c

Pistlar:

23. maí 2022 kl. 10:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Camorra - í skugga glæpaveldis


Undanfarnar vikur hafa sjónvarpsáhorfendur fengið að fylgjast með þáttaröð um Camorra mafíuna á Suður-Ítalíu sem sýnd hefur verið í Ríkissjónvarpinu. Þættirnir hafa hlotið lof gagnrýnenda fyrir persónusköpun, hraða, andrúmsloft, leik, leikstjórn og þó ekki síst handrit sem byggist á bók Roberto Saviano. Þáttaröðin hefur notið mikilla vinsælda hjá sjónvarpsáhorfendum um allan heim og verið seldir til 190 landa. Sá glæpaheimur sem birtist í þáttunum er ekki fegraður á nokkurn hátt. Satt best að segja lýsa þættirnir grimmd og siðspillingu skipulegrar glæpastarfsemi og draga ekkert undan og sýna þannig hvernig fer fyrir fólki sem lifir fyrir utan lög og rétt. Siðleysi höfuðpersóna er alltumlykjandi en þeir sitja iðulega á svikráðum við hvern annan. Enginn trúnaður ríkir, bara köld hagsmunagæsla sem er stýrð af stjórnlítilli grimmd. Enginn er óhultur ef hann verður á vegi glæpamannanna.

Myndaröðin gerist í Napólí á tíunda áratugnum og fylgir að mestu Ciro Di Marzio, meðlimi í Savastano Camorra ættinni Secondigliano, undir forystu Pietro Savastano. Þegar Pietro er handtekinn fer af stað valdabarátta við keppinauta hans innan mafíunnar en einnig barátta á milli þeirra gömlu og ungu, meðal annars undir forystu sonar hans Gennaro Savastano sem í fyrstu birtist sem ofdekraður unglingur en harðnar við hverja áraun þar til hann gefur föður sínum ekkert eftir í fláræði og grimmd. Ciro og Gennaro lenda að lokum á skjön við eigin fjölskyldur og það birtast margvísleg bandalög sem þeir gera við ýmsa glæpahópa þegar þeir sigla um undirheima Napólí. Saviano kýs að láta þættina heita Gomorra þó að líkindin fari ekki framhjá neinum, hann færir fyrir því ákveðnar útskýringar sem ekki verður farið út í hér að sinni.gomorra

Engir heiðursmenn

Þetta er ekki fagurt mannlíf á nokkurn hátt. Glæpaklíkurnar ráða hverfum í Napólí og níðast á fátræku fólki og fíkniefnaneytendum. Vissulega má hafa eitthvað uppúr þessu öllu en enginn virðist geta notið lífsins. Allir vita að þetta er skammvinnt líf og leiðtogarnir lifa samkvæmt því í ofskreyttum blokkaríbúðum þar sem þeir eru undir stöðugri gæslu sem dugar þó ekki, ekki einu sinni til að vernda þeirra eigin börn. Átakanlegast er þegar fjölskyldur glæpamannanna eru dregnar inn í atburðarásina auk þess sem saklausir borgarar þurfa stundum að þola ofbeldi sem þó oftast beinist að öðrum mafíumönnum. Allir sitja á svikráðum við alla. Þættirnir sýna vel þá hnignun mennskunnar sem fylgir skipulagðri glæpastarfsemi þar sem óttinn stýrir för. Það er öfugsnúið að orðið mafía þýddi upphaflega heiðursmaður. Sjálfir virðast þeir líta á sig sem einhverskonar hermenn.

Það verður að hafa í huga að þrátt fyrir margra áratuga viðleitni borgara, blaðamanna og embættismanna á Ítalíu eru borgir og héruð áfram undir ægivaldi mafíunnar. Þannig virðast margir í stjórnsýslunni enn halda verndarhendi yfir fjölmörgum mafíahópum, það er helst að heimamenn kippist við þegar þeir verða varir við innrás erlendra mafíuhópa eins og til dæmis frá Albaníu. Fljótlega fóru heimamenn að kvarta yfir hörkunni sem fylgdi albönsku mafíunni, já, lengi getur vont versnað! Rannsókn sem gerð var árið 2013 hjá Università Cattolica og sameiginlegri rannsóknarmiðstöð um glæpi (e. Joint research Centre on Transnational Crime) áætlaði að starfsemi mafíunnar á Ítalíu væri að velta hvorki meira né minna en 33 milljörðum Bandaríkjadala. Þessi upphæð skiptist að mestu á milli fjögurra mismunandi hópa að því er kemur fram í umfjöllun Fortune tímaritsins sem vitnað hefur verið til hér áður.

Samkvæmt þessari samantekt Fortune mun Camorra mafían vera farsælust þessara hópa í efnahagslegu tilliti og var talin raka saman 4,9 milljörðum dala á ári. Starfsemi hennar nær allt frá kynlífsiðnaðinum til vopnasölu, auk eiturlyfjasölu, falsanna, veðmálastarfsemi og fjárhættuspilum. Að ógleymdri okurlánastarfsemi sem löngum hefur verið kjarnastarfsemi mafíunnar.gomm

Sögulegar skýringar

Saga Camorra í Napólí nær langt aftur í tímann, eða allt aftur til 19. aldar, þegar hún var upphaflega stofnuð innan fangelsismúra. Starfsemin blómstraði á óróatímum 19. aldar þegar margir töldu sig þurfa auka vernd frá ribböldum og misyndismönnum. Mafían bauð verndarþjónustu og tók stundum að sér að vera leiðandi afl í pólitískri baráttu meðal fátækra íbúa Suður-Ítalíu. Að sumu leyti tengist starfsemi mafíunnar vantrausti á miðstjórnarvaldi og þeirri trú heimamanna að þrátt fyrir allt sé best að treysta á fjölskylduna.

Það skýrir uppgang mafíunnar á Sikiley sérstaklega að það var í raun ekki fyrr en á 19. öld sem evrópska lénskerfið gaf eftir þar. Þar sem engin raunveruleg stjórnvöld eða starfandi yfirvald af neinu tagi var til staðar hvarf eyjan fljótt niður í lögleysu. Valdarúm myndaðist og ákveðnir landeigendur og aðrir valdamiklir menn tóku að byggja upp orðspor og að lokum var farið að líta á þá sem staðbundna leiðtoga. Þeir urðu þekktir sem capos eða kapóar. Þeir notuðu vald sitt til að heimta skatt af bændum undir þeirra vald (líkt og lénsherrarnir á undan þeim). Valdi þeirra var framfylgt með hótun um ofbeldi. Glæpastarfsemi þeirra var aldrei tilkynnt, jafnvel ekki af fórnarlömbunum, vegna ótta við hefndaraðgerðir. Þetta var upphaf sikileysku mafíunnar.

Gríðarleg áhrif á efnahag

En efnahagur Napólí verður tæpast ræddur nema í tengslum við Camorra - hina heimagerðu útgáfu þeirra af mafíunni. Wikipedia segir okkur þá sögu að Camorra hafi upphaflega verið leynisamtök stofnuð af glæpamönnum í Napólí um 1820. Þeir hafi orðið áhrifamiklir í stjórnmálum og síðar alræmdir fyrir fjárkúgun og hermdarverk. Á Ítalíu mun það tíðkast að kenna aðeins Cosa Nostra á Sikiley við mafíu en hópa á skaganum öðrum nöfnum. Uppruni Camorra og heitisins eru lík þar sem veðmálaleikur sem kallaður var „morra” var spilaður í Napólí. Stjórnvöld bönnuðu leikinn ásamt öðrum veðmálum. Fljótlega mútuðu nokkrir menn lögreglunni til að láta þetta í friði og seldu síðan öðrum vernd frá lögreglunni. Og þannig hófst starfsemin sem nær allt til okkar tíma.

Camorra er samofin samfélaginu og heimamenn hafa enga trú á að mafían verði rifin upp með rótum. Til þess liggja ræturnar of djúpt eins og sjónvarpsþættirnir sína okkur. En mafían verður að gæta ákveðins hófs í aðgerðum sínum og til dæmis ekki drepa of marga og helst ekki út fyrir sínar raðir. Með öðrum orðum, ekki kalla yfir sig of mikla athygli samfélagsins. Það er eilífðarvandamál í starfi mafíunnar að þvo peninga og nú um stundir gerir hún það helst með því að fjárfesta í ferðamennsku, meðal annars í þeim fallega bæ Sorrento þar sem pistlahöfundur hefur gist tvisvar. Hvort sem það eru til marks um nýja tíma eða ekki þá hafa konur víst verið að komast til aukinn áhrifa innan Camorra síðustu áratugi. Við sjáum að þær eru ekki með öllu áhrifalausar í sjónvarpsþáttunum sem hér um ræðir.