„Þrátt fyrir harðorð mótmæli einstakra hagsmunaaðila hvikar hann [sjávarútvegsráðherra] ekki frá hugmyndum um mörkun fiskveiðistefnu til langs tíma sem flestir gera sér fullkomlega ljóst að er eina skynsamlega leiðin til að vernda og efla okkar mikilvægustu fiskistofna sem nú eru í hættu og við getum ekki leyft okkur að ganga á þótt efnahagur þjóðarinnar sé bágur. Þar verða önnur ráð að koma til. Hafið og fiskistofnarnir eru okkar dýrmætasta auðlind sem við höfum sönnur á að hægt er að eyðileggja með rányrkju. Vonandi tekst að ná samkomulagi um þetta hagsmunamál allrar þjóðarinnar.“
Þannig skrifar leiðarahöfundur dagblaðsins NT 28. september 1985 um fiskveiðistjórnun á þeim tíma. Leiðarinn bar fyrirsögnina „Fiskveiðistjórnun er nauðsynleg“ en daginn áður hafði Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra boðað til fundar með alþingismönnum og hagsmunaaðilum í sjávarútvegi þar sem kynntar voru aflahorfur og þeir möguleikar sem fyrir hendi voru við stjórnun fiskveiðanna. Fiskifræðingar höfðu lagt til 300.000 tonna ársafla af þorski næstu þrjú árin. Það var hins vegar ljóst að afkastageta fiskiskipaflotans er langt umfram þessi aflamörk og rekstrarstaða sjávarútvegsins í uppnámi. Ríkisvaldið varð að dæla fjármunum út til sjávarútvegsins til að tryggja að þessi mikilvægasta gjaldeyrisuppspretta þjóðarinnar virkaði.
Endalausar björgunaraðgerðir
Árið áður voru ríkisstjórnarflokkarnir (Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur) að mæla fyrir sértækum aðgerðapakka í sjávarútvegi sem var árlegt viðfangsefni stjórnvalda áður en núverandi skipan komast á fyrir tilstilli kvótakerfisins. Aðgerðirnar í sjávarútvegsmálum sem voru kynntar 1984 voru þríþættar, auk hækkunar afurðalána í 75%. Í fyrsta lagi voru sett bráðabirgðalög um aukið fé til skuldbreytinga í sjávarútvegi. Í öðru lagi er í lögunum ákvæði um tímabundnar greiðslur úr Aflatryggingasjóði sem námu 3% af aflaverðmæti næstu þrjá mánuði á eftir. Og í þriðja lagi ætlaði ríkisstjórnin greiða fyrir aukinni hagkvæmni í rekstri sjávarútvegsins með því að gera útvegsmönnum kleift að taka óhagkvæmustu skipin úr rekstri.
Það er ástæða til að vekja athygli á því að Þorsteinn Pálsson var þá orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins og kynnti sem slíkur þegar ráðist var í aðgerðir í ríkisfjármálum, peninga- og lánamálum, svo og sjávarútvegsmálum (um þetta snérist stjórn efnahagslífsins á þessum tíma). Ef skilja má skrif Þorsteins Pálssonar þessa daganna saknar hann þessa tíma! Mesti vandi þjóðarbúsins var rekstrarstaða sjávarútvegsins sem krafðist allrar athygli ríkisstjórnarinnar og endalausra fjármuna úr ríkissjóði. Langar einhvern í þetta aftur? Þættirnir um Verbúðina, sem nutu vinsælda í vetur, fjölluðu lítið um þessa hlið málsins.
Það getur verið skynsamlegt að horfa aftur til þeirra ára þegar fiskveiðistjórnunarkerfið eins og við þekkjum það í dag var mótað. Þegar umræðan í fjölmiðlum er skoðuð blasir við að tvennt er efst í huga allra sem komu að málinu, að tryggja vernd og viðgang fiskistofna landsins sem menn óttuðust um vegna ofveiði og tryggja rekstrarstöðu sjávarútvegsins. Líklega dreymdi fáa um að hún yrði eins og hún er í dag. Á hverju ári allan áttunda og níunda áratug aldarinnar var unnið að því að tryggja vernd auðlindarinnar og bjarga rekstrarstöðu sjávarútvegsins. Engin umræða var um auðlindagjald, hún kom löngu seinna þegar rekstur sjávarútvegsins fór að breytast.
Höfum við gengið til góðs?
Þegar þessi vandamál fortíðarinnar eru skoðuð þá er merkilegt að skoða umræðu sérfræðinga í dag. Má þar sérstaklega nefna erindi sem Klemens Hjartar, meðeiganda McKinsey & Co., hélt á ársfundi SFS fyrir stuttu en þar fjallaði hann um stöðu íslensks sjávarútvegs. Hann sagði stöðu Íslands afar sterka. Ísland, Færeyjar og Noregur séu þær vestrænu þjóðir sem byggja afkomu sína að stórum hluta á sjávarútvegi. Klemens taldi Ísland standa þar fremst vegna stöðu sinnar í veiðum á villtum fiski, nýtingu og tækniþróun. Noregur standi Íslandi nokkuð að baki í veiðum á villtum fiski og vinnslu en séu fremstir í eldi á heimsvísu.
Klemens sagði að Ísland sé eina landið í heiminum þar sem sjávarútvegur er sjálfbær; alls staðar annars staðar rennur fjármagn úr sjóðum almennings til stuðnings greininni. Framleiðni hér er auk þess meiri en í löndunum sem við berum okkur saman við. Þetta og fleira telur Klemens gera sjávarútveginn að „ofuriðngrein“ á Íslandi, þrátt fyrir að vöxtur hagkerfisins hafi verið utan sjávarútvegs síðustu tíu ár. Keppikeflið fyrir komandi ár ætti að vera að halda þeirri forystu sem Ísland hefur í veiðum og vinnslu. Vöxturinn á að koma úr ýmsum áttum en stöðugleiki þarf að liggja vexti til grundvallar.
Er þetta ekki dálítið merkileg niðurstaða? Íslendingar hafa farið frá því að eiga allt undir brothættu ástandi í sjávarútvegi í það að hafa fullkomna stjórn á starfsgreininni sem gerir landsmönnum kleyft að sækja fram til meiri verðmætaaukningar á hverjum degi. Er það ekki til einhvers?