c

Pistlar:

29. ágúst 2022 kl. 16:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Auður í aldanna rás

Í hinni nú bráðum endalausu þrætu Bergsveins Birgissonar við fræðimennsku er tengist rostungum kom upp nafn dr. Helga Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands. Augljóslega er ástæða til að gefa skrifum hans meiri athygli en þó ekki síður hugmyndafræðilegri nálgun hans á framvindu sögunar. Á þetta bendir Baldur Hafstað, fyrrverandi prófessor í íslensku við Kennaraháskóla Íslands, í umsögn um bók Helga, Land úr landi. Greinar, sem birtist í Morgunblaðinu fyrir 20 árum. Baldur Hafstað skrifar reglulega stórskemmtilega pistla í helgarblað Morgunblaðsins þar sem hann sýnir að það er hægt að vera skemmtilegur og upplýsandi án þess að slaka á fræðilegum kröfum.

En ritstörf Helga vöktu athygli pistlaskrifara vegna þess samhengis sem hann setur á auðsöfnun og skilyrði til hennar í aldanna rás en rostungsþrætan snýst að hluta til um það. Hugsanlega nokkuð lifandi umræða um þessar mundir þar sem tekjulistarnir svokölluðu eru nú vinsælt umræðuefni og er pistlaskrifari þar engin undantekning þegar kemur að nýtingu þeirra.auður

Hvaðan kom auðurinn að baki menningunni?

Lengsta greinin í bók Helga heitir Menning á Íslandi. Þar leitast Helgi við að varpa ljósi á það hvernig á því gat staðið að einhverskonar hámenning myndaðist hér á útjaðri Evrópu á 12. og 13. öld. Hvernig var hægt að kosta Íslendinga til langra námsdvala erlendis og kaupa þar dýrar bækur? „Menning kostar of fjár,“ segir Helgi. Baldur bendir á að þarna hnykki Helgi á kenningum sem hann setti fram í bók sinn Um haf innan sem kom út 1997 og vakti nokkra athygli en þó líklega minni en hún átti skilið. Það má reyndar benda á að bókagerð var iðnaður og jók til dæmis auð Skarðsættarinnar frá Skarði á Skarðsströnd en á hennar vegum voru margar af glæsilegustu bókum okkar Íslendinga gerðar. Sögur eru um það innan ættarinnar að á tímabili hafi um 20% alls lands verið í höndum hennar og einn helsti laukur ættarinnar, Ólöf ríka, átt eða ráðið yfir um 800 jörðum á Íslandi. Allt er þetta saga sem mætti skoða betur.

„Einhyrningstennur“ seljast dýrt

Helgi er að velta fyrir sér auðsöfnun þess tíma og heldur því staðfastlega fram að útilokað hafi verið að mynda ríkidæmi á Íslandi með þeirri verslunarvöru sem sagnfræðingar hafa löngum haldið fram að hafi verið aðalútflutningsvaran, nefnilega vaðmál sem bæði var rúmfrekt og verðlítið. Baldur segir að þess í stað reyni Helgi að sanna að Grænlandsverslun (og Ameríkuverslun) hafi hér skipt sköpum. Ekki hafi aðeins verið um skinnavöru, svarðreipi, fálka og ísbirni að ræða heldur hvaltennur, já fyrst og fremst náhvalstönn. Helgi bendir á að náhvalstennur hafi verið seldar sem einhyrningstennur og hafi verið verðmætari en gull og silfur. Já, kaupahéðnar hafa löngum verið til á Íslandi.

„Lúxusvarningur var keyptur af höfðingjum og prelátum“, segir Helgi. Með því að geta boðið upp á lúxusvöru komust íslenskir höfðingjar fyrirhafnarlítið í kynni við erlenda höfðingja og fursta. Þessa leið til kynna við stórhöfðingja telur Helgi líklegri skýringu en að Íslendingar hafi getað nálgast þá með „óskiljanlegum kvæðum“. Undir þetta tekur Baldur og skrifar: „Satt er það að fleiri en Helgi hafa efast um sannleiksgildi frásagna af íslenskum bændasonum sem heilluðu konunga með skáldskap.“handr

Verslun og viðskipti uppspretta auðs

Þetta eru forvitnilegar vangaveltur og satt best að segja hefur sagnfræðin svikið okkur um skilmerkilegt yfirlit um tekjulista fyrri tíma! En þetta er áhugaverð umræða því miklu skiptir að skilja hvernig landið og þær reglur sem giltu á hverjum tíma studdu við efnahag landsmanna, nú í dag þegar við teljumst vera meðal ríkustu þjóða. Allt sem kom úr náttúrunni var verslunarvara og þá skipti miklu að hafa réttu viðskiptasamböndin og geta skilað vörunni heilli og góðri. Baldur bendir á að ríkidæmið og hámenninguna á Vesturlandi kjósi Helgi að skýra með því að tengja höfðingja á því svæði við Grænlandsverslun; Vesturland hafi í rauninni verið í mikilvægri verslunarleið en alls ekki á neinum útkjálka. Og líklega bjuggu auðugustu menn fyrri tíma á Íslandi flestir á Vesturlandi.

En einnig skipti miklu að skilja regluumhverfið. Segja má að áður en vald fluttist úr landi (svo mikið sem það gerðist) hafi landsmenn verið frjálsir til að afla sér auðs á hvern þann hátt sem þeir vildu en auðvitað varð það að vera í sátt við hinar óskráðu reglur samfélagsins. En sem áður var það verslun og viðskipti sem voru grunnur auðsöfnunar og í bók minni, Ríkir Íslendingar, sem kom út 2001 ræddi ég forsendur og skilyrði auðsöfnunar á Íslandi í gegnum aldirnar en þar skiptu trúarbrögð og hugmyndafræði ekki síður miklu máli en regluverk og aðrar mannasetningar. Að því verður að huga.