c

Pistlar:

20. ágúst 2022 kl. 13:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fréttir af alkunnu framkvæmdaleysi

Þegar ástandið á húsnæðismarkaði, í samgöngumálum og byggingu Landspítalans er skoðað gæti hvarflað að mörgum að Íslendingum fari ekki mjög vel að ráðast í stórframkvæmdir. Nema hugsanlega Landsvirkjun sem hefur getað reist stærstu mannvirki landsins til þess að gera vandræðalaust. Er kannski lausnin að láta Landsvirkjun um fleiri opinberar framkvæmdir?

Skoðum fyrst byggingu nýs Landsspítala. Flestum er ljóst að húsið rís allt of seint og líklega á röngum stað. Auk þess eru komnar marktækar efasemdir um að byggingar séu of litlar og muni ekki geta haldist í hendur við fjölgun þjóðarinnar. Með öðrum orðum, húsið rís of seint, á röngum stað og þjónar ekki þörfum fyrir þjóðarsjúkrahús. Auðvitað verður reynt að klastra upp í þetta sem mun kosta endalausra aukafjárveitingar en ljóst er að kostnaðaráætlun er algerlega fallin um sjálft sig. Svo mjög að verktakinn hótaði að hætta verkinu í vor og var byrjaður að taka niður krana á vinnusvæði. Nú er rætt um að verkinu ljúki 2027 eða 2028. Er ekki rétt að hefja strax undirbúning að næsta spítala ef þetta er framkvæmdahraðinn?sunda

Sundabraut á 21. öld?

Horfum á önnur kostnaðarsöm verkefni, svo sem Sundabraut en auglýst var eftir verkefnastjóra og miðað við að verkinu ljúki 2031 eða eftir tæpan áratug. Ljóst er að Sundabraut nýtist ekki nema hún verði byggð í heilu lagi, verkið þarf að klára í heild sinni svo samgöngubótin virki. Hálfbyggð Sundabraut gerir engum gagn en hafa má í huga að skýrslur hafa tekið af óumdeilanlegt þjóðhagslegt gildi hennar. En virðist eftir að ákveða hvort byggð verður brú eða grafin göng. Og ef byggð verður brú eins og samgönguráðherra talar fyrir, hvort það verður hábrú eða lágbrú. Ljóst er að lágbrú mun kalla á verulegar skaðabætur til handa þeim sem missa dýra hafnaraðstöðu fyrir innan brúna. Það hafa þeir séð sem nenna að lesa skýrslur til enda.

Húsnæðismarkaður er í slíku öngstræti að stjórnvöld hafa ákveðið að hrinda af stað átaki til að tryggja að byggðar verði 35.000 íbúðir á næstu 10 árum. Öllum má vera ljóst að frumforsenda fyrir því að byggð séu hús er að nægilegt framboð sé af lóðum. Það hefur brugðist í höfuðborginni og þéttingastefnan um leið ýtt undir hækkun fasteignaverðs. Framboðshliðin verður ekki leyst nema á einn hátt, með auknu framboði lóða.bru

Tafakostnaður Sunnlendinga við Ölfusá

Nú myndast kílómetra langar biðraðir á hringveginum við Selfoss. Ný brú yfir Ölfusá er á teikniborðinu en verður tæpast tilbúinn fyrr en eftir tvö til þrjú ár, gangi allt vel. Þetta er slæm niðurstaða og mun kosta Sunnlendinga mikla fjármuni í tafakostnaði og almennum óþægindum. Mistökin eru stjórnvalda sem greinilega hafa verið andvaralaus um þróun umferðar á þessu svæði og þá veikleika sem eru í kringum Selfoss, með gamla og þrönga brú í bæjarfélagi sem stækkar hratt.

Þetta minnir á þær miklu tafir sem hafa verið á lagningu vegs um Teigsskóg og nauðsynlegar vegabætur á sunnanverðum Vestfjörðum. Ljóst er að þetta hefur reynt á þolinmæði heimamanna, skaðað atvinnulífið og í sumum tilvikum dregið úr umferðaröryggi. Þeir sem töfðu framkvæmdina ættu að sjá sóma sinn í að biðjast afsökunar.

Umferðastokkur sem allsherjarlausn

En á höfuðborgarsvæðinu hefur verið rekin stefna gegn bílnum sem er og hefur verið aðal samgöngutæki borgarinnar. Þessi stefna bítur í og nú þarf að ráðast í dýrar lausnir. Yfirleitt þegar í óefni stefnir birtist borgarstjóri og talar um stokk sem eina allsherjarlausn. Ennþá hefur engin stokkur risið og óvíst með öllu að það verði. Sem endranær tala skipulagsyfirvöld í Reykjavík og Vegagerðin með ólíkum hætti. Þegar raunveruleikinn bankar á dyr reynir Vegagerðin að tala fyrir jarðgöngum sem lausn. Við vitum að þjóðhagslega hagkvæmasti kosturinn vegna Sundabrautar var tekin undir íbúabyggð. Fyrirhyggjuleysið var algert. En nú þarf að leysa samgöngumál vegna Sundabyggðar með 40 milljarða stokki sem krefst gríðarlegrar flókinnar úrlausnar enda virðist Vegagerðin tala nú fyrir jarðgöngum. Vegna stokksins þarf að lækka Sæbrautina um 16 metra og engin veit hvert umferðin á að fara. Sömu annmarkar eru vegna Miklubrautarstokks, enginn veit hvert umferðin á að fara á meðan stokkurinn er lagður. Þar virðist Vegagerðin einnig horfa til jarðgangna hvað sem verður. Engar skynsamlegar lausnir virðast vera á leið í framkvæmd.reykjavíkur

Þarf fleiri skýrslur um Hvassahraun?

Þorkell Sigurlaugsson viðskiptafræðingur rakti með skilmerkilegum hætti í Morgunblaðinu í gær að Hvassahraunsumræðan er í ógöngum. Það þarf ekki fleiri skýrslur en Þorkell færði fram sannfærandi rök fyrir því að skynsamlegast væri að styrka Reykjavíkurflugvöll sem varaflugvöll og miða við að þannig verði málin leyst næstu áratugi. Allt tal um uppbyggingu í Hvassahrauni eða annars staðar er ekki stutt neinum skynsamlegum rökum á meðan Reykjavíkurflugvöllur ætti að nýtast vel næstu áratugi án mikils tilkostnaðar.