c

Pistlar:

30. september 2022 kl. 17:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Framkvæmdaleysissýsla ríkisins

Það er áhugavert að fylgjast með umræðunni um Þjóðarhöll og Þjóðarleikvang og sjá pólitísk útspil stjórnmálamanna sem eru gjarnan fullir af framkvæmdahug fyrir kosningar og draga svo lappirnar eftir kosningar. Það var þannig kostulegt að sjá tvo ráðherra og borgarstjóra undirrita skjal í Laugardalnum sem virtist merkingalaust þegar á reyndi að mati fjármálaráðherra. Hann benti réttilega á að þeir sem undirrituðu skjalið höfðu ekki hugsað málið til enda og væntu þess að jólasveinninn (í þessu tilviki fjármálaráðherra) kæmi með nauðsynlega fjármuni að borðinu um leið og þremenningarnir snéru sér að öðrum undirritunum og tilheyrandi fjárútlátum. Ríkissjóður á fáa vini þegar á reynir.höll

En fjármálaráðherra afhjúpaði að þremenningarnir höfðu í raun ekkert í höndunum þegar þeir hittust. Ekkert var vitað um þarfagreiningu vegna starfsemi hússins, framkvæmdakostnað, hvernig hann myndi skiptast milli ríkis og borgar og hvernig ætti síðan að fjármagna rekstur hússins. Þeir sem ráðist hafa í byggingu stórra mannvirkja eins og íþrótta- og menningarhúsa vita að rekstrarkostnaðurinn verður iðulega margfaldur áður en yfir líkur. Það veit fjármálaráðherra þegar hann kemur með andhóf sitt. Hver þekkir ekki endalausar fréttir um rekstrarþrot tónlistarhússins Hörpu?

Getuleysi stjórnvalda

En allt þetta mál sýnir ákveðið getuleysi stjórnvalda. Þau geta ekki leyst svona mál vegna þess að það þurfa margir aðilar að koma að og svo þarf að ákveða kostnaðargreiðslur eins og áður sagði, bæði vegna uppbyggingar og rekstrar og hvernig á að reka. Ríkið ræður ekki við slíkar ákvarðanir og því tefjast framkvæmdir von úr viti eins og gerst hefur með uppbyggingu Landspítalans og aðrar stórframkvæmdir eins og hefur verið fjallað um áður hér í pistlum.

Margt bendir til þess að vandinn felist í ferlum hins opinbera sem einfaldlega duga ekki þegar kemur að flóknum verkefnum þar sem þarf að deila fjárfestinga- og rekstrarkostnaði. Þannig getur verið gríðarlega þunglamalegt að samræma sjónarmið og kostnaðarvitund allra þeirra sem eiga að koma að borðinu. Fyrir vikið tefjast framkvæmdir, verða ómarkvissari, ábyrgðalausari og að endingu miklu kostnaðarfrekari en ástæða væri til. Því má spyrja hvort ekki hefði verið farsælast að bjóða einfaldlega framkvæmdina út með allsherjar eignar- og rekstrarsamningi. Þá mætti sjá fyrir sér að eitthvert fasteignafélag gæti búið til og þróað rekstrarhæfa einingu út úr þessu öllu og höll og leikvangur fyrir vikið löngu risin, jafnvel Landspítali.vangur

Margnota þjóðarleikvangar

Undanfarin ár hafa leikvangar og íþróttahús verið reist í nágranalöndum okkar sem þjóna margþættum tilgangi, í sumum tilvikum eru skrifstofu- og jafnvel hótelbyggingar tengdar við og reynt að finna eins fjölþætta nýtingu úr þessu öllu og unnt er. Við sjáum þetta til dæmis meðal ensku úrvalsdeildarfélaganna sem keppast við að renna stoðum undir nýtingu mannvirkja sinna um leið og þau eru bætt og uppfærð.

Hugsanlega væri hagkvæmt að byggja Þjóðarleikvang og Þjóðarhöll sem eina einingu með tengdu skrifstofu- og hótelhúsnæði. Fasteignafélag gæti hæglega þróað rekstrarmódel fyrir slíka byggingu með þjónustusamning við ríki- og borg í höndunum. Í slíkum þjónustusamningi væri nákvæmlega skilgreindar þarfir ríkisins þegar kemur að slíkum mannvirkjum og þá greitt fyrri það með langtímasamningi. Fasteigna- og þróunarfélagið gæti þá fundið fjölbreytta nýtingu undir mannvirkin. Fjármögnun stærstu fasteignafélaga landsins er með þeim hætti í dag að þeim ætti ekki að vera skotaskuld úr því að fá samkeppnishæf tilboð.

Á sama hátt má alveg sjá fyrir sér að ríkið hefði einbeitt sér að því á sínum tíma að skilgreina nákvæmlega hvaða þörfum nýtt húsnæði Landspítalans á að þjóna. Þannig hefði verið hægt að fá nýtt hús, jafnvel áratug fyrr um leið og unnið væri að þarfagreiningu fyrir næsta sjúkrahús. Líftími starfseminnar í slíkum byggingum þyrfti kannski ekki að vera lengri en 25 til 35 ár og fyrir vikið ættu landsmenn aðgengi að bestu heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma í stað þess að öll athygli heilbrigðiskerfisins sjálfs fari í að stússast í nýrri byggingu. Það sama má segja um íþróttahreyfinguna.