Ef auðugasti maður heims vill kaupa eitthvað verður hann líklega ekki svo létt stöðvaður. Það eru stjórnendur Twitter búnir að uppgötva en 11 manna stjórn fyrirtækisins samþykkti nauðug viljug yfirtökutilboð Elon Musk í samfélagsmiðilinn eftir langan næturfund. Elon Musk greiðir 38% álag ofan á dagslokaverð frá því áður en hann tilkynnti um tæplega 10% stöðu sína í fyrirtækinu. Þrátt fyrir tilraunir stjórnar félagsins og efasemdir um að Musk gæti fjármagnað kaupin virðast þau ætla að verða að veruleika og eru þar með stærsta fyrirtækjayfirtaka á bandarískum hlutabréfamarkaði síðustu misseri. Elon þarf að greiða 44 milljarða bandaríkjadala fyrir félagið en tilkynnt hefur verið að hann hafi tryggt sér lánsfjármögnun upp á 25 milljarða. Afganginn segist hann eiga í handraðanum!
Eins og rakið var hér í pistli fyrir skömmu þá hefur Elon gefið ýmis fyrirheit um nálgun sína að fyrirtækinu sem hafa glatt marga hægrimenn og efasemdafólk um ágæti þess að stýra umræðunni eins og við höfum séð vaxandi tilhneigingu til. Margir spyrja sig hvort þetta þýði endurkomu Donalds Trump á Twitter en hann var sem kunnugt er útilokaður þaðan skömmu eftir árásina á bandaríska þinghúsið í janúar 2021. Í febrúar síðastliðnum gerði hann tilraun til að setja eigin samfélagsmiðil, Truth Social, af stað en með litlum árangri enda má segja að flestir fjölmiðlar hafi hamast við að niðurlægja miðilinn og spá honum ófarnaði. Trump hefur sagt aðspurður að aðkoma Elon Muske muni ekki breyta neinu fyrir hann, honum finnist Twitter hundleiðinlegur í dag. Gera má þó ráð fyrir að yfirtaka Elon Muske kippi endanlega fótunum undan áformum Trumps með Truth Social. Bæði Trump og Musk hafa um 80 milljón fylgjendur á Twitter og hafa notað miðil gríðarlega mikið með góðum árangri.
En yfirtaka Elons er ekki bara kynnt sem fjárfestingatækifæri. Hann er ódeigur við að boða frelsi miðilsins og tekur til dæmis fram að hann vonist til þ.ess að andstæðingar hans haldi áfram að nota Twitter. Allt tal Elons er í mikilli andstöðu við ríkjandi stefnu sem hefur gengið út á ritskoðun með vísun í að koma verði í veg fyrir hatursorðræðu og árásir á minnihlutahópa. Vissulega má taka undir þau sjónarmið en mörgum finnst að það sé of dýru verði keypt. Umræðan verði að fá að ólmast og brjótast fram, þannig verði tjáningarfrelsi og gildi þess best tryggt.
Þurfum menn eins og Elon Musk
Margir gleðjast. „Twitter og aðrir samfélagsmiðlar eru bæjartorg nútímans. Við þurfum einstaklinga eins og Elon Musk sem mun sjá til þess að allir Bandaríkjamenn geti nýtt sér rétt sinn til tjáningarfrelsis á þessum vettvangi,“ sagði í tilkynningu The Heritage Foundation. Hér heima lýsti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, yfir ánægju sinni og sagði í færslu (reyndar á Facebook): „Ekki veitir af að fá mann sem hefur trú á málfrelsi inn í hóp þeirra sem stjórna samfélagsmiðlunum (og það á þeim miðli sem öðrum fremur hefur einkennst af einsleitri umræðu þeirra sem telja sig vita betur en aðrir en þola þó illa gagnrýni). Forstjóri Twitter sagði nýverið að fyrirtækið ætti ekki að vera bundið af ákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar um málfrelsi. Frekar að stýra umræðunni.“
Sjónvarpsþáttur gegn slaufunarmenningu
Það er margt að gerast í heimi fjölmiðlunar sem má tengja við það menningastríð sem Elon er nú búinn að hella sér út í. Nú í dag fór sjónvarpsmaðurinn umdeildi Piers Morgan af stað með eigin þátt, Piers Morgan Uncensored, og verður hann sendur út á nýrri breskri stöð, TalkTV, en einnig á Fox News, BNA og Sky News, Ástralíu. Piers Morgan, sem hóf blaðamennskuferil sinn á The Sun og var einn af gulldrengjum Roberts Murdochs, segist vera eindreginn stuðningsmaður málfrelsis og hafa fjölmiðlar eftir honum að í spjallþætti sínum muni slaufunarmenningunni verða slaufað og þeim er hafi verið útilokaðir veitt tækifæri á að tjá sig. „Ekki ætti að niðurlægja menn, rægja þá eða útiloka þá fyrir að hafa skoðanir, nema það sem þeir láta út úr sér sé augljóslega haturs- og fordómafullt bull. Við vitum öll hvar sú lína liggur,“ sagði hann og margir vona að hann hafi erindi sem erfiði.
Piers yfirgaf spjallþáttinn Good Morning Britain í mars 2021 í framhaldi af því að ummæli hans um Megan Markle fengu 58.000 manns til að kvarta til Ofcom, eftirlitsstofnunar breskra fjölmiðla. Segja má að hann hafi gengið út og skellt hurðum í orðsins fyllstu merkingu. Piers Morgan sagðist „ekki trúa orði af því sem Megan hefði sagt“ í viðtali hjá spjallþáttadrottningunni Oprah Winfrey og hógværðin er ekki að trufla hann. „Mér líður eins og Nelson Mandela er hann kom út úr fangelsinu,“ hefur BBC eftir honum í tilefni þess að hann fær nú eigin þátt. „Það er eins og ég hafi verið á göngunni löngu til málfrelsisins.“ Fjölmiðlamenn hafa sumir hverjir háar hugmyndir um sjálfa sig en við verðum að vona að allt þetta umrót hafi jákvæð áhrif á tjáningarfrelsi sem sannarlega hefur átt undir högg að sækja.