Það þykir yfirleitt ekki heppilegt að bera saman epli og appelsínur og líklega má segja það sama um samanburð á olíu og þorsk. Eigi að síður má lesa slíkan samanburð í Fréttablaðinu í dag þar sem rætt er við Þórólf Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, en hann segir að skattleggja mætti íslenska útgerð eins og olíuna í Noregi. Þetta virðist vera mælt í fullri alvöru en rætt er við Þórólf í framhaldi af forsíðufrétt blaðsins á föstudaginn þar sem rætt var við Indriða H. Þorláksson, fyrrverandi skattstjóra, ráðuneytisstjóra og pólitískan aðstoðarmann Steingríms J. Sigfússonar. Indriði sagði í fréttinni íslenska ríkið yrði af 40 til 60 milljörðum króna miðað við réttláta skattheimtu greinarinnar nú þegar afkoman er í hæstu hæðum. Augljóst er að Fréttablaðið rekur mjög stífan áróður fyrir aukinni skattlagningu á fiskveiðar og rekur þannig pólitískt erindi Viðreisnar en eigandi Fréttablaðsins, Helgi Magnússon fjárfestir, styður þann flokk og var einn af stofnendum hans.
Forsendur á veikum grunni
En víkjum fyrst aðeins að því sem haft var eftir Indriða. Gengur það að taka sérstaklega á milli 40 og 60 milljarða út úr sjávarútvegi þegar horft er til þess að heildar tekjur af veiðum sjávarútvegsins eru rétt tæpir 150 milljarðar? Höfum hugfast að auðlindagjald reiknast á nýtingu auðlindarinnar, ekki vinnslu, sölustarfi eða öðrum rekstri fyrirtækjanna. Forsendur Indriða fela þannig í sér veiðigjöld upp á 40% af tekjum upp úr sjó! Er það ekki dálítið vel í lagt? Þá verður að hafa í huga að launahlutfall til sjómanna er hátt í 40% af tekjum. Þegar það er skoðað eru bara eftir rúm 20% af tekjum upp úr sjó sem þurfa þá að duga fyrir olíu, veiðarfærum, viðhaldi, afskriftum og vöxtum. Rétt er að rifja upp að hagnaður sjávarútvegsins dróst verulega saman á milli áranna 2019 og 2020, eða úr 43 milljörðum árið 2019 í 29 milljarða árið 2020. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja héldu áfram að aukast og voru um 461 milljarðar króna í árslok 2020.
Væri ekki eðlilegt að Fréttablaðið myndi spyrja þá Indriða og Þórólf út í þessar staðreyndir málsins? Sýna þær ekki að þessir útreikningar ganga engan veginn upp? Það sjá allir sem einhverja innsýn hafa í sjávarútvegi að það vantar mikilvægar stærðir í þessa útreikninga. Er svona tal ekki fyrst og fremst einhverskonar pópúlismi og með aðstoð fjölmiðla er verið að selja fólki að það sé hægt að hafa stjarnfræðilegar tekjur af sjávarútvegi. Sem á sér ekki stoð í veruleikanum og allir ættu að sjá. Fyrir utan að ekki er bent á að auðlindagjaldið vegna síðasta árs verður augljóslega miklu hærra vegna bættrar afkomu, sem meðal annars skapaðist af því að loðna veiddist núna eftir tvö ár án þess að nokkur loðna veiddist.
En víkjum aftur að samanburði hagfræðiprófessorsins á þorski og olíu. Flestir ættu að átta sig á að jarðefnavinnsla er ákaflega ólík fiskveiðum. Í raun svo ólík að það er fráleitt að gera samanburð á gjaldtökum úr þessum greinum. Það er þó rétt að minna á að olíuiðnaður skiptist í tvennt, leit að olíu og vinnslu. Leit að olíu er svo kostnaðarsöm að það er búið til sérstakt regluverk þar um sem tryggir að einhver hafi yfir höfuð áhuga á því. Olíuvinnslan þarf síðan að borga fyrir þetta allt saman, ef og þegar olía finnst. Þá verður að hafa í huga að þegar kemur að hinni háu skattheimtu á olíuiðnaðinn, sem Þórólfur horfir til, þá er búið að greiða allan stofnkostnað og olían flæðir bara upp og er seld á heimsmarkaði sem heldur einsleit vara. Veiðar, vinnsla og sölu- og markaðsstarf í sjávarútvegi lítur allt öðrum lögmálum en það sem við sjáum í olíuvinnslu.
Því að breyta því sem virkar?
Það er mikilvægt að rifja upp að eignarréttarkerfi með fullkomlega framseljanlegum kvóta hefur reynst vel við að hámarka efnahagslegan afrakstur fiskveiðanna. Það hefur verið alið mjög á tilfinningalegum rökum í þessari umræðu en það gilda engin önnur lögmál um fiskveiðar en hverja aðra atvinnugrein þar sem vel skilgreindur eignarréttur og virkir markaðir eru forsendur framfara, eins og ferðaþjónusta og orkuvinnsla. - Eins og við höfum séð í sjávarútvegi hér á landi umfram önnur lönd þar sem menn hafa ekki farið þessa leið. Er ekki eðlilegt að þeir sem vilja breytingar útskýri betur því þurfi að breyta því sem virkar vel.
Fyrirtæki í sjávarútvegi og starfsfólk hans greiða skattar eins og aðrir í samfélaginu og síðan hefur það orðið að niðurstöðu að greiða aukalegt gjald, auðlindagjald, af veiðunum sjálfum. Það er óvenjulegt en þessari aðferð var ætlað að skapa sátt. Ýmis pópúlísk öfl hafa hins vegar kosið að ala á stöðugri óánægju með þetta fyrirkomulag. Er einhver von til þess að þeir sem tala svona og byggja á afbökun staðreynda geti einhvertímann orðið sáttir við það fyrirkomulag sem hefur nýst þjóðinni svona vel?