Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók sér hlé frá knattspyrnulífinu í Englandi og flutti um nýliðna helgi lokaræðuna á ráðstefnu í Oxford háskóla um rannsóknir og stefnumótun á sviði velsældar eins og segir í frétt á vef forsætisráðuneytisins. Þar segir að á ráðstefnunni hafi komið saman fræðafólk, þriðji geirinn (sic!), atvinnurekendur, stjórnmálamenn og fólk innan stjórnsýslunnar til að ræða nýjustu rannsóknir og þróun á sviði velsældarhugmyndafræðinnar. Semsagt, fólk úr ólíkum áttum að bræða saman hugmyndir og hugsanir. Meira hefur þó verið rætt um hitt erindi Katrínar í Englandi í íslenskum fjölmiðlum, nefnilega að vera kvennalandsliðinu til stuðnings.
Í ræðu sinni ræddi forsætisráðherra áherslur íslenskra stjórnvalda á velsældarhagkerfið og notkun velsældarvísa til að mæla hagsæld og lífsgæði. Sagði hún að við endurreisnina í kjölfar heimsfaraldursins hafi íslensk stjórnvöld horft til velsældarsjónarmiða og þarf sjálfsagt ekki að koma neinum á óvart að hún lagði þar sérstaka áherslu á jafnrétti kynjanna en undir stjórn Katrínar hefur ráðuneytið sett upp heila deild helgað þessu málefni.
Stóra myndin
Allt er þetta gott og blessað enda skiptir miklu að ræða hvernig við stýrum okkar samfélagi og hvert við stefnum með það. Með ákveðnum einföldunum má segja að það sé grunntónn þeirra pistla sem hér birtast með reglulegu millibili þó þeir séu oft að fjalla um afmarkað efni. En það getur verið hollt að horfa á stóru myndina og til að geta rætt stefnumótun heils samfélags þá þarf að vera til sameiginlegur skilningur á því hvar það stendur í dag og að hvaða markmiðum er stefnt.
Velsældarsamfélag lýtur væntanlega að þörfum borgara landsins og hvernig stutt er við ólíkar þarfir þeirra. Við höfum nást daglegar fréttir í fjölmiðlum um að mörg þau festi sem ætlað er að halda samfélaginu saman séu að riðlast og eru þar fréttir af heilbrigðiskerfinu fyrirferðamestar. Einnig andlegu ástandi þjóðarinnar og almenn vanlíðan sem virðist einhverra hluta vegna heldur aukast þó margt bendi til þess að þjóðin hafi sjaldan haft það betra efnahagslega. Allt eru þetta dapurleg tíðindi en stundum er erfitt að meta nákvæmlega hver þróunin er og hve nákvæmar upplýsingar við höfum í höndunum. Oftast þegar gerður er samanburður við önnur þjóðfélög stendur Ísland vel að vígi. Við tilheyrum jú Norðurlöndunum sem almennt eru talin þau þjóðfélög sem best hafa haldið á sínum málum, lengst af einsleit og ekki rifin sundur af klofningi sem mótað hefur til dæmis samfélög Miðausturlanda þar sem þjóðarmorð eru líklega hvað algengust í seinni tíma sögu mannkynsins.
Píratar og sósíalistar í umræðunni
Undanfarna tvo áratugi eða svo hefur umgjörð stjórnmálanna hér á Íslandi gerbreyst. Til þess að gera formfast fjögurraflokkakerfi hefur verið leyst upp í kerfi þar sem tvisvar til þrisvar sinnum fleiri flokkar bjóða fram. Við sjáum flokka eins og Pírata sem fæstir hefðu haft hugmyndarflug til að sjá fyrir sér á tíma fjórflokksins. Stundum virðist manni að Píratar telji Íslandssöguna misheppnaða þar til þeir komu til sögunnar og eina ráðið til að laga mistökin séu að skipta um þjóð í landinu! Um leið hefur sósíalistaflokkur verið að hasla sér völl þó flestir héldu að sú hugmyndafræði væri komin á öskuhauga sögunar. Sá flokkur virðist að hluta til tengjast minni atvinnuþátttöku í samfélaginu, meðal annars vegna óhóflegrar aukningar örorku sem er farin að hafa áhrif á íslenskan vinnumarkað. Hugsanlega hefur þetta allt leitt til grófra félagslegara yfirboða sem geta grafið undan hagkerfinu til lengri tíma litið.
Í allri þjóðfélagsumræðu eru settar fram allskonar hugmyndir, fullyrðingar og kröfur. Sumar íhaldssamar, kreddufullar og í takt við tíðarandann, aðrar framsýnar, frjálslyndar og úr takti við ríkjandi kreddur. Sumir vilja breytingar, aðrir vilja hafa allt eins og það hefur verið. Þetta sýnir glögglega hve klofin umræðan er og upplifun af íslensku samfélagi getir verið ólík. Vissulega lágu mörg mein í láginni áður fyrir og augljóslega þurfti þjóðin að fara í naflaskoðun með ýmis þau úrræði og aðgerðir sem þóttu í lagi í eina tíð. En það á svo sem við um aðrar þjóðir. Það er hins vegar ástæða til að hafa áhyggjur af þjóðfélagsumræðunni almennt sem hefur verið að pólaríserast og stýrist oft af óheilbrigðum þáttum eins útilokunar- og afturköllunarmenningu.
Eru loftslagsmál velsældarmál?
Í frétt ráðuneytisins kemur fram að forsætisráðherra ræddi um tengsl velsældar og baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Taldi hún að sú barátta neyði okkur til að endurhugsa lifnaðarhætti okkar, neyslu, framleiðslu og samgönguhætti. Hún taldi að þótt kostnaðurinn við að afstýra loftslagsvánni geti orðið umtalsverður þurfi það ekki að þýða minni velsæld ef áhersla er lögð á þarfir fólks frekar en að einblína einvörðungu á efnahagslegan vöxt. Þetta eru athyglisverðar fullyrðingar því við sjáum að víða um heim virðist fólk ósátt við þær byrðar sem aðgerðir gegn hinni meintu loftslagsmál leggja á almenning. Það er mikilvægt að vinna með staðreyndir til þess að verðmætum sé ekki kastað á glæ og komandi kynslóðir beri ekki kostnað af panikstemmningu núverandi kynslóða.