c

Pistlar:

29. maí 2022 kl. 11:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stórvirki fyrr og nú

Flóaáveitan fagnaði hundrað ára afmæli fyrir stuttu en margir Íslendingar átta sig ekki hve einstakt verk var þar á ferð. Þrjú hundruð kílómetrar af skurðum voru grafnir með höndunum um allan Flóann, sem náðu yfir tólf þúsund hektara lands, en það er upphaf Flóaáveitunnar, sem reyndist mikilvæg fyrir búskap á þessu svæði. Þessi framkvæmd var einstök en það getur stundum verið forvitnilegt að sjá hvernig Íslendingar stóðu að verki fyrr á tímum. Miklar dómkirkjur voru reistar hér en úr timbri, þær brunnu að lokum og eru löngu horfnar. Það var ekki fyrr en farið var að reisa steinhús sem varanleg mannvirki urðu til á Íslandi.

Þau steinhús sem dönsk stjórnvöld reistu á 18. öld voru Viðeyjarstofa 1753-55, Hóladómkirkja 1757-63, Bessastaðastofa 1761-67, Nesstofa 1761-63, fangahúsið í Reykjavík (Stjórnarráðshúsið) 1765-70, Viðeyjarkirkja 1766-74, Landakirkja á Heimaey 1774-78, Bessastaðakirkja 1777-1795 og dómkirkjan í Reykjavík 1787-96. Sá er þetta skrifar vann í Stjórnarráðshúsinu eitt kjörtímabil og var reglulega minntur á sögu þess en tæplega 30 ár liðu frá því einhverjum datt í hug að reisa slíkt hús sem hegningarhús þar til vinna við það hófst. Bygging hússins tók 9 ár en hafa verður í huga að margvísleg óáran dundu á landsmönnum á þeim tíma.

Það er líklega verðugt umhugsunarefni í dag að velta fyrir sér hvort Íslendingum sé yfir höfuð áskapað að standa í stórræðum á verklega sviðinu. Ekki er langt síðan var gerður samanburður hér í pistli á framtakssemi frænda okkar í Færeyjum og okkur þegar kemur að jarðgangnagerð. Færeyingar hafa ákveðið að fara leið jarðgangna og ekkert samfélag í heiminum hefur ráðist í samskonar framkvæmdir, sé miðað við höfðatöluna frægu. Og er reyndar engin nærri þeim.landsp

Hvað er að gerast með Landspítalann?

En okkur Íslendingum eru stundum mislagðar hendur. Um það eru mörg nýleg dæmi en það skýrasta er á lóð Landspítalans núna. Nú eru líklega 10 ár síðan ákvörðun um bygging nýs spítala átti að vera að komast á lokastig og enn er byggingin varla komin upp úr jörðinni. 2011 var settur upp vefur um byggingu spítalans sem er ekki mikið uppfærður. Á Facebook-síðu verkefnisins hefur ekki komið ný frétt síðan 2019! Inni á heimasíðu Landspítalans eru hins vegar reglulegar framkvæmdafréttir. Starfsmenn undrast þennan seinagang á þessu mikilvæga verki. Ég hitti hjúkrunarfræðing fyrir skömmu sem sagði að hana hefði dreymt um að vinna á nýjum spítala en nú væri hún ekki einu sinni viss um hvort hún myndi deyja þar.

Nú er flestum orðið ljóst að byggingin er ekki að svara þörfum landsmanna þegar horft er til mannfjöldaþróunar. Bygging nýs Landspítala er risaátak (e.megaproject) fyrir okkar fámenna þjóðfélag og við hljótum að velta fyrir okkur hvernig til hefur tekist. Önnur stórverk eins og tvöföldun umferðarþungra vega, jarðgöng eða Sundabraut sýna að þetta getur vafist fyrir okkur. Ekki síst sá hlutir er lýtur að þarfagreiningu og skipulagningu. Það getur reynst okkur dýrt við byggingu Landspítalans en fregnir af byggingastað segja okkur að það verk eigi eftir að verða okkur dýrkeypt enda unnið við að hanna samhliða framkvæmdum. Við Íslendingar vitum að slíkt vinnulag er ávísun á vandræði.land2

Spyrja má sig af hverju ekki var farin sú leið að bjóða einfaldlega út spítalabygginguna til rekstrar- og byggingafélaga sem sérhæfa sig í að reisa og eiga slík mannvirki? Hefði ekki mát útbúa gögn þannig að íslenska ríkið færi einfaldlega fram á að fá eitt stykki spítala með 800 sjúkrarúmum til notkunar næstu 30 árin eða svo. Er flóknara að útbúa útboðsgögn fyrir slíkt en að upplifa þann vandræðagang sem nú ríkir á byggingastað?