c

Pistlar:

20. júní 2022 kl. 10:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nýr kameralismi á Íslandi


Á fyrri hluta 18. aldar var tekin upp ný hagstjórnarstefna í Danaveldi sem byggði á svokölluðum hagsýsluveldi (kameralisma) sem var afbrigði upplýsingarstefnunnar. Þetta gerðist samhliða styrkingu konungsveldisins og trú á einhverskonar upplýst einveldi, í því fælist stjórnsýsluleg framþróun. Konungar Evrópu höfðu verið að styrkja völd sín aldirnar á undan og framundan voru tímar byltinga og þjóðfélagsumróts þegar þessir sömu konungar urðu að deila valdi sínu sífellt meira með embættismannakerfinu og lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Við sjáum ágætlega í nýrri þáttaröð um Lúðvík 14 í Ríkissjónvarpinu að á þeim tíma var konungur að styrkja sig sem orsakaði ýmis stjórnsýsluleg vandamál sem flest gengu út á ónógar tekjur hins miðstýrða konungsvalds. Að því hefur verið vikið áður hér í pistli.fánar

En aftur að kameralismanum en samkvæmt honum átti ríkið að vinna að hagsæld og velmegun þegnanna. Ekki síst til þess að þeir gætu sem best þjónað heildinni og átti þar að líta til allra þátta, ekki bara atvinnuveganna heldur einnig uppeldis, fræðslu og menningar. Skrifræði og eftirlit varð meira og stjórnsýsla tók mið af hugmyndum um hagsýsluveldi eins og áður sagði.

Vald færist úr landi

Með einveldistökunni 1661 varð valdabreyting hér á landi sem annars staðar í Danaveldi. Þessi valdabreyting var hins vegar lengi að ganga fram því að Alþingi Íslendinga fór upp frá því síhnignandi og lögum og réttarfari var breytt á ýmsa lund eftir útlenskri fyrirmynd. Um leið tók konungur sjálfur að skipa biskupa og lögmenn í embætti sem áður höfðu oftast verið kosnir af landsmönnum. Embættismenn konungs urðu meira framlenging hins danska framkvæmdavalds, stiftamtmaður og amtmaður voru í senn fjarlægir Íslendingum og gagnsminni landsmönnum og stiftamtmaður aldrei hér á landi. Amtmaður heyrði undir stiftamtmann á tímabilinu 1684-1872 og undir landshöfðingja á tímabilinu 1872-1904. Embætti amtmanns og landshöfðingja voru lögð af þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904. Þannig hafði einveldið og tilfærsla valds úr landi talsverð áhrif, jafnvel umfram þau áhrif sem menn töldu jákvæðan fylgifisk kameralismans. Það gæti verið upplýsandi fyrir áhugafólk um framsal valds úr landi að skoða hvað gekk á á þessum tíma.

En þó að margt í þessum breytingum gæti flokkast undir framfarir þá fylgdi þeim einnig meiri og nákvæmari stjórnun á fólki en að hluta til af fjarlægara valdi. Til þess að allir þegnar ríkisins væru iðnir og sparsamir og legðu sitt til almennrar velferðar ríkisins var talið nauðsynlegt að reisa betrunarhús og fangelsi. Þannig væri hægt að gera betlara, flækinga og sakamenn að nýtum samfélagsþegnum. Það var í þessum betrunaranda sem tukthúsið í Reykjavík (nú Stjórnarráðshús) var reist á árunum 1761-1771. Þegar Danir urðu gjaldþrota í kjölfar Napóleonsstyrjaldanna var öllum sakamönnum sleppt, einfaldlega vegna þess að ekki voru til fjármunir til að halda þeim í varðhaldi.fáni

Stöðugt meiri afskipti af þegnunum

Það er því tímanna tákn að frá þessu sama húsi berist nú það sem mætti kalla nýr kameralismi á Íslandi. Ekki endilega með ákalli um tukthúsvist heldur trú hins opinbera á að afskipti af lífi þegnanna verði aldrei of mikil og stöðugt verði að efla og styrkja þau með lögum og reglugerðum. Þetta birtist skýrlega í umræðu fyrir kosningar hér á landi eins og sást í umræðuþætti á Ríkissjónvarpinu kvöldið fyrir sveitastjórnarkosningar. Hver og einn frambjóðandi nær ekki að útskýra stefnu sína mikið í slíkri umræðu fjölflokkakerfisins en alltaf er rúm fyrir félagsleg yfirboð og frammíköll sem eiga að gagnast fátæku fólki. Umræða sem þessi er til vitnis um að allri stýrðri umræðu í fjölmiðlum er beint að þessu sömu félagslegu yfirboðum sem ganga út á að ekkert leysist nema hið opinbera komi að málum. Að baki býr sú trú nútímamannsins að við lifum í mauraþúfu sem skal vera stýrt miðlægt. Meira segja umræða dagsins skuli lúta miðlægum lögmálum þar sem hugtök og umræðuefni eru skýrð upp á nýtt.

Svona ástand tekur ekki yfir á einum degi. Margt bendir til þess að í nokkra áratugi hafi skólar og opinberar stofnanir smám saman sogast inn í þennan hugmyndaheim. Að sumu leyti er ekkert við þessu að gera, eðlilegt er að nýjar hugmyndir og nýjar nálganir birtist og takist á við þær eldri. En stundum getur þessi nýja hugmyndafræði leitt af sér skoðanafátækt, útilokun og bergmálshella. Jafnvel að sagnfræði landsins getur borist af leið og við misst sjónar á hvað fellst í fullveldinu eins og birtist í sérkennilegri afmælissýningu fyrir nokkrum árum. Verst er þegar valdamiklar stofnanir eins og Ríkisútvarpið taka að sér að leiða slíka hugmyndafræðilega breytingu með einhliða fréttaflutningi en ekki síður einhliða vali á viðmælendum sem endurvarpa sama sjónarhorninu, aftur og aftur, en það er efni í annan pistil.