c

Pistlar:

28. september 2022 kl. 15:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Það er gott að búa á Íslandi!

Eitt helsta þrætuefni íslenskrar dægurmálaumræðu snýst um lífskjör Íslendinga og hvernig landsmenn hafa það í samanburði við aðrar þjóðir. Við erum ekki einir um áhuga á slíkum samanburði og allskonar samanburðafræði finnast þar sem hagsældar- og vesældartölur ólíkra ríkja eru bornar saman. Margar opinberar stofnanir reyna að halda úti trúverðugum metingi sem væntanlega er ætlað að hvetja þá sem síður standa sig til dáða og segja þeim sem standa sig vel að þeir séu að gera hlutina rétt. En það að reka hagkerfi og samfélag saman er flókin aðgerð, fólki farnast misjafnlega og fyrir því geta verið margvíslegar ástæður, ýmsar auðmælanlegar og aðrar síður.

Einn áhugaverðasti samanburður af þessu tagi birtist í gegnum árlegra mælingu Social Progress Imperative á vísitölu félagslegra framfara en sú nýjasta var birt fyrir skömmu. Vísitalan mælir velmegun og lífsgæði þjóða en við mælingu hennar er horft til félagslegra og umhverfislegra þátta. Þar reyndist Ísland vera í fimmta sæti af 169 þjóðum en þjóðum í mælingunni hefur fjölgað jafnt og þétt. Mælingin hefur verið gerð síðan 2011 og hefur Ísland jafnan verið meðal efstu þjóða eins og bent var á í grein í Morgunblaðinu í gær. Hér í pistlum hefur margoft verið vitnað í samanburð SPI sem pistlaskrifari telur mjög áhugaverða og skynsama nálgun á þessum samanburðafræðum enda aðferðafræðin verið lengi í þróun og hefur mælanlega markmið í grunninn.lífisl

Vísitala hamingjunnar?

Social Progress Index (SPI) vísitalan er sett saman af teymi hagfræðinga undir stjórn Michael E. Porter, prófessors í hagfræði við Harvard háskóla. Við uppröðun á lista SPI er horft framhjá hefðbundnum mælikvörðum hagfræðinnar, mælikvörðum á borð við hagvöxt og þess í stað litið til lífsgæða og tækifæra til velgengni. Listinn styðst við opinber gögn og er meðal annars litið til heilsufars, mannréttinda og menntunar, auk annarra þátta. Í stuttu máli má segja að listinn horfi fremur til þess hvað kemur út úr kerfinu heldur en þess sem fer inn í það. Í stað þess að einblína á framlög til heilbrigðismála er reynt að horfa til þess heilbrigðis sem framlögin skila til samfélagsins. Í því ljósi blasir við að þessi aðferðarfræði getur hæglega nýst stjórnvöldum við forgangsröðun, stefnumótun og ákvarðanatöku. Og hugsanlega fundið leiðir til að auka hamingju þegnanna.


Ísland fellur um sæti

Ísland þykir leiðandi á ýmsum sviðum þegar vísitala félagslegra framfara, SPI, er reiknuð út. Þar á meðal eru þættir er lúta að aðgengi að vatni, mat og hreinlæti. Hér eru lífslíkur ungbarna mestar og gott aðgengi að menntun. Þá þykir hér á landi vera áberandi lítið um ofbeldi gegn minnihlutahópum, hátt hlutfall farsímaáskrifta og greitt aðgengi að upplýsingum og samskiptum. Eins búa Íslendingar við einna minnstu loftmengun allra og sem fyrr skörum við fram úr í nýtingu hreinna orkugjafa. Allt þetta vitum við svo sem en sérfræðingar SPI líta svo á að árangurinn tryggi okkur fimmta sæti.

Afturför í 52 löndum í ár

Eins og síðustu ár eru það Norðmenn sem tróna á toppi lista SPI og kemur ekki á óvart. Á eftir þeim koma Danir, þá Finnar og Svisslendingar eru í fjórða sæti á undan Íslendingum en Norðurlandaþjóðirnar raða sér í efstu sætin sem áður. Svíar og Hollendingar feta svo í fótspor okkar. Suður-Súdan situr á botni listans, þar eru lítil lífsgæði að hafa.

Þegar horft er á heildarniðurstöður mælingarinnar má sjá að heilt yfir hefur vísitalan hækkað um 0,37% milli ára. Hins vegar máttu 52 þjóðir horfa upp á afturför og er Ísland þar á meðal. Í fyrra mældist vísitalan hér á landi 89,57% miðað við uppfærða tölu SPI en í ár er hún 89,54% þannig að breytingin er svo sem varla mælanleg.

Blikur á lofti fyrir næsta ár

Í samantekt Social Progress Imperative segir að þó niðurstöður þessa árs sýni að þjóðir heims séu heilt yfir á uppleið, þegar kemur að velmegun og lífsgæðum, hafi hægt á framförum. Fari sem horfi muni vísitalan í fyrsta sinn lækka á næsta ári. Auk þess eigi áhrif kórónuveirufaraldursins enn eftir að skila sér að fullu inn í þessar mælingar sem auki enn á óvissuna um framhaldið. Þetta er sumpart athyglisvert og erfitt að meta hvaða áhrif það hefur á einingu samfélaga ef almenningur er að upplifa skerðingu lífsgæða. Það getur farið svo að óeining aukist og komi brestir í afstöðu og hugmynda um samhjálp og velferðakerfi sem eiga að stuðla að því. Það er erfitt að standa fyrir alvöru umræðu um það en fagna ber raunverulegum tilraunum til að færa okkur þekkingu á þessu sviði.