c

Pistlar:

24. apríl 2022 kl. 20:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kapítalismanum mótmælt

Það ríkti hálfgerð karnilvalstemmning meðal mótmælenda á Austurvelli í gær. Veðrið lék við þá og þeir virtust margir hverjir þekkjast vel þegar myndir voru skoðaðar enda kannski dálítið sami hópur sem mætir þarna. Sumir voru að grínast með það að þarna væri einstaka mótmælandi að mæta á tímamótamótmæli, jafnvel sín þúsundustu á Austurvelli! Það er auðvitað svo að fólk af vinstra litrófi stjórnmálanna mætir fremur á slík mótmæli og samkoman gegn sölu á hlutabréfum í banka draga dám af því. Nú var semsagt seldur hlutur í Íslandsbanka með þekktu fyrirkomulag þó almenningur sé eðlilega ekkert inní tæknilegum hlutum framkvæmdarinnar þó þessi sami almenningur geti haft skoðanir á persónum og leikendum. Það virðist enda vera tilefni mótmælanna, rangur aðili seldi og rangur aðili keypti þó ferlið hafi legið fyrir og verið rætt nokkuð rækilega á Alþingi og í nefndum þess og augljóslega hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar. Hugsanlega hefur Bankasýsla ríkisins ekki almennilega áttað sig á að salan er einkavæðing, sala ríkiseigna, og því eðlilegt að um það ríki gagnsæi. Sú afstaða bankasýslunnar að vilja ekki gefa upp hverjir keyptu sýndi að þar var ekki fullkomin skilningur á þessari staðreynd málsins.birna

Rannsakað og mótmælt

Framkvæmdin sölunnar er nú til skoðunar hjá Fjármálaeftirliti Seðlabankans (FME) um leið og Ríkisendurskoðun fer yfir hvort unnið hafi verið í samræmi við lög. FME getur sektað sölu- og framkvæmdaraðila en vangaveltur um að salan verði látin ganga til baka eru út í hött. Bréfin hafa verið afhent og þegar hafa átt sér stað viðskipti með þau. Ræðumenn á Austurvelli í gær virtust vera að kalla eftir slíku (Bjarni, skilaðu bréfunum-umræða). Ef það yrði reynt myndi það hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir gengi bréfa bankans og getur skaðað hagsmuni hluthafa hans í bráð og lengd. Líklega er útilokað að grípa til slíkra aðgerða og það myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir trúverðugleika ríkisins við einkavæðingu í framtíðinni. Að slíkt yrði aflagt myndi sjálfsagt gleðja marga.

En áfram verður mótmælt. Sex þeir hörðustu mættu fyrir utan fund ríkisstjórnarinnar á föstudaginn, einn íklæddur bol merktum pírötum og þingið mun án efa verða upptekið af umræðu um söluna, bæði í undirbúinni og óundirbúinni dagskrá næstu viku. Einstaka þingmenn tala bæði úti á Austurvelli og inni á þingi svo undarlegt sem það er. Líklegt verður að telja að fólk mun halda áfram að mæta á Austurvöll ef veður leyfir og skemmtikraftar nenna að mæta. Margir eiga talsvert undir því að þessi mótmæli haldi áfram. En hverju er verið að mótmæla?bankasala

Fólk sem á peninga kaupir hlutabréf

Augljóst er af tali þeirra sem hefur verið rætt við að það eru sú staðreynd að salan minnir marga á að það er enn til fólk á Íslandi sem á nokkra fjármuni. Það virðist stuða marga. Það er nefnilega svo, að þegar eitthvað er boðið til sölu, svo sem hlutabréf í ríkisbanka, þá er líklegt að nöfn kaupenda séu þekkt, í flestum tilvikum voru upphæðirnar þannig að það er ekki á valdi almennings að kaupa slíkt magn sem talið var réttlæta þátttöku í sölunni. Það virðist þannig enn hreyfa við fólki að sjá að þetta er fólk sem við þekkjum vel, svokallað eignarfólk og margir tengdust fyrirtækjum fyrir og eftir bankahrun. Að eiga í viðskiptum var það sem þetta fólk kann og það er enn að eiga í viðskiptum og svosem ekkert við því að segja. En það er greinilega að trufla marga að vera minnt á tilveru þessa fólks í okkar til þess að gera fámenna landi. Það var svo ekki til að bæta úr að vefmiðillinn Kjarninn birti ranga frétt um að stór hluti fjárfesta hefði selt bréf sín. Miðilinn hefur ekki séð sóma sinn í að bera fréttina til baka en það sem verra er að ekki verður séð annað en að Ríkisútvarpið hafi þrisvar verið með fréttir byggða á þessari rangfærslu. Þetta er ekki að hjálpa upplýstri umræðu en margir, þar með taldir þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar, hlupu af stað vegna þessara frétta en þeir treysta mjög á Kjarnann um upplýsingagjöf. Aðrir áreiðanlegri miðlar hafa þó reynt að upplýsa málið.

Einhverjir hafa talað fyrir því að það hefði átt að vera sölubann á bréfunum, væntanlega til þess að ekki væri hægt að innleysa hagnað af sölunni strax. Ef kvöð um slíkt bann hefði fylgt sölunni hefði það lækkað verð bréfanna verulega og ríkissjóður þá fengið talsvert lægra verð fyrir bréfin. Hafa má í huga að ríkissjóður er líklega að fá 250 til 300 milljarða króna fyrir banka sem fæstir höfðu hugmyndarflug í að átta sig á að yrði í eigu ríkisins þar til stöðugleikaskilyrði íslenska ríkisins við haftaafnám birtust 2015.