c

Pistlar:

30. maí 2022 kl. 21:34

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Útflutningsgreinarnar hrökkva í gang

Óhætt er að segja að útflutningsgreinar okkar Íslendinga hafi tekið við sér með látum en mikil aukning varð á útflutningsverðmæti landsins á fyrsta fjórðungi borið saman við sama fjórðung í fyrra. Aukning varð í útflutningsverðmæti allra stoðanna þriggja; ferðaþjónustu, sjávarútvegi og stóriðju. Það skýrist af mikilli aukningu í ferðamannafjölda, miklum loðnuveiðum og mikilli hækkun á álverði frá því í fyrra eins og Hagsjá Landsbankans bendir á í greiningu sinni.

Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum nam 25 milljörðum á fyrsta fjórðungi ársins. Útlit er fyrir að halli snúist í afgang á utanríkisviðskiptum í ár og við taki viðskiptaafgangur næstu ár segir greiningardeild Íslandsbanka. Útflutningsverðmæti þessara þriggja greina á fjórðungnum nam ríflega 242 milljörðum króna og hefur ekki áður mælst hærra. Útflutningsverðmæti á fyrsta fjórðungi ársins nam alls 356 milljörðum kr. borið saman við 227 milljarða kr. á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur hvorki meira né minna en tæplega 130 milljörðum króna eða 57%. Seðlabankinn hefur í raun unnið gegn of mikilli styrkingu krónunnar að undanförnu. Hrávöruverðshækkanir hafa verið miklar undanfarið sem kostar okkur í innflutningi en kemur til góða í útflutningi.ferða

Úr 8 í 52 milljarða króna

Útflutningsverðmæti allra stoðanna þriggja; ferðaþjónustu, sjávarútvegi og stóriðju jókst verulega milli ára. Mesta aukningin varð í útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar en það jókst um ríflega 44 milljarða kr. eða 560%. Eins og komið hefur fram virðist ferðaþjónustan ætla að taka miklu hraðar við sér en nokkurn renndi í grun. Svo mjög að greinin býr nú við mörg þenslueinkenni, svo sem skorti á starfsmönnum.

Aukið útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar skýrist það fyrst og fremst af mikilli fjölgun erlendra ferðamanna. Vegna faraldursins var fjöldi erlendra ferðamanna einungis 12 þúsund manns á fyrsta fjórðungi í fyrra en 245 þúsund á sama fjórðungi þessa árs. Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar var tæplega 8 milljarðar kr. á fyrsta fjórðungi í fyrra en ríflega 52 milljarðar kr. á þessu ári.

Álverð í hæðstu hæðum

Mikil aukning varð einnig í útflutningsverðmæti stóriðju og er aukningin þar næstmest á eftir ferðaþjónustunni segir í Hagsjánni. Aukningin nam 104 milljörðum kr. og jókst um 69% milli ára. Þá aukningu má fyrst og fremst skýra með mikilli hækkun á heimsmarkaðsverði áls en það líkt og flestar aðrar hrávörur hafa hækkað mikið í verði á síðustu misserum. Álverð var að meðaltali tæplega 3.300 Bandaríkjadollarar á tonnið á fyrst fjórðungi borið saman við tæplega 2.100 dollara á tonnið á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 56%. Verð á kísiljárni hefur einnig hækkað mikið milli ára en útflutningsverðmæti þess nam 4,5 mö.kr. á fyrsta fjórðungi og jókst um 126% milli ára. Útflutningur kísiljárns í tonnum talið dróst hins vegar saman um 6% og af því má ráða að aukið útflutningsverðmæti hafi skýrst fyrst og fremst af hækkun verðsins.loðna

Loðnan mikilvæg en annað hækkar líka

Útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst um tæpan þriðjung á fyrsta fjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra eða um ríflega 20 milljarða kr. Langmest af þeirri aukningu má rekja til aukins útflutningsverðmætis uppsjávarafurða. Útflutningsverðmæti loðnu jókst um 7,6 milljarða kr. og fjórfaldaðist milli ára en nýyfirstaðin loðnuvertíð var sú stærsta í fjölda ára. Engin loðna veiddist tvö ár í röð.

Þá er athyglisvert að ekki voru allar afurðir vertíðarinnar fluttar út á fyrsta fjórðung og má því gera ráð fyrir að einnig muni mælast töluvert mikil aukning í útflutningi loðnuafurða á öðrum ársfjórðungi. Útflutningsverðmæti makríls jókst um tæpa 5 milljarða kr. og nam tæplega 7 milljörðum kr. Aukningin nemur 250% en flutt voru út 150% meira af makríl í tonnum talið en í fyrra. Útflutningsverðmæti síldar jókst síðan um 3,3 milljarða kr .eða 137% en 85% aukning var á síldarafurðum milli ára í tonnum talið. Útflutningsverðmæti þorsks jókst um ríflega milljarð króna en verð á honum hefur rokið upp og eigum við líklega enn eftir að finna ábata þess.