c

Pistlar:

20. júlí 2022 kl. 11:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjölgun mannkynsins ógn við vistkerfið

Dýraverndunarsinninn og náttúrufræðingurinn Jane Goodall ræddi mannfjöldaþróunina á Heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos fyrir þremur árum en ráðstefnanna er haldin árlega af Alþjóðlegu efnahagstofnuninni. Í Davos er fólki ætlað að hugsa út fyrir boxið og óháð dægurþras nútímans. Goodall var þar í hópi helstu hugsuða heimsins og sagði að mannkynið gæti ekki horft framhjá þeim vanda sem fylgdi mannfjöldaaukningu. Öll þau umhverfisverndarvandamál sem við eigum nú við að glíma og höfum áhyggjur af væru ekki vandamál ef mannfjöldinn væri eins og hann var fyrir 500 árum síðan.

Sumum fannst þetta kaldhæðnisleg en mannfjöldinn á þeim tíma var áætlaður vera á milli 420 og 540 milljónir manna, eða um 7,5 milljarði manna færri en í dag. Er þá aðeins pláss fyrir um 6% þeirra sem nú lifa á jörðinni? Vissulega er maðurinn plássfrekur og á það hefur margoft verið bent í pistlum hér að fjölgun mannkynsins er helsta ógn við vistkerfi jarðarinnar. En það er óvenjulegt að sjá svona tölur eins og Goodall leggur á borðið.mannf

Umhverfisverndarsinninn Jonathan Porritt tók undir með Goodall. Hann sagði á ráðstefnunni: „Á síðustu 50 árum hefur mannfjöldi tvöfaldast og villtum dýrastofnum hefur fækkað um helming. Ef við hefðum gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir þá íbúasprengingu sem nú hefur orðið þá væri líffræðilegur fjölbreytileiki eflaust í minni hættu í dag.“

Hægir á fjölgun mannkyns

Allt er þetta rétt og mannkyninu hefur fjölgað gríðarlega hratt undanfarin 100 ár eða svo. Fleiri málsmetandi menn taka undir að mannfjöldaþróunin sé helsta vandamálið þó þeir orði kannski ekki hlutina eins og Goodall. „Í mínum huga er mesta ógn mannkynsins gríð­ar­leg fjölgun þess og afleidd ofnýt­ing stórs hluta auð­linda jarð­ar­inn­ar, bæði á landi og í sjó,“ skrifaði Magnús Jónsson, fyrrverandi Veðurstofustjóri og núverandi trillukall, fyrir nokkrum árum og bætti við: „Meira og minna öll umhverfivandamál heimsins, þar með talin hlýnun jarðarinnar er afleiðing óheyrilegrar mannfjölgunar og krafna um bætt lífskjör,“

Samkvæmt nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum hefur hægst verulega á fjölgun mannkyns og er hún nú með hægasta móti síðan um 1950 en í nóvember, nánartiltekið 15. nóvember, er heildarfjöldi talinn verða orðinn átta milljarðar. Skýrslan færir bæði vond og góð tíðindi.

Samkvæmt skýrslunni gæti heildarfjöldi mannkyns náð hámarki í kringum 2080-2100 og verið þá 10,4 milljarðar manna á jörðinni eða um 2,5 milljarði manna fleiri en núna. Sumir fræðingar telja að hámarkið geti jafnvel orðið fyrr. Vegna þróunar í læknavísindum lifa fleiri börn fram á fullorðinsár og er talið að meðal ævilíkur fólks verði fyrir árið 2050, orðnar 77,2 ár. Þessi fjölgun á þó ekki við alls staðar sumstaðar er frjósemi að falla og skýrslan tiltekur að 61 landi má búast við að minnsta kosti eitt prósent fólksfækkun fyrir 2050 vegna lækkandi frjósemishlutfalls.

Stór hluti fólksfjölgunarinnar næstu 30 ára verður í átta löndum, meðal annars Eþíópíu, Egyptalandi, Nígeríu, Kongó, Pakistan, Filippseyjum, Tansaníu og Indlandi. Talið er að Indland mun á næsta ári taka fram úr Kína í fólksfjölda og verði þá fjölmennasta land heims.

Fæðingaklukka heimsins

Á veraldarvefnum er haldið úti síðu sem gefur sig út fyrir að reikna mannfjöldaþróun, nokkurskonar fæðingaklukka heimsins (World Population Clock). Þar er að finna margvíslegar upplýsingar um fólksfjölgun hvort sem við trúum því að hægt sé að gefa það út í rauntíma. Mannfjöldaþróunin er mjög ólík eftir heimssvæðum og sumstaðar í hinum vestræna heimi fækkar fólki. Það er augljóslega mikilvægt að draga úr fæðingartíðni í mörgum löndum enda ein af forsendum þess að þjóðir komist almennilega í bjargálnir.

Í ársbyrjun 2020 var mannfjöldinn í heiminum að nálgast 7.800 milljónir. Fólksfjölgunin gengur stöðugt hraðar fyrir sig og nú tekur það rétt um áratug að bæta milljarði manna við. Þrátt fyrir að mannkyninu fjölgi hratt þá er að hægjast á. Fólksfjölgunin fór undir 1% á síðasta ári en var 2% í kringum 1960 þegar pistlaskrifari fæddist.

Ríflega áratugur er síðan talið var að fleiri myndu deyja af völdum offitu en hungurs. Engu breytir um fjölgunina þó að reynt verði að fara betur með matvælin, eins og nú er að sjálfsögðu stefnt að. Nægur matur er í heiminum þó stundum geti reynst erfitt að koma honum þangað sem hans er mest þörf og því miður er næringarskortur landlægur víða. Þriðjungur allrar neyðaraðstoðar með matvæli í heiminum kemur frá Matvælaáætlun SÞ, stærstu stofnun heims á sviði matvælaaðstoðar. Árið 2016 fengu 82,2 miljónir manna mataraðstoð frá Matvælaáætluninni en talið er að 795 miljónir manna hafi þjáðst úr hungri það ár. Því miður hefur hallað undan fæti síðan þá.mannf

Milljarður þá og milljarður nú

Við upphaf landbúnaðarbyltingarinnar er talið að um fimm milljónir manna hafi búið á jörðinni. Næstu átta þúsund árin fjölgaði mannkyninu aðeins um 200 milljónir en hafa má í huga að þetta eru fullkomin ágiskunarvísindi (sumir halda því fram að fjölgunin hafi verið um allt að 400 milljónir sem er kannski ekki mikil breyting í samhengi dagsins í dag.) Fyrir miðja 19. öld var mannfjöldi í heiminum eitt þúsund milljónir. Svo fór að fjölga hratt og eitt þúsund milljónir bættust stöðugt hraðar við eins og eftirfarandi tafla sýnir með smá viðbót um áætlaða mannfjölgun:

Árið
1928 2000 milljónir
1958 3000 "
1974 4000 "
1988 5000 "
2000 6000 "
2011 7000 "
2020 7800”

2022 8000”*
2030 8500”*
2050 9700”*
2100 10400“*

*Áætlun