Sagt er að á þriðju öld hafi kristnir menn verið réttdræpir í Rómarríki en öld seinna var það dauðasök að vera ekki kristinn. Á fyrsta kirkjuþinginu í Níkeu í Litlu-Asíu árið 325 var ákveðið að Jesú væri guð en smám saman varð sömuleiðis til vissa um að hann væri einnig maður og á þeim grunni er kristni boðuð í dag. Í Níkeu ver einnig hafin vinna við að taka til í guðspjöllunum og sum leyfð og öðrum hafnað. Eftir því sem kirkjan efldist því betri skilgreiningar urðu á villutrúarmönnum. Þetta varð hlutverk kirkjunnar næstu aldir, að afmarka guðdóminn og skilgreina hverjir væri þóknanlegir og hvað væru réttar og rangar skoðanir. Með Lúterskunni var lagður grundvöllur að því að gera kristni að fræðigrein enda Ágsborgarjátningin margfalt viðameiri en Postullega trúarjátningin. Menn getur greint á um hvort siðbreytingin var siðbót en það varð alla vega refsingasamara að bregða út af réttri leið. Það ástand ríkti þar til upplýsingin og hið borgaralega samfélag lagði grunn að lýðræðislegu samfélagi með frelsi og réttindi þegnanna að leiðarljósi.
Á þetta er minnt vegna þess að á hverjum tíma stýrist nútímamaðurinn af einhverri sannfæringu eða vissu sem þá heldur við og styður heimsmynd hans og auðveldar honum að skilja það sem ella gæti virst flókið. Hann þarf ekki lengur að fara í kirkju til að meðtaka boðskapinn heldur grípur hann á hlaupum yfir daginn þar sem fjölmiðlar og samfélagsmiðlar rétta að honum og ýmist staðfesta fyrri skoðanir viðkomandi eða auðvelda honum leitina að réttum bergmálshelli.
Að skipta um þjóð
Þannig geta ýmis umræðuefni sótt stuðning í atburði eða atburðarás og veitt viðkomandi vissu fyrir því að annað hvort sé atburðarásin að endurtaka sig eða eitthvað að gerast sem breytir lífi hans. Þannig er til dæmis hægt að skilja sölu á 22,5% hlut í Íslandsbanka með hliðsjón af fyrri einkavæðingu bankakerfisins að ekki sé talað um bankahrunið sem varð 2008 og breytti efnahagslífi landsins til skamms tíma og stjórnmálaumræðunni til langs tíma. Nú má heyra fólk á Austurvelli sega að það mótmæli til þess að ekki verði nýtt bankahrun eða að kapítalisminn taki yfir eins og vikið var að í grein fyrir stuttu. Meðal mótmælenda virðist hið vestræna markaðsþjóðfélag hreinlega verið dregið í efa, hugsanlega virkar það eitthvað en siðferðilega er það gjaldþrota. Þessi hugsun er kannski komin lengst hjá Pírötum sem virðast trúa því að saga Íslands fram til dagsins í dag sé misheppnuð vegna langvarandi frændhygli og spillingar og það sé nauðsynlegt að skipta um þjóð í landinu. Þetta birtist mjög skýrt í umræðu þeirra um útlendingamál en þeim virðist vera mjög í mun að auka streymi flóttamanna hingað.
Lærdómur eða ný trú
Nýr viðskiptaritstjóri Markaðarins, innblaðs Fréttablaðsins skrifaði í gær: „Augljósa dæmið er þegar gírugir bankamenn steyptu okkur í gjaldþrot fyrir 14 árum síðan. Nær óáreittir. Vandlega varðir af kunningjasamfélaginu. Þá lærðum við margt um ókosti kunningjasamfélagsins. Rannsóknarskýrsla Alþingis dró þetta ágætlega fram á sínum tíma. Þar segir meðal annars:
„Náin og óformleg tengsl komu í veg fyrir þá fjarlægð sem var nauðsynleg til að takast á við erfiðleikana sem við blöstu. Menn sáu ekki sameiginlega hagsmuni fyrir sínum eigin.“ Og enginn þorði að efast. Um vini sína. Sem notfærðu sér nándina.“
Rannsóknarskýrslan var umræðuskjal sem veitti mikilvægar upplýsingar en hefur skapað fráleitan dogmatisma sem margoft hefur verið varað við hér í pistlum. Við erum stödd í þjóðfélagi þar sem framkvæmd er fyrst og fremst talin andlag við rannsókn. Reynsluheimurinn skiptir ekki máli heldur skiptir öllu að rannsaka og skoða, velta við hverjum steini, alltaf. Skilgreining á saklausum manni er sú að það sé einfaldlega maður sem hefur ekki verið rannsakaður nóg. Allir þurfa að gera stöðugt grein fyrir sér, hugsunum sínum og athöfnum, í nútíð og fortíð. Þannig virðast margir líta svo á að Alþingi sé ekki lengur löggjafi heldur fyrst og fremst rannsóknaraðili. Mikilvægustu ræðurnar séu haldnar úti á Austurvelli en ekki inni á þinginu sjálfu og skiptir engu þó sumir ræðumanna eigi þar sæti.
Í sínu síðasta Júróvísionlagi fyrir pláguna sungu Hatara:
Alhliða blekkingar.
Einhliða refsingar.
Auðtrúa aumingjar.
Flóttinn tekur enda.
Tómið heimtir alla.
Í þessu er kannski meiri aldarfarslýsing en margir átta sig á.