Eru Bandaríkjamenn loksins að færast nær sannleikanum í því sem gekk á varðandi meint tengsl Donalds Trump við Rússa í aðdraganda forsetakosninganna 2016? Fyrir bandarískum dómstóli er nú málið til rannsóknar en eins og flestir muna hafði það veruleg áhrif á kosningabaráttuna á sínum tíma en ekki síður umfjöllun um forsetatíð Donalds Trump. Rússamálið hefur mótað umræðuna í Bandaríkjunum og víða um heim og verið einhverskonar andlag óeðlilegra afskipta Rússa af bandarísku kosningunum og hvað hægt sé að gera á tímum falsfrétta, upplýsingaóreiðu og rangra upplýsinga. Þátttaka fjölmiðla er ekki síður til umræðu í málinu því svo virðist sem að blind pólitísk afstaða hafi ráðið fréttaflutningi margra sem þannig barst til notenda þeirra og hafði að endingu áhrif á afstöðu almennings.
Pistlaskrifari hefur margoft hlustað á íslenska fræðimenn, fjölmiðlamenn og embættismenn vitna til Rússamálsins sem víti til varnaðar í heimi falsfrétta og upplýsingaóreiðu. Nú síðast þegar framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar gerði þetta að umræðuefni á hádegismálþingi undir heitinu Upplýsingaóreiða á ófriðartímum. Í fyrirlestrum framkvæmdastjórans eru forsetakosningarnar í Bandaríkjunum þegar Trump náði kjöri og Brexit-kosningarnar tiltekin sem ýktustu dæmi þess sem hefur farið úrskeiðis og að í raun hafi þar falsfréttir og upplýsingaóreiða skipt sköpum um úrslitin. Getur verið að allir þessir aðilar hafi látið teyma sig í villigötur og skuldi jafnvel skýringar á ályktunum sínum gagnvart íslenskum almenningi nú þegar málið er að upplýsast í Bandaríkjunum? Hver er trúverðugleiki þeirra fjölmiðla hér á landi sem ítrekað birtu fréttir af Mueller-rannsókninni en þegja svo þunnu hljóði þegar í ljós kemur að Rússatengslin eru uppspuni hönnuð af kosningaráði Hillary Clinton?
Lítum á það sem hefur verið að gerast undanfarið. Undir stjórn Johns Durham, sérstaks saksóknara sem skipaður var af dómsmálaráðherranum William P. Barr, fer nú fram rannsókn á ástæðum þess að bandaríska alríkislögreglan (FBI) hóf rannsókn á meintum tengslum á milli forsetaframboðs Donalds Trumps og Rússlands árið 2016. Þessar ásakanir leiddu til skipunar sérstaks saksóknara, Roberts Mueller, sem rannsakaði ásamt fjölmennu teymi sínu í nokkur ár hvort Rússar hefðu að einhverju leyti komið að kosningabaráttu Donalds Trump. Skýrsla hans var að lokum birt í apríl 2019 og er óhætt að segja að hún hafi valdið mörgum andstæðingum Trump sárum vonbrigðum en þessi aðferð demókrata að hafa Trump og hans menn undir stöðugum rannsóknum truflaði embættisferil hans verulega.
Rannsóknir Roberts Mueller saksóknara og tíðir lekar frá ónefndum heimildamönnum „tengdum“ rannsókninni voru kjarninn í fréttaflutningi stöðva eins og CNN og CNBC sem eyddu gjarnan drjúgum hluta sólarhringsins á sínum tíma í að flytja af þessu „fréttir“. Augljóslega bjó að baki mikil gremja fjölmiðlamanna í garð Trumps sem virtist að hluta til komin vegna þess að hann hafnaði hliðvarðahlutverki þeirra og talaði beint til almennings, sem tryggði honum embættið, þvert á allar spár og skoðanir þessara sömu fjölmiðla.
Sláandi framburður kosningastjóra Hillarys
Það sem hefur vakið mesta athygli undanfarna daga er málflutningur Robby Mook, fyrrum kosningastjóra Hillary Clinton. Robby Mook bar fyrir rétti á föstudaginn að Hillary Clinton hefði sjálf lagt blessun sína yfir áætlun um að koma óstaðfestum ásökunum, um meint samskipti framboðs Donalds Trump við rússneska bankann Alfa Bank, á framfæri við fjölmiðla þegar hún keppti um forsetastólinn haustið 2016. Í ágætri grein um málið í Morgunblaðinu í gær, sem hér er að hluta til stuðst við, kemur fram að vitnisburður Robby Mooks er hluti af réttarhöldum yfir lögfræðingnum Michael Sussmann en hann er lykilmaður í rannsókn Johns Durham á tilurð þessara ásakana. Michael Sussmann hefur verið ákærður fyrir að hafa veitt bandarísku alríkislögreglunni rangar upplýsingar um hin meintu tengsl Donalds Trump við Rússland. Hin sérstaki saksóknari, John Durham, hefur dregið fram gögn sem sýna að Sussmann hafi starfað á vegum framboðs Hilary Clinton, meðal annars með netrannsóknarfyrirtækinu Fusion GPS, við að framleiða falsgögn. Michael Sussmann hefur hins vegar neitað þeim ásökunum, og lýsti hann sig saklausan af öllum ákæruatriðum við upphaf réttarhaldanna.
Var alríkislögreglan blekkt?
Málaferlin gegn Michael Sussmann snúast að verulegu leyti um fund í september 2016 sem hann átti með James Baker, sem þá var yfirlögfræðingur FBI. Þar mun Sussmann hafa komið á framfæri upplýsingum, sem áttu að sýna dularfullar skeytasendingar á milli Trump-framboðsins og tölvupóstþjóns sem tilheyrði Alfa Bank. James Baker bar fyrir rétti á fimmtudaginn í síðustu viku, að Sussmann hefði ekki upplýst hann um hann væri að vinna fyrir framboð Clintons, heldur sagst vera almennur borgari að gera skyldu sína með að upplýsa alríkislögregluna um vitneskju sína. Þannig hafi hann blekkt alríkislögregluna sem hefði farið öðruvísi að hefði hún vitað að hann væri í kosningateymi Hillary Clinton.
Fyrir réttinum sagði James Baker einnig að alríkislögreglan hefði þá þegar verið að rannsaka hvort tengsl væru á milli Donalds Trump og Rússlands og upplýsingarnar frá Michael Sussmann hefðu virst mikilvægar í því samhengi. Baker sagði hins vegar einnig, að hann hefði ekki fundað með Sussmann, hefði hann vitað að lögfræðingurinn væri að vinna með Hillary Clinton, heldur hefði Baker beint honum annað. Alríkislögreglan kannaði svo gögnin frá Sussmann, og komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að ekkert væri í þeim, sem benti til þess að framboð Trumps og Alfa Bank ættu í leynilegum samskiptum. Saksóknarar í málinu lögðu fram reikninga á miðvikudaginn, sem þeir segja að sýni að Sussmann hafi rukkað framboð Clintons fyrir þá vinnu sem hann innti af hendi í tengslum við að koma upplýsingunum í hendur alríkislögreglunnar.
Beinist að nánum samstarfsmönnum núverandi forseta
Í vitnisburði Robby Mooks á föstudaginn kom fram að framboð Hillary Clintons hefði komist að ásökununum um hina leynilegu boðleið Trumps og Alfa Bank haustið 2016. Augljóslega komu allir helstu forsprakkar kosningaframboðsins að ákvörðuninni en Mook sagði að hann sjálfur, John Podesta stjórnarformaður framboðsins, Jennifer Palmieri samskiptastjóri og Jake Sullivan, ráðgjafi og nú þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, hefðu tekið ákvörðunina um að upplýsingarnar ættu að fara til fjölmiðla, jafnvel þótt þær hefðu ekki verið staðreyndar.
Það er auðvitað stór ákvörðun að fara þessa leið í miðri kosningabaráttu. Í frétt Morgunblaðsins segir að Harry Mook hafi upplýst að hann hafi borið þá ákvörðun undir sjálfa Hillary Clinton, sem hefði samþykkt að gögnin yrðu send áfram til fjölmiðla. Mook tók hins vegar sérstaklega fram að enginn í yfirstjórn framboðsins hefði viljað að gögnin bærust til alríkislögreglunnar, þar sem enginn innan framboðsins hefði talið að alríkislögreglunni væri treystandi eftir rannsókn hennar á tölvupóstsmáli Clintons. „Að fara til alríkislögreglunnar er ekki mjög skilvirk leið til að koma upplýsingum á framfæri við almenning,“ sagði Mook, „Þú gerir það í gegnum fjölmiðla, sem er ástæðan fyrir því að upplýsingunum var deilt með fjölmiðlum.“
Röngum fréttum dælt út fyrir kjördag
Hinn vinstrisinnaði bandaríski vefmiðill Slate birti síðan gögnin hinn 31. október 2016, eða um viku fyrir kjördag. Augljóslega var þarna um að ræða stýrða atburðarás því sama dag tísti Michael Sullivan efni greinarinnar á Twitter-síðu sinni og Hillary Clinton sjálf tók undir það tíst og sagði það kalla á frekari rannsókn. Nú var allt komið af stað. Aðrir fjölmiðlar birtu einnig fréttir af þessu en í greiningu Washington Post 1. nóvember 2016 komu fram ályktanir um að mun líklegra væri að utanaðkomandi póstþjónn þriðja aðila væri að senda sjálfvirkt markaðsefni eða ruslpóst til póstþjóns Alfa Bank, sem sendi þá aftur sjálfvirkt til baka gögn til að staðreyna að sendandinn væri réttur.
Fyrir rétti var Harry Mook spurður hvort framboðið hefði kannað ásakanirnar á einhvern hátt áður en þeim var komið á framfæri við fjölmiðla. Sagði hann að enginn þar hefði haft næga tækniþekkingu til þess, og að von framboðsins væri að fjölmiðlar myndu rannsaka sannleiksgildið og svo taka ákvörðun um hvort rétt væri að birta þær.
Litlar fréttir eru af þessum málarekstri hér heima utan umfjöllunar Morgunblaðsins. Í Bandaríkjunum eru sumir fjölmiðlar að vernda stöðu sína en augljóslega stukku þeir viljugir á þennan áróðursvagn demókrata. Leiðarahöfundur Wall Street Journal skefur ekki af því í kjölfar vitnisburðar Harry Mook og segir að Hillary Clinton beri ábyrgðina (Hillary Clinton Did It!). Óhætt er að segja að lokaorð leiðarans séu harðorð: „Flestir fjölmiðlar munu hunsa þessar fréttir, en frásögin um tengsl Rússlands og Trumps, sem frú Clinton samþykkti, olli gríðarlegum skaða fyrir landið. Það varpar skugga á störf FBI, niðurlægir fjölmiðla og sendi landsmenn í eltingaleik við rannsókn sem stóð í þrjú ár og skilaði engu. Vladimír Pútín kom aldrei nálægt því að valda jafnmiklum skaða af með rangfærslum sínum (disinformation damage).“