Sagnfræðingum er tamt að tala um ris og fall ríkja og stundum vilja menn dramatísera hlutina og færa slíkt tal yfir á breytta siðmenningu eða jafnvel eitthvað enn háfleygara. Allt er breytingum undirorpið og nútímamaðurinn á erfitt með að meðtaka margar þær breytingar sem verða í samtímanum. Oft er gaman að slíkum vangaveltum um hreyfiafl þess veruleika sem við lifum í enda má segja að þær hafi skapað hugmyndafræðileg átök síðustu árhundruð eða svo. Marxisminn er að sönnu reistur á slíkum hugmyndum um átök andstæðanna, hvort sem þær voru sögulega nauðsynlegar eða spruttu af óásættanlegum stéttarhagsmunum. En auðvitað eru slíkar vangaveltur misvel orðaðar og misvel íhugaðar.
Leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag virðist þannig leggja í heldur vanhugsaðan leiðangur við að útskýra hið meinta fall hins bandaríska samfélags, undir fyrirsögninni „Fyrirlitna landið“. Þessi heldur dramatíska fyrirsögn virðist byggja á nokkrum tilfallandi fréttum um þetta 360 milljón manna ríki sem flestir vita að er í raun mörg ríki með mörg þjóðarbrot, ólík trúarbrögð og litarhátt en aðeins einna stjórnarskrá sem er ætlað að halda þessu öllu saman. Hugsanlega er leiðarahöfundurinn að túlka vonbrigði sín með nokkrar nýlegar fréttir en heldur er þetta vanstillt umræða um Bandaríkin sem þrátt fyrir allt eru sannarlega leiðandi í öryggis- og varnarmálum þeirra þjóða sem reyna að halda vestrænum gildum um mannréttindi og lýðræði á lofti. Ekki síður setningar eins og þessi. „Bandarísku samfélagi hefur hnignað svo á síðustu árum að vart eða ekki verður jafnað við fyrirheitna landið á síðustu öld.“ Leiðarinn er reyndar fullur af trúarlegum vísunum eins og birtist í því að ræða um „kristilega kórvillu“, hvað svo sem það er.
Erfiðleikar í Evrópu
Í umræðu alvarlegri fjölmiðla eða fræðasamfélagsins austan og vestanhafs verður maður alla jafnan ekki mikið var við svona umfjöllun þó vissulega séu hugmyndafræðilegir átakapólar óvenju fyrirferðamiklir þessi misserin. Þar skiptir breytt fjölmiðlun, sem viðbrögð við samfélagsmiðlum, máli eins og hefur verið bent á hér í pistlum. Þá er líka umhugsunarvert hvort Bandaríkin séu á verri stað en mörg önnur ríki hins vestræna heims en mörgum er gjarnt að tala um að ríki, sem áður bjuggu við sterka þjóðfélagsgerð, séu nú í brothættri stöðu. Til að mynda undraðist pistlaskrifari að sjá tölfræði sem sýndi að nauðgunum í Svíþjóð hafði fjölgað um 2200% frá árinu 1975 á meðan þjóðinni hafði aðeins fjölgað um 25%. Getur breytt skilgreining á glæpnum skýrt þessa breytingu? Tæplega.
Sænska samfélagið virðist að einhverju leyti vera að hverfa frá afslappaðri lífsspeki Línu langsokks í heim umróts og átaka og skemmst að minnast þess að í Páskauppreisninni í Svíþjóð fyrr á árinu slösuðust ríflega eitt hundrað lögreglumenn við skyldustörf auk gríðarlegs eignatjóns. Hvað á að lesa í það er auðvitað spurning en Svíar eru nú komnir undir hin sameiginlega verndarvæng Nató þar sem Bandaríkin útvega bæði sverðið og skjöldinn. Um leið knýja Tyrkir, bandamenn þeirra innan Nató, þá til að horfast í augu við innri ógn þó að enn séu litlar fréttir af því hvað raunverulega fólst í samþykki Tyrkja við inngöngu Svía og Finna í Nató.
Norðmenn glíma nú við hryðjuverk undir merkjum íslam af hálfu manns sem á rætur sínar í norsku samfélagi og hefur reyndar þegið alla sína framfærslu af norskum skattgreiðendum. Öryggislögreglur allra norðurlandanna eru uppteknar af því að fylgjast með og rannsaka innri ógn. Þannig er ástandið í ríkjum sem hafa lengst af getað stært sig af því að vera þau friðsömustu í heimi. Auðvitað eru þau það ennþá en andvaraleysið er sláandi. Frakkland ólgar af trúarátökum og klofningi. Í gær voru 19 menn fundnir sekir fyrir manndráp og hryðjuverk vegna aðild sína að hryðjuverkaárásinni í París í nóvember árið 2015. Í árásinni létust 130 óbreyttir borgarar og hundruð særðust í sprengju- og skotárásum á börum, veitingastöðum, þjóðarleikvangi og Bataclan tónlistarhöllinni. Fyrir og eftir þessa atburði hafa Frakkar búið við hryðjuverkaárásir frá sömu íslamísku öfgauppsprettunni.
Ríkisútvarpið dansar með
Þetta er tínt til af handahófi sem dæmi um þá erfiðleika sem þjóðfélagsgerð einstakra ríkja í Evrópu á við að stríða. En á sama tíma er miklu púðri varið í íslenskum fjölmiðlum í það að ræða bandaríska vandamálið, fyrirlitna landið! Í morgunútvarpi Rásar 1 í dag var ekki rætt um dóminn í Frakklandi heldur mátti þar heyra langan fyrirlestur um hin undarlegu réttarhöld sem nú fara fram í Bandaríkjunum vegna árásar á þinghúsið í Washington 6. janúar í fyrra. Alvarlegir atburðir en um leið augljóslega magnaðir upp af andstæðingum Donalds Trump, fyrrverandi forseta.
Í morgun voru í Heimsglugganum á Morgunvakt Rásar 1 saman komin þau Guðrún Hálfdánardóttir, Þórunn Elisabet Bogadóttir og Bogi Ágústsson. Já, Bogi og Þórunn eru feðgin enda er ríkisútvarpið fjölskylduvænn staður. En þarna var semsagt rætt um vitnisburð Cassidy Hutchinson fyrir þeirri nefnd Bandaríkjaþings sem rannsakar árásina. Frásögn hennar af hegðan Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, þann dag hefur vakið athygli en hún lýsir forsetanum vanstilltum, grípandi í stýri og með meiningar um hvert hann vilji fara. Vissulega er sumt þarna fréttnæmt en oft líka harla lítilvægt. Sumu í vitnisburði Cassidy Hutchinson hefur verið mótmælt og yfirheyrslunum er augljóslega stýrt af miklum andstæðingum Donalds Trump. Þeir eru við völd og beita þeim.
Bandaríski sagnfræðingurinn Kate Brown hefur bent á að oft sé greinilegt að sagnfræðingar haldi með viðfangsefnum sínum og vonist til að þeir sigri, ef ekki í fortíðinni, þá að minnsta kosti í minningunni. Getur það átt við um íslenska fjölmiðlamenn?