c

Pistlar:

12. maí 2022 kl. 19:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skipulagsslys í Vogabyggð

Eins og kemur fram í frétt í Fréttablaðinu í dag er komið upp ófremdarástand í nýjustu byggð Reykjavíkur, Vogabyggð. Þar hafa íbúar brugðið á það ráð að safna undirskriftum þar sem skorað er á Reykjavíkurborg að grípa til tafarlausra aðgerða til að tryggja öryggi íbúa í byggðinni sem er eins og eyland innan Sæbrautarinnar einnar umferðaþyngstu götu borgarinnar.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að besta vegstæðinu fyrir Sundabraut var fórnað fyrir hluta af þessari byggð sem mun hækka kostnað vegna Sundabrautar um gríðarháar tölur, líklega einhverja tugi milljarða króna. Mismunurinn skýrist af því að í stað þess að geta lagt veginn á fyllingum og brú innarlega í Elliðavogi þarf að ráðast í gríðarlega flóknar, kostnaðarfrekar og erfiðar framkvæmdir en ekki er enn með fullu ljóst hvort byggð verður brú eða grafin jarðgöng. Allar rannsóknir sýna gríðarlega hagræði Sundabrauta sem meirihlutinn í Reykjavík hefur helst ekki viljað setja á dagskrá eins og hefur verið rakið hér í pistlum.sund

Íbúðum fjölgað en samgöngur óleystar

Frá því áform um Vogabyggð voru fyrst kynnt hefur verið ljóst að umferðamál inn í hverfið eru vandamál. Jafnt og þétt hefur verið unnið að því að stækka byggðina og er nú talað um að þarna rísi í það minnsta 2.000 íbúðir. Skóli á að rísa þar í framtíðinni (og pálmatré!) en þangað til verða íbúar að koma börnum sínum sjálfir í skóla annars staðar. Vogaskóli er næstur en Sæbrautin er á milli og enginn sendir börn þar yfir enda gatnamót Sæbrautar og Skeiðavog einstaklega erfið.

Til að bjarga þessu klúðri hefur fæðst hugmynd um að setja Sæbraut í stokk og virðast margir telja það hina bestu lausn. Yfir vestasta hluta stokksins færi síðan Borgarlínan. Þessi áform um stokk fæddust í raun ekki fyrr en eftir að búið var að skipuleggja Vogabyggð. Ekkert liggur fyrir um hvenær verður ráðist í gerð stokksins en á efni frá Reykjavíkurborg má sjá að framkvæmdatími standi árin 2021-2022 sem augljóslega mun ekki gerast, hvað þá að kostnaður verði 2,2 milljarðar króna eins og þar stendur.

Eins og áður segir þá var Sæbrautarstokkur kynntur til sögunnar eftir að íbúar voru farnir að flytja inn í Vogahverfið og menn sáu að samgöngur við hverfið voru í ólestri. Kostnaður við hann hlýtur að verða gríðarlegur en Reykjavíkurborg hyggst láta ríkið um það (stokkurinn er ekki á neinni áætlun) og selja svo byggingaland ofaná honum. Með því að klúðra bestu legu Sundabrautar og knýja á um Sæbrautarstokk er Reykjavík að kosta ríkissjóð tugi milljarða króna.

Enn hefur enginn áttað sig á því hvernig gríðarleg umferð flutningabíla frá Sundahöfn á að komast áfram en hún stíflar nú gatnamót Sæbrautar og Skeiðavogs langar stundir á álagstíma. Margir hafa efasemdir um að hægt sé að beina þessari umferð flutningabíla ofan í stokkinn, það eitt og sér kosta verulegar fjárhæðir.sæbr

Göngubrú lofað en það svikið

En nú þegar er mikill fjöldi fólks fluttur í hverfið og stendur nú ráðalaust gagnvart þessu skipulagsslysi. Eins og kemur fram í Fréttablaðinu í dag hafa íbúar í Vogabyggð staðið í bréfasendingum til borgaryfirvalda og ráðherra en Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra mun hafa lofað að ræða við borgina um göngubrú yfir Sæbraut sem væri þá bráðabirgðalausn þar til stokkurinn dýri kæmi. Fyrirhyggjuleysi, gæti einhver sagt. Samkvæmt frétt Fréttablaðsins hefur Pawel Bartoszek, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, svarað íbúum því að brúin sé ekki lengur á teikniborðinu!

Íbúar eru auðvitað ráðalausir. „Þessu var lofað þegar byrjað var að hanna hverfið en það hefur verið svikið,“ segir í bréfi íbúanna sem fylgir undirskriftalista þar sem skorað er á Reykjavíkurborg að grípa til tafarlausra aðgerða til að tryggja öryggi íbúa í Vogabyggð. „Börn innan hverfisins eru í sérstakri hættu frá bílaumferð og þungaumferð frá hafnarsvæðinu þar sem flutningabílar keyra ítrekað yfir á rauðu ljósi og ljósin við Sæbrautina eru oft biluð,“ segir í bréfinu þar sem bent er á að börn í hverfinu sæki skóla, leikskóla, íþróttir, tómstundir og vini yfir Sæbraut. Framkvæmdaleysi, rangar ákvarðanir og svik kosta sitt.vogab

Keypti tálsýn borgarinnar

Í Fréttablaðinu er haft eftir aðstandendum undirskriftalistans að í besta falli verði hægt að setja Sæbraut í stokk á þremur árum sem telja 1.100 daga. „Það eru dagar sem börnin mín og annarra hér í hverfinu eru í lífshættu því þau þurfa að fara yfir Sæbraut,“ segir Steinunn E. Benediktsdóttir sem stendur að undirskriftalistanum. Fáir trúa því að stokkur sem hefur ekki gengið í gegnum skipulagsferli verði komin eftir þrjú ár.

Steinunn segir við Fréttablaðið að henni þyki eins og hún hafi keypt tálsýn borgarinnar því það er ekki farið að reisa skóla og göngubrúin sé horfin af borðinu. Íbúar segja að ástandið í
hverfinu sé óboðlegt og að leysa þurfi úr vandanum sem fyrst. Hverfið var markaðssett sem paradís með Elliðaárdal í bakgarðinum en það kemst enginn þangað nema að fara yfir Sæbraut og stefna öryggi sínu og barna sinna í hættu.