Síðustu ár hafa verið stöðugar fréttir um að Ísland sé að færast niður á alþjóðlegum lista sem mælir fjölmiðlafrelsi. Nú er svo komið að Ísland vermi 15. sæti á þessum lista (The World Press Freedom Index), mitt á milli Sviss og Þýskalands, en neðstir Norðurlanda. Færumst þó upp um eitt sæti frá síðasta ári. Listinn er tekin saman af samtökunum Frelsis án landamæra (Reporters Without Borders (RSF)) en samtökin eru staðsett í París. Þessi samtök hafa haft sig mest í frammi með slíka einkunnagjöf og síðasta rúma áratug hefur Ísland jafnt og þétt færst niður lista þeirra um fjölmiðlafrelsi. Iðulega fylgja í kjölfarið yfirlýsingar íslenskra fjölmiðlamanna sem telja þetta eðlilega vonda þróun.
Það má sannarlega segja að það sé slæmt að færast niður lista sem mælir frelsi af einhverju tagi og almennt virðast Íslendingar vilja vera mældir með frelsi á við það sem gerist best sem flestum sviðum. Það er enda staðreynd að margvíslegar kannanir og rannsóknir hafa iðulega leitt í ljós að Ísland vermir efstu lista á ansi mörgum sviðum sem þykja eftirsóknarverð. Sumir þeir listar gætu jafnvel túlkað ákveðna mótsögn við það að við skulum færast niður á lista um frelsi fjölmiðla en vera á sama tíma efstir á lista yfir almennt öryggi, umburðalyndi og velferð íbúa. Kemur það heim og saman?
Um aðferðafræði listans
Samtökin Frelsis án landamæra hafa nú birt lista sinn og viðbrögðin nokkuð hefðbundin, þó að við færumst upp um sæti eins og áður sagði telja margir þetta vísbendingu um hve illa er farið með fjölmiðlamenn hér á landi. Við afhendingu blaðamannaverðlauna fyrir stuttu tiltók formaður Blaðamannafélags Íslands þessa stöðu og taldi hana vísbendingu um einhverskonar harðræði í garð blaðamanna hér á landi. Á vefsíðu samtakanna Frelsis án landamæra kemur fram að 27 fjölmiðlamenn hafa látist við störf það sem af er ári og 479 eru í fangelsi. Það þarf ekki að taka fram að enginn þeirra er á Íslandi.
En þessi niðurstaða vekur ýmsar spurningar. Eru starfsskilyrði fjölmiðlamanna verri hér á landi en til dæmis á hinum Norðurlöndunum sem raða sér öll í efstu sætin? Fróðlegt er að skoða ýmsa þætti sem gætu haft áhrif á öryggi fjölmiðlamanna. Skipuleg glæpasamtök eru til dæmis þáttur sem hefur mikil áhrif á öryggi allra starfsstétta. Það er vitað að það getur skapað stórhættu fyrir fjölmiðlamenn að fjalla um slíka starfsemi sem almennt er ekki talin vera hér á landi þó í seinni tíma skýrslum ríkislögreglustjóra sé gefið í skyn að slík þróun sé ekki svo fjarlæg. Í upphafi síðasta árs var maður af albönskum ættum myrtur í Rauðagerði og voru landsmenn slegnir yfir því enda minnti morðið á skipulega aftöku. Margir töldu að við værum að verða vitni að umsvifum sem minntu á skipulega glæpastarfsemi. Fjölmiðlamenn fóru ekki varhluta af því enda hættu margir að merka sér fréttir sem þeir voru að vinna. Það varð aldrei opinber umræða um þetta meðal blaðamanna en það fór ekki framhjá neinum.
Sjávarútvegurinn vandamálið hér?
Einkunnargjöfin virðist byggjast á fimm mismunandi þáttum, pólitísku samhengi (political context), lagaramma (legal framework), efnahagslegu samhengi (economic context), félagsmenningarlegu samhengi (sociocultural context) og öryggi (safety). Það skal játast að það vekur ákveðna undrun hve langt Ísland er á eftir hinum Norðurlöndunum þó mestu muni um hið efnahagslega samhengi en ekki er langt síðan fjallað var um rekstrarstöðu fjölmiðla og ástæður þess að hún versnaði hér í pistli. Eina sætið sem við vinnum til baka núna gæti þannig verið að þakka ríkisstyrkjum en sumir myndu halda því fram að fjölmiðlar sem þiggi slíkt séu ekki að auka frelsi sitt þó aurar komi í kassann.
Ísland fær þessa umsögn: „Fjölmiðlar njóta skilvirkrar lagaverndar og mikils trausts almennings, en sjálfstæði þeirra, sem þegar er veikt vegna smæðar markaðarins, stendur frammi fyrir ógnum frá sjávarútvegi, helstu atvinnugrein landsins.“ Það verður að teljast umdeilanleg staðhæfing.
Hver skrifar umsögnina um Ísland?
Þegar textinn um Ísland er lesinn hvarflar að lesanda að menn nátengdir Kjarnanum og Stundinni hafi skrifað umsögnina en þeir ásamt starfsmönnum Ríkisútvarpsins, í gegnum Blaðamannafélag Íslands, eru fyrirferðamestir í fjölmiðlaumræðunni í dag milli þess sem þeir veita sjálfum sér verðlaun.
Fullyrðing um að netmiðlar séu að breyta fjölmiðlalandslaginu á Íslandi eru reyndar spaugileg en þessi lýsing á ríkisstyrknum er beint úr málflutningi ritstjóra Kjarnans sem hefur uppi hávær orð um að hann eigi að fá meira af ríkisstyrkjunum: „Til að bæta það upp hefur ríkisstjórnin veitt fjölmiðlum fordæmalausan fjárhagslegan stuðning, þó að sumir óttast að átakið muni hygla stórfyrirtækjum til skaða fyrir fjölbreytni fjölmiðla.“ (e. To compensate, the government has provided unprecedented financial support to the media, though some fear that the effort will favour big companies to the detriment of media pluralism.) Þessi lýsing er um margt undarlegt en vissulega eru deilur um aðferðafræði við úthlutun ríkisstyrkjanna. Þeim er þetta skrifar finnst eðlilegt að horfa til umfangs og þjónustu þeirra miðla sem fá styrk, fremur en pólitískrar sérvisku þeirra.
Í næsta pistli munum við líta á samanburð við hin Norðurlöndin í ljósi þess hvernig þau raða sér á þessum lista.