Það þekkja hana fáir sem rithöfund en samt er hún líklega sú kona í heiminum sem hefur mest að gefa. Hún heitir MacKenzie Scott og er nú talin ein auðugasta kona heims um leið og hún er titluð mannvinur og rithöfundur, ekki leiðum að líkjast eins og þar stendur. Ekki er það sala skáldsagna sem hefur gert MacKenzie Scott að þeirri auðmanneskju sem hún er heldur hjónaband við einn ríkasta mann heims, stofnanda Amazon, Jeff Bezos. Eftir skilnaðinn við Bezos hefur auður hennar sveiflast á milli 35 til 40 milljarða bandaríkjadala og munar þar mest um 4% hlut hennar í Amazon-veldinu.
Að sönnu má rekja auð flestra kvenna á listum hina ríku til erfða eða hjónabanda en enginn efaðist um réttmæti MacKenzie Scott til hluta af auðævum mannsins síns þegar þau Jeff skyldu. Óumdeilt var að hún hafði komið að stofnun Amazon með ráðum og dáðum og jafnvel sjálf unnið mörg af erfiðustu störfunum á meðan félagið var að ná sér á strik. Hjónaband þeirra Jeffs endaði 2019 og það sem hún fékk úr skilnaðinum gerði hana að 22 ríkustu manneskju heims, með þá um 60 milljarða bandaríkjadala eða um 8.220 milljarða króna. Markaðir hafa verið erfiðir síðan sem hefur fært auðinn nokkuð niður eins og áður sagði. Koma tímar koma ráð.
Áheit og auðmenn
En miklir peningar setja fólk í hlutverk sem ekki allir sjá fyrir. Undanfarin misseri hafa margir af þekktustu auðmönnum heims, flestir með uppruna í Bandaríkjunum ritað undir áheiti um að gefa auð sinn. Áheitið (The Giving Pledge) sækir upphaf sitt til frumkvæðis Bill og Melindu Gates um að verja nánast öllum auði sínum til góðgerða- eða mannúðarmála. Fljótlega var öldungurinn auðugi og góðviljaði Warren Buffett kominn í þennan hóp og margir fleiri, meðal annars MacKenzie Scott en þó ekki Jeff Bezos. Maður hennar fyrrverandi var á tímabili talin mestur aurasála, sannur arftaki Ebenezer Scrooge, enda virtist hann uppteknari af því að sinna nýju konunni, stækka fyrirtæki sitt, sýsla með Washington Post og komast út í geiminn. Það var reyndar eftir geimferðina sem honum snérist hugur og hann var ekki búinn að jafna sig á geimriðunni þegar hann var búinn að lofa að gefa sem svaraði 500 milljónum bandaríkjadala til góðra málefna. Hann virðist því hafa séð ljósið. Það er reyndar rétt að taka fram að sósíalistar og annað tortryggið fólk efast um ásetning auðmanna og telur að allar gjafir þeirra snúist um að snúa á skattinn og þannig snuða sósíalíska búrókrata um að fá að eyða sjálfir auðmannapeningunum. Látum það liggja milli hluta.
Vill gefa hratt og mikið
En MacKenzie Scott virðist umhugað um að gefa peninga sína eins hratt og vel og hægt er að hugsa sér. Þegar talað er um vel, þá er vísað til mikilvægi og gæða þeirra verkefna sem studd eru. Fyrir ári síðan gerði tímaritið The Economist gjafir MacKenzie Scott að umtalsefni. Var þar rakin saga af því þegar starfsmenn Point Foundaition fóru allt í einu að fá fyrirspurnir um starfsemi sína eins og gerð væri áreiðanleikakönnun á samtökunum sem einbeita sér að ungu fólki úr LGBTQ samfélaginu og aðstoðar það til mennta. Félagið er óhagnaðardrifið og svo sem vant slíku en ekki símtalinu sem fylgdi frá MacKenzie Scott sem gaf félaginu umtalsverða fjármuni til frjálsra afnota. Það gerði stofnuninni kleyft að auka umsvif sín um helming.
MacKenzie Scott hefur haldið sig til hlés síðan hún fékk hið nýja hlutverk, giftist reyndar kennara í vísindum sem starfaði við skóla barna hennar í Seattle og vitnar helst í bókmenntapersónur þegar hún er knúin svara af fjölmiðlum. En hún vill sem minnst samskipti eiga við þá og var að sögn fegin að Jeff tók eignarhlutinn í Washington Post þegar þau skildu. Hún forðast sviðsljósið, öfugt við Jeff sem sést gjarnan á samkvæmissíðum fjölmiðla og er gjarnan í fréttum vegna dýrra leikfanga. Árið 2006 vann Scott bandarísk bókaverðlaun fyrir frumraun sína árið 2005, The Testing of Luther Albright. Önnur skáldsaga hennar, Traps, kom út árið 2013.
Ólík aðferðarfræði við að ausa út fé
En það að eiga slíka fjármuni kostar rekstur og utanumhald og þó hún hafi ákveðið að taka alltaf sjálf lokaákvörðun um gjafir til mannúðar- eða velferðarmála þá þarf hún auðvitað á ráðgjöfum að halda. Hún hefur þó forðast að koma sér upp skrifstofu eða fast utanumhald með starfsmannahaldi og öðru slíku. Að sumu leyti gefur hún peninga sína eins og flest millistéttarfólk gerir. - Að sögn Economist með því að láta allskonar samtök fá pening og láta þau svo um framkvæmdina. Til samanburðar má nefna að Gates-stofnunin (The Bill and Melinda Gates Foundation), sem er stærsta góðgerðarstofnun Bandaríkjanna, deildi út sem svaraði 5,8 milljörðum dala árið 2020. Fyrir áratug eða svo varpaði Bill Gates því fram að hugsanlega yrði fátækt útrýmt árið 2035. Ólíklegt er að það verði.
Á síðasta ári gaf MacKenzie Scott upphæð sem svaraði 8,6 milljörðum dala sem Economist telur stærstu gjöf einstaklings af þessu tagi. Megnið af gjafafé MacKenzie Scott hefur farið til staðbundinna góðgerðarfélaga, margra sem meðal annars deila út matar- og fatagjöfum. Á sama tíma hefur Gates-stofnunin greitt út um 30% af framlögum sínum til 10 stórra alþjóðlegra samtaka, svo sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og öðrum stofnunum sem berjast gegn tilteknum sjúkdómum, svo sem malaríu, AIDS og berklum og þó sérstaklega til gerða nothæfra bóluefna.
Það er niðurstaða Economist að MacKenzie Scott hafi að sumu leyti notast við aðra aðferðafræði en tíðkast hefur í góðgerðabransa ríka fólksins. Blaðið segist ekki átta sig á hvort það hafi verið viljandi eða óviljandi en peningarnir streyma í það minnsta til margskonar þarfra verkefna.