Ari Páll Kristinsson íslenskufræðingur bendir á það í pistli í Morgunblaðinu í dag að Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur gagnrýndi íslensku blöðin í Eimreiðinni 1901 fyrir að skrifa lítið um vísindi: „Á hinum síðustu árum hafa Íslendingar ritað margar merkar ritgjörðir um náttúru Íslands, en þeirra er sjaldan eða aldrei getið í blöðum eða tímaritum … En ef ómentaður, enskur „túristi“ lætur svo lítið að geta íslenzkrar þjóðar, eða íslenzkrar náttúru, er það undir eins lotningarfylst látið „á þrykk út ganga“ (þó það sé eintóm vitleysa).“
Ari Páll notar þetta á skemmtilegan hátt til að velta fyrir sér notkun orðsins túristi en ummælin geta einnig vísað okkur í aðra átt. Í dag hljótum við til dæmis að velta fyrir okkur hvernig vísindalegri umræðu er háttað í gegnum fjölmiðla nútímans. Sannarlega hafa samfélagsmiðlar tekið sér mikið rými og þar birtast margskonar sannindi, því miður oft úr heldur þröngum bergmálshellum. Ég ætla ekki að ræða þá umræðuhefð hér en hef vikið að því oft áður. Þess í stað að taka upp þráðinn þar sem Þorvaldur skildi við hann og velta upp nokkrum þáttum er lúta að vísindaþekkingu þjóðarinnar og hvaða áhrif fjölmiðlarnir hafa þar á.
Landið enn í mótun
Dags daglega erum við með lifandi umræðu sem lýtur að náttúru landsins, nú síðast vegna eldana á Reykjanesi sem hafa vakið þjóðina til vitundar um jarðfræði sem áður var lítt þekkt, nefnilega að eldgos á Reykjanesi og suðvesturhorni landsins gerast með kerfisbundnum hætti og nú hafa fjöllin vaknað af dvala. Það getur verið margra alda hlé, eins og við höfum séð, en svo vakna þau aftur. Við Íslendingar ættum að vita að það eru meiri líkindi en ekki að eldgos brjótist út þegar nýtt ár gengur í garð. Nú stöndum við meira að segja frammi fyrir því að gosið getur á mörgum stöðum í einu.
Landið er í mótun og líklega fá lönd heims sem þola jafn tíðar breytingar og Ísland. En við gleymum þessu og stundum skortir á skilning, meðal annars af því að fjölmiðlar setja hlutina ekki í vísindalegt samhengi, nú eða þá að hagsmunasamtök eins og Landvernd komast upp með villandi málflutning eins og þegar kemur að nýtingu vatnsafls á Íslandi. Okkar endurnýtanlega orka er einstök og við hljótum að skoða það alvarlega að halda áfram að nýta hana með aðstoð upplýsingar, vísinda og tækni. Fullyrðingar Landverndar um óhagkvæmni, afskriftir eða landnýtingu vegna virkjanna eru rangar og villandi en því miður virðast fjölmiðlar ekki bregðast við.
Ísöld ríkjandi ástand
Stundum virðist fólk gleyma því að náttúra og umhverfi eru síbreytileg. Þegar við síðan sjáum breytingarnar er eins og við óttumst þær í stað þess að skilja hvað öfl eru að verki. Strandlengja Íslands í dag er þannig verulega ólík því sem var þegar landnámið átti sér stað. En lengra aftur eru ekki nema 10 til 12 þúsund ár síðan ísöld lauk og landið var hulið jökli. Ísöld er í tíma talið ríkjandi ástand á Íslandi án þess að menn skilji til fullnustu hvað setur hana af stað. Því má spyrja fólk sem ræðir hlýnun í dag hvort það vilji heldur lifa það að það kólni eða hlýni? Í hinni sögulegu hringrás hér á norðurhveli jarðar togast þessi öfl á þar sem kuldinn hefur vanalega vinninginn.
Þórsmörk - dýpsti fjörðurinn
Við erum stöðugt minnt á breytingarafl náttúrunnar. Í dag heldur Jóhann Ísak Pétursson jarðfræðingur fyrirlestur í Fljótshlíð þar sem hann lýsir landslagi við Markarfljót og í Þórsmörk, myndun þess og mótun. „Mér hefur alltaf fundist landsmenn fara mikils á mis að skilja ekki landið og landslagið betur en þeir gera,“ segir Jóhann Ísak í samtali við Morgunblaðið í vikunni.
Hann tekur sem dæmi að á síðustu tíu þúsund árum hafi fjörutíu rúmkílómetrar af sandi fyllt upp í fjörðinn sem lá inn að Þórsmörk, og myndað Landeyjasand. Fjörðurinn hafi verið dýpsti fjörður landsins en sandurinn hafi fyllt alveg upp í hann. Magnið af sandi sé líkt og farið væri með nokkur þúsund vörubílshlöss á dag í tíu þúsund ár og sleppt í fjörðinn. Mesti sandurinn hafi þó borist í flóðum sem urðu þegar Katla gaus.
Það er auðvitað stórmerkilegt að lesa þetta og hugsa um leið um þá staðreynd að Vatnajökull hefur líklega verið klofinn á landnámsöld svo á milli mátti ferðast. Fram til aldamótanna 1900 kólnaði verulega og við höfum séð kuldatímabil koma og fara, nú síðast í sumar um leið og hitamet eru slegin á einstaka stað í Evrópu. Stundum skortir jafnvægi og yfirsýn í þessa umræða. Það er til dæmis enginn að ræða veðurfar í Ástralíu núna en álfan hefur undanfarið ár notið einmuna blíðu til hagsældar fyrir land og þjóð. Um það eru ekki fluttar fréttir.