c

Pistlar:

26. júlí 2022 kl. 20:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Indverjar fleiri en Kínverjar 2023

Samkvæmt nýrri mannfjöldaspá Sameinuðu Þjóðanna eru horfur á því að Indverjar fari framúr Kínverjum á næsta ári og verði þar með fjölmennasta þjóð heims. Þetta yrði þá líklega fyrsta skipti í mannkynssögunni sem Kínverjar eru ekki fjölmennastir en nánast frá því í árdaga kínversku keisaranna hefur mikill mannfjöldi lifað á bökkum kínversku risafljótanna. Þetta verða mikil viðbrigði enda staða og afl þessara tveggja landa að stórum hluta mótast af gríðarlegum fólksfjölda þeirra.

Í skýrslu SÞ er bent á að skilningur á íbúaþróun og það að sjá fyrir lýðfræðilegar breytingar sé lykilatriði fyrir skilning á þróun heimsins og að geta skipulagt og framkvæmt trúverðuga áætlun fyrir sjálfbæra þróun árið 2030. Aðgerðaráætlunin fyrir 2030 leggur áherslu á að fólksfjöldi og viðbrögð við honum sé einn lykilþátta sjálfbærrar þróunar og verði að endurspegla þær hugmyndir sem settar eru fram í Aðgerðaáætlun Alþjóðaráðstefnunnar um mannfjölda og þróun (ICPD) sem samþykkt var í Kaíró árið 1994.ETDCH8_IndiaMumbai_web

Asía langfjölmennust nú

Skýrslan skiptist í þrjá hluta. Fyrsti hluti hennar fjallar um líklega fólksfjöldaþróun og vöxt og aldurssamsetningu frá 1950 til 2050. Annar hluti fjallar um lýðfræðilega drifkrafta fólksfjöldabreytinga, svo sem frjósemi, dánartíðni og alþjóðlega fólksflutninga og býður meðal annars upp á mat á lýðfræðilegum áhrifum kórónuveikifaraldursins. Þriðji hluti gefur yfirlit yfir þróun fólksfjölda fram til 2100 og möguleikar afleiðingar þess.

Hér var í pistli fyrir stuttu vikið að því að spár gera ráð fyrir að mannkynið nái því að verða átta milljarðar í nóvember næstkomandi, svona í þann mund að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hefst í Katar í Asíu ef einhverjum finnst eðlilegt að tengja þessi tvö tímamót saman. Nú eru tvö fjölmennustu svæðin bæði í Asíu: Austur- og Suðaustur-Asía með 2,3 milljarða manna (29 prósent jarðarbúa) og Mið- og Suður-Asía með 2,1 milljarða (26 prósent). Kína og Indland, með meira en 1,4 milljarða hvor, stóðu fyrir meirihluta íbúa á þessum tveimur svæðum.

Indland - nýja mannhafið

Þótt ótrúlega sé þá hefur hægst á fólksfjölgun Indlands á síðustu árum eftir að landsmenn höfðu tvöfaldast að tölu síðustu 40 ár. Eigi að síður fjölgar enn hraðar en í Kína og búist er við að íbúafjöldinn verði meiri en í Kína árið 2023 eins og áður sagði. Talið er að báðar þjóðir verði þá tæplega einn og hálfur milljarður manna. Búist er við að Indland nái hámarki íbúafjölda, 1,65 milljarðar manna, árið 2060, en eftir það mun þeim fækka. Fjöldi barna á Indlandi náði hámarki fyrir rúmum áratug og fer nú fækkandi.Í Indlandi eru nú ríflega 50 borgir með eina milljón íbúa eða fleiri. Stærsta ríki Indlands, Uttar Pradesh, er með 200 milljónir íbúa þannig að þetta ríki eitt og sér er fjölmennara en flest lönd heimsins.

Fjölmennasta borg Indlands, Mumbai (áðurBombay), var með skráða 12,5 milljónir íbúa árið 2011, þó að stór-höfuðborgarsvæðið sé miklu fjölmennara, eða heimili 18,4 milljóna manna. Mumbai hefur meira en tvöfaldast að stærð á undanförnum fjörutíu árum, þó að hægt hafi verulega á vexti á síðasta áratug. Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, kann að hafa haft þessar staðreyndir í huga fyrrir þremur árum þegar hann hvatti Indverja til að eignast litlar fjölskyldur.indl

Inn- og útflæði

Dags daglega erum við minnt á flóttamannavandann í heiminum en gróflega má áætla að á milli 80 og 90 milljónir manna séu nú á flótta af einni eða annarri ástæðu. Á milli áranna 2010 og 2021 voru 40 lönd eða svæði með nettóinnstreymi upp á meira en 200 þúsund farandfólk hver; í 17 þessara landa fór nettóinnstreymi yfir eina milljón manna á þessu tímabili. Nokkur af helstu móttökulöndunum, þar á meðal Jórdanía, Líbanon og Tyrkland, voru með hátt hlutfall innflytjenda á þessu tímabili sem að mestu var knúin áfram af flóttamannastreymi sem átti uppruna sinn til Sýrlands.

Hjá 10 löndum fór áætlað nettóflæði innflytjenda yfir eina milljón á tímabilinu frá 2010 til 2021. Í mörgum þessara landa var útflæðið vegna tímabundins vinnuafls hreyfingar, svo sem fyrir Pakistan (nettóflæði -16,5 milljónir), Indland (-3,5 milljónir), Bangladesh (-2,9 milljónir), Nepal (-1,6 milljónir) og Sri Lanka (-1,0 milljónir). Í öðrum löndum, þar á meðal Sýrlandi (-4,6 milljónir), Venesúela (Bólivaríska lýðveldið) (-4,8 milljónir) og Mjanmar (-1,0 milljónir). Segja má að átök, óöruggt ástand og efnahagslegar þrengingar hafi valdið útstreymi farandfólks á þessu tímabili.