staðfestir að margra dómi að innflytjendastefna Svía hefur mistekist. Ofbeldi í sænsku samfélagi er að aukast og glæpaklíkur eru að styrkja sig. Sífellt fleiri svæði eru nú talin varasöm fyrir lögreglu og almenna borgara (e.no-go zones). Það eru svæði sem lögregluyfirvöld segja að „einkennist af lágri félagslegri stöðu þar sem glæpamenn hafa áhrif á nærsamfélagið“. Á síðasta ári var þremur nýjum slíkum svæðum bætt á lista lögreglunnar, öllum á Stokkhólmssvæðinu. Það eru Grantorp/Visattra í Flemingsberg og Fisksätra í Nacka, auk Valsta í smábænum Sigtuna, einni elstu og sögufrægustu borg Svíþjóðar. Tvö svæði voru um leið tekin af listanum.