Forsætisráðuneytið auglýsir með heilsíðuauglýsingu í dag eftir leiðtoga til að leiða samhæfingu verkefna á sviði „sjálfbærrar þróunar og réttlátra umskipta“. Í auglýsingunni kemur fram að um er að ræða nýtt starf og að viðkomandi hafi tækifæri til að koma að mótun verkefnisins. Útlistun starfsins birtist í þessum orðum: „Meðal áhersluatriða er mótun stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun, samvinna við sveitarfélög og við aðila vinnumarkaðarins um réttlát umskipti („réttlát umskipti“ eru tvítekin í stuttri auglýsingu) og samhæfing ólíkra ráðuneyta við eftirfylgni aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.”
Þetta er í fyrsta sinn sem forsætisráðuneytið auglýsir eftir einstaklingi til þess að koma beinlínis að málefnum umhverfis og sjálfbærrar þróunar og er þessi málaflokkur þó orðinn fyrirferðamikill í stjórnsýslunni og er sagður vera helsti áhersluþáttur nýrrar ríkisstjórnar sem tók sér ríflega tvo mánuði í haust til þess að endurnýja heitstrengingar sínar um samstarf í ríkisstjórn.
Undirritaður hefur fjallað talsvert mikið um umhverfis- og loftslagsmál hér í pistlum og sérstaklega í kringum loftslagsráðstefnuna í Glasgow í haust. Þar gegndi forsætisráðherra stóru hlutverki og tók þátt í því serimóníum ráðstefnunnar og var fremst í flokki hersveitar úr stjórnsýslu og stjórnmálum sem skundaði til Glasgow. Þá vakti pistlahöfundur athygli á því að forsætisráðherra er ekki sérfræðingur í loftslagsmálum, hennar sérfræðisvið er bókmenntafræði með áherslu á glæpasögur. Það hittir kannski ágætlega á þar sem einn helsti talsmaður loftslagsógnarinnar hér á landi er prófessor í bókmenntum við Háskóla Íslands.
Hvað með að ráða vísindaráðgjafa?
Við þetta tækifæri skrifaði pistlahöfundur: „Forsætisráðherrar njóta þess að hafa aðstoðarmenn og aðgang að sérfræðingum. Það gæti verið umhugsunarvert að þrátt fyrir yfirlýst mikilvægi loftslagsmála og áhuga forsætisráðherra á málaflokknum þá er engin í forsætisráðuneytinu sem getur talist sérfræðingur í loftslagsmálum. Allmargir nýir starfsmenn hafa verið ráðnir inn í forsætisráðuneytið síðan Katrín kom inn, stór hluti þeirra á sviði jafnréttismála enda hefur ný skrifstofa um þann málaflokk verið sett upp eins og fréttir hafa verið af. En það er engin sem getur talist sérfræðingur í loftslagsmálum starfandi í forsætisráðuneytinu.“
Auðvitað hefur forsætisráðherra og stjórnsýslan aðgang að fólki með grunn í vísindum og þekkingu á loftslagsmálum. En við erum stöðugt áminnt um að það þarf að vera til staðar gagnrýnin hugsun og að menn hætti ekki að efast og spyrja spurninga. Nú síðast vorum við minnt á það hvað þekking á mörgu í umhverfismálum stendur á veikum stoðum. Fullyrðingar, sem haldið hefur verið á lofti á Íslandi árum saman um losun koltvísýrings og annarra meintra gróðurhúsalofttegunda úr framræstu landi, eru óravegu frá því að geta staðist, ef marka má niðurstöðu nýrra rannsókna sem birtar hafa verið af Landbúnaðarháskóla Íslands. Marga rak í rogastans enda eru aflátssölubréf á framræstar mýrar þegar orðin ábatasöm atvinnugrein. Stendur ekkert á bak við það nema fullyrðingar út í bláinn? Um var að ræða skekkju upp á tæplega 90% af fyrra mati um koltvísýringslosun. Stærð sem gerbreytir öllum forsendum enda væri þá losun aðeins 1-5 tonn á hektara - ekki 20-30. Hingað til hefur heildarlosun frá þurrkuðum mýrum á Íslandi verið áætluð um 8 milljónir tonna á ári en gæti samkvæmt þessu verið ein milljón tonn. Til að benda á stærðir þá er talið að Carbfix verkefnið í sinni ýtrustu útgáfu geti bundið 3 milljónir tonna á ári, með óheyrilegum tilkostnaði. Eftir að þessar tölur úr rannsóknum Landbúnaðarháskólans hafa birst hefur verið vitnað til annarra rannsókna sem ganga í öfuga átt sem sýnir vel hvílík óvissa ríkir í þessum málum.
Pappírsfólkið
En nú er semsagt forsætisráðuneytið að gera bragabót í málinu en áfram má spyrja, hefði ekki verið nær að ráða almennilegan vísindaráðgjafa inn í forsætisráðuneytið? Þá einhvern sem gæti aðstoðað íslensk yfirvöld við að meðtaka sjálfstæðar og yfirvegaðar skoðanir í loftslags- og umhverfismálum í stað þess að sitja alltaf með pappíra hávaðafólksins í faginu í höndunum. Sama fólkið og íslenskir skattgreiðendur styðja með stöðugt hækkandi framlögum enda er orðin starfsgrein að raða til verkefnum og pappírum í þessum málaflokki. Eins og auglýsing forsætisráðuneytisins sýnir núna.