c

Pistlar:

23. ágúst 2022 kl. 12:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skattakóngar og tekjulistar

Það kann að vera nokkuð vandasamt að fara í gegnum hagfræðilega umræðu á Íslandi í dag. Fljótt á litið virðast greiningaraðilar helst horfa á verðbólgutölur og bíða næstu stýrivaxtaákvörðunar á meðan almenningi er boði upp í dans fjölmiðla sem birta nú sína árlegu tekjulista þar sem við getum forvitnast, sjokkerast og hugsanlega stundum glaðst. Tekjulistarnir eru micro-hagfræði launamannsins og eðlilega keppast menn við að bera sjálfa sig saman við hina ýmsu stéttir eða þekkt fólk, áhrifavalda eða bara áhrifalaust fólk með háar eða lágar tekjur eftir því sem kaupin á eyrinni gerast.

Umræðan um tekjulistanna er oftast sjálfri sér lík, stundum erum við sláandi hissa en í önnur skipti þykjumst við sjá kunnugleg stef. Við höfum séð þessi merki að launamenn allskonar eru með hæstu tekjur, jafnvel menn sem njóta einhverskonar kaupréttarhlunninda og er aðeins önnur stemmning í kringum það þegar kaupmaðurinn Þorvaldur Guðmundsson í Síld & fisk var skattakóngur ár eftir ár og sagðist alltaf borga skattana með glöðu geði.rikur

Borgar glaður skatta

Núverandi tekjuskattskóngur, Magnús Steinarr Norðdahl, fyrrverandi forstjóri LS Retail, segist vonast til þess að skattgreiðslur hans nýtist öðrum og segir tilfinninguna vera góða. Í samtali við fréttastofu Vísis sagði Magnús að samfélagslega tilfinningin sem tengist (svo!) því að vera skattakóngur Íslands sé góð. Hann vonast til þess að greiðslur hans nýtist öðrum en skilur að fólk gæti litið hann illum augum, einn tekjuhæsta mann landsins. „Ég skil það svo sem alveg. Á móti kemur að ríkið og lífeyrissjóðirnir fá miklar tekjur af þessu. Síðan er alltaf jákvætt að borga skatta af öllu sem maður hefur tekjur af,“ segir Magnús skilningsríkur en hann var með tæpar 118 milljónir króna á mánuði í launatekjur á síðasta ári samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar.

Stundum sáum við birtast meðal skattakónga menn sem seldu fyrirtæki sín og gjalda nú keisaranum gjald af eigin ævistarfi, nú eða þegar verið var að selja uppbyggingu nokkurra kynslóða þó að skattalistarnir beri ekki með sér að hér sé mikið um „gamla“ peninga í umferð. Hvað er átt við með því, jú þrátt fyrir allt er hreyfanleiki innan íslenska þjóðfélagsins mikill og flestir þeir sem prýða tekjulistanna hafa skapað sér sín eigin örlög. Menn koma og fara á þessum listum. Þess finnast meira að segja dæmi þess að menn sem voru í efstu sætum á tekjulistum berjist nú fyrir sósíalísku þjóðfélagi, sem þeir gerðu ekki endilega þegar þeir voru með hæstu tekjurnar. Þá var hugur þeirra líklega meira tengdur eigin vasa. Hagsmunabarátta nútímans er ólík því sem var þegar verkalýðsforkólfar voru ekki á launaskrá heldur unnu sín störf af hugsjón. Engin ætlast til slíks í dag.

Þjóð með spennandi framtíð?

Fyrir skömmu seldi Heiðar Guðjónsson fjárfestir hlut sinn í Sýn fyrir tvo milljarða króna. Ákvörðunin var tekin af heilsufarsaðstæðum og Heiðar hefur vonandi tækifæri til að safna kröftum og koma áfram að íslensku atvinnulífi með einum eða öðrum hætti en hann hefur reynst vera framsýn fjárfestir og ágætur rekstrarmaður. Einnig er hann skarpur þjóðfélagsrýnir en í viðtali við Viðskiptablaðið benti hann á að hve hve mikið af þjóðmálaumræðunni fari í að ræða launabil og eignadreifingu. „Sama hvaða aðferðum er beitt sýna allar mælingar að ójöfnuður á Íslandi er með því allra lægsta sem þekkist í heiminum. Laun á Íslandi eru einnig gríðarlega há í öllum alþjóðlegum samanburði. Íslendingar hafa það því mjög gott. Það er nær að ræða um spennandi framtíð frekar en stöðuna í dag.“

Þetta er auðvitað rétt hjá Heiðari og líklega vilja flestir að unga kynslóðin trúi á tækifæri og möguleika íslensks samfélags. Pistlaskrifari gerir sér það stundum að leik að spyrja fólk hvort það vilji að unga fólkið þroskist og dafni innan þess samfélags sem hér eða hvort það eigi að breyta því? Ertu betur settur ef þú stefnir að því að breyta samfélaginu í stað þess að vinna með því? Þetta er ekki vandalaus spurning, fólk á ekki að sætta sig við óréttlæti en stundum er verið að efna til ófriðar og átaka án þess að það geti leitt til neins. Svolítið eins og menn vilji breyta leikreglunum eftirá. Það er hins vegar rangt að líta á peninga sem algildan mælikvarða á verðmæti enda heldur óstöðugur mælikvarði og virkar á oft bagalega til að mæla gildi hluta.tekjurbla

Öfundin

En að mörgu er að hyggja. Fyrir ári síðan gerði ég hugtakið öfund að umræðuefni hér í pistli og ætla ekki að fara út í það hér. Ég ætla þó að birta aftur orð breska heimspekingsins Bertrand Russell sem sagði að öfund væri ein öflugasta orsök óhamingju mannsins. Í bók sinni Að höndla hamingju fjallar hann talsvert um þetta málefni og segir svo:

„Öfund er afleitasta einkenni mannlegs eðlis; ekki er nóg með að öfundsjúkur maður reyni að skaða aðra ef hann kemst upp með það, heldur gerir öfundin hann sjálfan óhamingjusaman. Hann nýtur ekki þess sem hann hefur, en kvelst af því sem aðrir hafa. Hann reynir að spilla hag annarra og finnst það jafn eftirsóknarvert og að tryggja eigin hag. Fái þessi hvöt að leika lausum hala spillir hún öllu sem vel er gert og kemur jafnvel í veg fyrir að afburðahæfileikar fái að njóta sín.“