c

Pistlar:

14. júlí 2022 kl. 12:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Samþjöppun og vöxtur í portúgalskri víngerð

Margir tengja eðlilega annaðhvort púrtvín eða rósavín við Portúgal en púrtvín er nefnt eftir borginni Porto og hefur verið framleitt í landinu frá miðri 15. öld. Þá er hið heimfræga rósavín Mateus einnig frá Portúgal, sem ýtir enn frekar undir þessi tengsl. En þó að Portúgal henti að mörgu leyti vel til víngerðar af náttúrunnar hendi vegna milds og heppilegs veðurfars þá hefur það lengst af ekki verið talið til fremstu víngerðarlanda heims, meðal annars vegna skorts á sérþekkingu og fjárfestingu. Allmikið magn af léttvíni er þó framleitt þar og um 400 þúsund hektarar eru teknir undir vínframleiðslu. Árið 2013 var Portúgal tíundi umsvifamesti framleiðandi á léttvíni í heiminum en lengi framan af var vín þar framleitt fyrst og fremst til heimanota.vin1

Undanfarna áratugi hefur orðið breyting á vínframleiðslu í Portúgal, alþjóðlegir fjárfestar komið inn, gæði og áreiðanleiki framleiðslunnar aukist og sölu- og markaðsstarf eflt. Þessi fjárfesting hefur skilað sér í betri og öflugari víngerðarhúsum sem framleiða fjölbreytt úrval gæðavína. Þarna eins og víða á ekki rómatíska myndin um litla víngerðarmanninn við heldur er þetta iðnaður sem krefst fjárfestinga, þolinmóðs fjármagns og þekkingar.

Fleiri sjálfstæð víngerðarhús

Þannig hefur framleiðslan í auknum mæli verið að færast á hendur einstakra framleiðenda en lengi vel voru flest vín framleidd af vínsamlögum, sem bændur afhentu þrúgurnar. Stöðugt fjölgar hins vegar svokölluðum vinhos de Quinta eða sjálfstæðum víngerðarhúsum. Austur af Bairrada, nálægt Porto er að finna eitthvert þekktasta vínræktarsvæði Portúgals, Dao. Þar hefur víngerðarrisinn Sogrape haft mikil áhrif á framþróun á svæðinu með því að reisa risastóra og hátæknivædda víngerð, Quinta dos Carvalhais, í héraðinu miðju, einhverja þá fullkomnustu í öllu Portúgal.vin3

Helmingur fluttur út

Þessi samþjöppun og hagræðing sást ágætlega þegar víngerðarhúsið Bacalhôa Vinhos de Portugal var heimsótt í nýlega en það rekur eina stærstu og nýstárlegustu víngerð í Portúgal. Það var skemmtileg heimsókn, með áhugaverðum sagnfræðilegum upplýsingum og skoðun á merkum menningarminjum samhliða vínskoðun. Hjá Bacalhôa hefur í gegnum árin verið þróað mikið úrval af vínum sem hafa áunnið víngerðarhúsinu góðan orðstír og gert vín þess að valkosti hjá innlendum og alþjóðlegum neytendum. Fyrirtækið er með starfsemi í sjö portúgölskum vínræktarhéruðum, með samtals 1200 hektara af vínekrum í 40 bæjum og með 40 mismunandi afbrigð og fjóra vínkjallara með 15 þúsund eikartunnum (já það er fjárfesting út af fyrir sig að kaupa eikartunnur). Fyrirtækið sker sig úr á markaðnum fyrir stærð sína og 70% sjálfbært í eigin framleiðslu. Hver einingin er með eigin framleiðslumiðstöð með eigin sérkenni og arfleifð með sérstakt menningarlegt gildi. Um helmingur framleiðslunnar er fluttur út til ríflega 50 landa.

Í dag býður Bacalhôa upp á mörg gæðavín en skemmtilegast var að kynnst múskatvínum þeirra sem eru ljúffeng eftirréttarvín, sem stela bragði með því að þroskast í gömlum viskítunnum. Hjá fyrirtækinu eru nú framleiddir um 20 milljón lítra sem gerir félagið að einu stærsta víngerðarhúsi sem pistlaskrifari hefur heimsótt. Gróflega má færa þetta yfir í samsvarandi magn af flöskum en heimsóknir á búgarða í Toskana og Piedmont sýna yfirleitt framleiðslueiningar upp í 150 til 250 þúsund flöskur með ýmsum hliðarafurðum, svo sem ólífuolíu. Slík félög henta vel á þeim slóðum en menn hafa aðgang að sameiginlegu gæða- og sölukerfi.

Auðmaðurinn kemur til sögunnar

Það má sjá svipaða tímalínu hjá uppgangi portúgalskrar vínræktar og íslenska kvótakerfinu, samþjöppun, aukna fagmennsku, fjárfestingar og alþjóðlegt sölu- og markaðsstarf. Árið 1998 varð auðmaðurinn José Manuel Rodrigues "Joe" Berardo aðalhluthafi og hélt áfram að fjárfesta í nýjum vínekrum, vinna að nútímavæðingu víngerðarinnar og kaupum á nýjum eignum. Berardo var um tíma talinn auðugastur Portúgala og á fjárfestingar víða um heim. Hann lenti hins vegar eins og margir aðrir í miklum erfiðleikum í kringum hina alþjóðlegu bankakreppu sem reið yfir heiminn 2008. Engin efast um ástríðu hans þegar vínrækt er annars vegar en hann hætti í skóla 13 ára til að hefja störf við víngerð. Hann flutti 18 ára til Suður-Afríku þar sem gullvinnsla varð undirstaða að auði hans.

Samhliða innkomu Berardo hófst samstarf við Lafitte Rothschild Group í Quinta do Carmo. Árið 2007 varð Bacalhôa stærsti hluthafinn í Aliança, einn af virtustu framleiðendum í flokkum hágæða freyðivíns, brenndra vína og borðvíns. Árið eftir keypti fyrirtækið Quinta do Carmo og jók þannig bú sitt í 1200 ha af vínekrum.

Tilvalin tilbreyting

Steingrímur Sigurgeirsson vínsérfræðingur hefur sagt að eftirtektarverð sé hin fjölbreytta flóra vínþrúgna er Portúgalar hafa yfir að ráða. Portúgölsk vín séu þannig ekki einn ein útgáfan af hinum alþjóðlegu Chardonnay- og Cabernet-vínum heldur heimur út af fyrir sig. Steingrímur segir þau því tilvalda tilbreytingu auk þess sem margar hinna portúgölsku þrúgna eru vel þess virði að þeim sé gefinn gaumur og má nefna sem dæmi hina rauðu þrúgu Touriga Nacional, en úr henni eru framleidd mörg af bestu vínum landsins. Pistlaskrifari smakkaði reyndar mjög gott Cabernet-vín hjá Bacalhôa sem þeir hafa verið að þróa.vin2

Bacalhôa er með víngerð í mikilvægustu héruðum Portúgals: Alentejo, Península de Setúbal (Azeitão), Lissabon, Bairrada, Dão og Douro. Fyrirtækið sameinar gæði og framleiðslu með sterkri skírskotun til sögu og menningar landsins enda má segja að vín séu verðugir sendifulltrúar sinnar heimasveitar. Það er því lærdómsríkt að fá innsýn í hvernig þessi iðnaður hefur þróast og orðið samkeppnishæfur.