Úr hagkerfinu berast margvísleg skilaboð þessa mánuðina, í kjölfar farsóttar og stríðs. Stýrivaxtahækkun Seðlabankans í dag sýnir að hann er að hlusta á þessi skilaboð og beitir nú tækjum sínum og tólum (og sannfæringakrafti) til þess að reyna að stýra ólgandi hagkerfi þar sem ólíkir kraftar togast á og hafa áhrif hvor á annan. Það er ekki til að auðvelda hagstjórnina að á hinu pólitíska sviði ríkir ákveðin upplausn og þar eru öfl að takast á sem geta hæglega steypt undan allri skynsamri hagstjórn. Smæð hagkerfisins og einfaldleiki ætti að gera stýringu þess auðvelda en svo er ekki. Í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar stendur: þetta sem helst nú varast vann / varð þó að koma yfir hann. Flest bendir til þess að menn skilji þau öfl sem er verið að takast á við en það þýðir ekki að við getum náð stjórn á þeim. Austurvöllur ólgar á meðan hagstjórnin þarf á stilltum og yfirveguðum viðbrögðum að halda.
Eins prósent stýrivaxtahækkun Seðlabankans er viðbragð við því að verðbólgan mælist nú 7,2%, eða langt yfir 2,5% verðbólguviðmiði Seðlabankans. Bankinn varð að hækka vexti og af mæli seðlabankastjóra má greina að hann hefur mun meiri áhyggjur af þróuninni núna en við síðustu stýrivaxtaákvörðun. Líklega er tveggja stafa verðbólga nær en sumir þora að spá eða viðurkenna.
Hráefnisverðshækkanir og truflun á aðfangakeðju (sem er hátíðlegt orð yfir það að það gengur verr og verr að flytja dót milli landa) eru að valda miklum hækkunum. Við getum auðvitað leikið okkur að allskonar vangaveltum um hvað stuðlar að hækkun en 70 til 80% hækkun á áburðarverði og hráefni til fóðurgerðar (korni ýmiskonar) hlýtur að hafa áhrif á verð frá þeim sem þurfa að kaupa þessi aðföng. Við getum leikið okkur með hugtök eins og matvælaöryggi en að endingu verðum við að styðja við þá sem daglega láta okkur hafa mat á diskinn áður en þeir farast sjálfir. Hætt er við að slíkt myndi hafa óafturkæfar afleiðingar vegna þess að ekki eru allar óvissuferðir til góðs.
Óvissuferð
Hagstjórn beinist að meðalmanninum, þessum Íslendingi sem er tæpast til og því er það svo að á meðan sumir finna á sér verðbólguhitann í síhækkandi vöruverði eru aðrir að finna fyrir vaxtahækkunum. Sumir finna fyrir þessu öllu og verstu einkennir birtast í orðum eins og stagflation eða kreppuverðbólga. Það segir sig sjálft að það er ekki gott að lifa í senn við verðbólgu og kreppu. En það má svo sem hafa í huga að hagkerfi eru í eðli sínu háskalag eins og bent hefur verið á hér í pistlum. Rétt eins og á við um rennandi vatn, sem er betra en það sem finnst í kyrrstæðum polli, þá þarf hagkerfið og efnahagslífið að fá að renna áfram, oft með boðaföllum og brotsjóum. Skapandi eyðilegging (e. creative destruction) sagði Joseph Alois Schumpeter (1883-1950) sem af mörgum er talin einn merkasti hagfræðingur 20. aldar. Öfugt við Karl Marx vildi Schumpeter bæta gallað kerfi, taldi það farsælla en að bylta því og leggja í óvissuferð enda hafa allar slíkar ferðir undir leiðsögn Karls Marx endað með ósköpum.
Báðum megin í hráefnishækkunum
En ef við lítum á hagkerfið íslenska þá segir sig sjálft að við njótum þess að vera hráefnisútflytjendur þannig að fiskur, ál (og orka) eru að hækka mikið í verði og skilar okkur verulegum tekjubata. Sama má segja um ferðaþjónustuna, það er augljóst að margir hyggjast leggja leið sína hingað til lands í sumar og helst að það vanti starfsfólk til að þjónusta alla þessa ferðamenn. Víða er húsnæðisskortur tilfinnanlegur og þeir sem koma nú nýir inn á fasteignamarkað eru ekki öfundsverðir. Ástæða er til að óttast um hag leigjenda og lágtekjufólks á húsnæðismarkaði. Finna þarf leiðir til að bæta hag þeirra en ljóst að þar dugar ekki eitthvert eitt ráð, það þarf fjölþætta lausn við fjölþættum vanda.
En nú hafa vextir semsagt hækkað úr 2,75% í 3.75%. Það er yfir 36% hækkun vaxtanna og lántakendur munu augljóslega þurfa að takast á við hærri vaxtagreiðslur, skiptir engu hvort sem þeir eru með verðtryggð eða óverðtryggð lán. Það reynir á hagstjórn stjórnvalda að hjálpa þeim sem helst þurfa á því að halda að komast í þennan ólgusjó sem er framundan.