Ef málefni innflytjenda ber á góma við íbúa hinna Norðurlandanna eða Íslendinga sem hafa þar búið í lengri eða skemmri tíma er viðkomandi fljótur að vara okkur Íslendinga við. Staðreyndin er sú að innflytjendamál eru í ólestri víða á Norðurlöndunum og hafa verið það lengi. Þau farin að móta mjög hina pólitísku umræðu og leggja línurnar fyrir nýtt pólitískt landslag eins og sást í nýafstöðnum kosningum í Svíþjóð. Að sumu leyti er það miður en þetta hefur gerst vegna þess að ríkjandi stjórnmálastétt vildi ekki leggja við hlustir þegar hættumerki tóku að birtast. Það sama er að gerast á Íslandi en nú er svo komið að á annað hundrað flóttamenn streyma til landsins í viku hverri um leið málaflokkurinn gleypir stöðugt meira fjármagn og kemur niður á annarri velferðarþjónustu. Dómsmálaráðherra hefur sagt að hreint neyðarástand ríki hjá Útlendingastofnun þar sem flóttamenn sem fyrir eru teppi aðstöðuna fyrir þeim flóttamönnum sem kunna að koma frá Úkraínu. Þetta neyðarástand er einnig við landamæravörslu.
Rauði krossinn tekur nú í notkun einhverskonar flóttamannabúðir og ljóst er að engin leið er að leysa húsnæðismál þessa fjölda sem streymir til landsins svo vel sé. Ráðherra málaflokksins er margsaga um stöðu mála og reynir að koma ábyrgðinni yfir á sveitarfélög landsins sem vita sem er að engu er að treysta sem ráðherrann og ríkisstjórnin segir um málið. Fyrir vikið sitja þær sveitastjórnir sem glöptust til samstarfs uppi með lítt viðráðanlega stöðu og aðrar hljóta að hugsa sinn gang.
Íslendingar andvaralausir
Í Morgunblaðinu í gær var áhugaverð umfjöllun um málin í framhaldi þess að íslensk sendinefnd þingmanna fór til Noregs og Danmerkur, meðal annars til að kynna sér þessi mál. Þótt fyrr hefði verið gæti einhver sagt en sumir í röðum þingmanna hafa sannarlega varað við þróuninni. En út úr ferðinni kemur að það er almenn pólitísk og samfélagsleg samstaða um málefni útlendinga í Danmörku og Noregi. Það greinir okkur mjög frá þessum nágrannaríkjum okkar sagði Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar og menntamálanefndar Alþingis við Morgunblaðið.
Nefndin fór meðal annars til að kynna sér málefni útlendinga og hvernig tekið er á þeim. Bryndís sagði að bæði danskir og norskir þingmenn hafi orðað það mjög fljótlega að lönd þeirra væru með virka endursendingarstefnu. „Það var áhugavert því á sama tíma heyrði maður fréttir að heiman um að ríkislögreglustjórinn væri að senda fólk út. Slík mál virðast ekki fá sömu athygli og umfjöllun annars staðar á Norðurlöndum og þau fá hér,“ segir Bryndís. „Þau líta svo á að það skipti öllu máli að umsækjendur fái réttláta og góða málsmeðferð. Fái fólk synjun að henni lokinni beri því að yfirgefa landið. Þau eru hörð á því.“
Við höfum misst tökin
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, fór með nefndinni út og segir í samtali við Morgunblaðið að mikill munur sé á því hvernig Danir og Norðmenn annars vegar og Íslendingar hins vegar taka á móti hælisleitendum. Sigmundur Davíð segir að Norðmenn hafi talað um 48 klukkustunda leiðina, það er að úrskurða um umsóknir um alþjóðlega vernd innan tveggja sólarhringa, sem mjög mikilvæga.
„Mér fannst allir vera sammála um að það sem er í boði í hverju landi hafi veruleg áhrif á hælisleitendastrauminn þangað. Ekki síst hve miklir möguleikar eru á að tefja afgreiðslu mála með áfrýjunum og frestunum,“ segir Sigmundur. Hann sagði einnig að í stefnu Dana sé lykilatriði að enginn komi skilríkjalaus og sæki um hæli. Sækja þurfi um hæli í Danmörku frá öðru landi. „Það var viðurkennt að menn stundi það að losa sig við skilríki til að geta verið lengur í umsóknarferlinu. Í Danmörku hittum við mann í móttökustöð sem sagði að yfir 90% umsækjenda frá tilteknu landi, sem segðust vera á barnsaldri, væru fullorðnir.“
Flóttamenn á fölskum forsendum
Þeir sem sækja um alþjóðlega vernd í Danmörku verða að afhenda farsíma sinn og lykilorðið að honum svo hægt sé að kanna hver manneskjan er og hvaðan hún kemur. Mikil fjölgun hælisleitenda á Íslandi hefur vakið athygli í nágrannalöndunum. Eins hve stór hluti kemur frá Venesúela, mun fleiri en til hinna ríkja Norðurlandanna. „Það er afleiðing af því að íslensk stjórnvöld ákváðu að fólk frá Venesúela ætti rétt á að fá alþjóðlega vernd á Íslandi. Það spurðist mjög hratt út.“
Það hefur verið lengi á almennu vitorði að stór hluti þeirra sem kemur með vegabréf frá Venesúela eru ekki íbúar þaðan, heldur hafa keypt bréf af sendiráðum Venesúela erlendis sem lifa á slíkum fölsunum. Það var furðulegt að sjá Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar, réttlæta slíkt fals í viðtali við mbl.is í dag. Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, hafnar líka slíku tali í pistli í dag. Augljóslega eru hin pólitíska stétt að vakna og taka eftir málflutningi margra, þar á meðal Miðflokksins í þessum málum.
Sigmundur Davíð hefur lengi haft áhyggjur af þróun mála en telur að núna sé að koma á daginn að Íslendingar séu að missa tökin á málaflokknum. Það hafi til dæmis verið auglýst á samfélagsmiðlum þegar Alþingi ákvað að allir skyldu hafa sama rétt á þjónustu og kvótaflóttamenn, hvort sem þeir kæmu löglega eða ólöglega til Íslands. Ísland er opið fyrir útlendingum eins og bent hefur verið á hér en því miður er það misnotað, það hefur komið á daginn.