c

Pistlar:

13. október 2022 kl. 13:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Athena! eða arabíska vorið í Frakklandi

Á Netflix má nú finna myndina Athena! eftir leikstjórann Romain Gavras, sem er sonur gríska leikstjórans Costa-Gavras sem hlaut alþjóðlega frægð fyrir mynd sína Missing árið 1982 eftir að hafa áður gert eftirtektarverðar pólitískar myndir um heimaland sitt. Roman er alinn upp í Frakklandi en eins og hjá föður hans eru myndir hans pólitískar og ögrandi. Segja má að með mynd sinni Athena! færi Roman að sumu leyti arabíska vorið til Frakklands. Myndin lýsir stríðskenndu ástandi í ónefndri franskri borg þar sem innflytjendasamfélagið er að bresta og ástandið eins og í púðurtunnu. Þetta er ekki óþekkt stef meðal evrópskra kvikmyndagerðarmanna um þessar mundir þar sem þeir setja innflytjendasamfélögin í forgrunn í myndum sínum, hvort sem þær fjalla um þjóðfélagsátök eða glæpi, eins og hefur verið fjallað um hér. Í þessum myndum eru innflytjendur gjarnan í senn þolendur og gerendur í samfélögum sem þeir eru utanveltu í.athena-movie-review

Bræður berjast

Myndin fjallar um fjóra bræður af innflytjendaættum en sá yngsti, Idir, hefur verið drepinn af lögreglu og allt við að springa í loft upp í samfélagi innflytjenda. Næst elsti bróðirinn, Abdel, er stríðshetja og reynir að róa fólk og koma í veg fyrir að átök brjótist út en hinn tvítugi Karim stýrir hins vegar uppþotunum og hópur undir hans stjórn ræðst á lögreglustöð, verður sér út um vopn og setur upp víggirðingar í innflytjendahverfinu. Elsti bróðirinn, Mokhtar, er bófi og stýrir glæpaklíku hverfisins. Myndin hverfist um tengsl bræðranna en undirtónninn er nánast í ætt við örlagahyggju, eigi má sköpum renna og bræður munu berjast og farast. Öðru hvoru hringir síminn hjá einhverjum bræðranna þegar móðir þeirra reynir að tala um fyrir sonum sínum, hjá þeim sem eru enn á lífi. Þeir ýmist hundsa símtölin eða gráta með móðurinni.

Af þessu sést að bræðurnir túlka allir ólíka nálgun á ástandið, Abdul er hluti af kerfinu, Karim berst gegn því á meðan Mokhtar hefur sagt skilið við það. En fjandinn er laus, í raun er ekki snúið til baka. Þegar Abdul segir að hann sé að koma í veg fyrir stríð segir yngri systir hans að stríðið sé þegar hafið. Það er stríð öskrar hins vegar Karim og í baksýn sýnir sjónvarpið fréttir með fyrirsögn um að það sé hafin borgarastyrjöld í Frakklandi.ath

Myndin er tekin í löngum skotum, rétt eins og við kynntust í stríðsmyndinni 1917, opnunaratriði Saving Private Ryan og fleiri myndum undanfarin áratug. Þetta er ágengur frásagnarmáti og þreytan síast inn í áhorfendur um leið og þeir sökkva inn í ástandið. Við skiljum að eitthvað hefur farið hræðileg úrskeiðis, samfélagið hangir ekki lengur saman og saklaust fólk geldur fyrir það. Myndatakan og atburðarásin minna á fréttamyndir frá arabíska vorinu eða stríðsátökum í Írak, Sýrlandi, Lýbíu eða einhverju öðru ríki þessa stríðshrjáða heims. Þarna sem á þeim stöðum er það er alltaf almenningur sem verður að þola ofbeldið og óréttlætið. 

Engum fréttum treystandi

Engum fréttum er treystandi, allt byggist á orðrómi eða óljósum fréttum sem síðan stangast á við það sem sagt er á samfélagsmiðlum. Var Idir drepinn af lögreglunni eða öfgahægri mönnum sem vildu stofna til ófriðar og umróts eða er kannski engin munur þar á? Hverju á að trúa? Sannleikurinn er ekki fyrsta fórnarlamb þessarar styrjaldar, hann var fyrir löngu horfin í felur.

Abdul togast á milli trúnaðar við landið sem hann hefur barist fyrir og tryggðar við fjölskyldu, vini og þá sem byggja samfélagið í Athena, borgríki sem er einhversstaðar í Frakklandi og á ekkert sammerkt með því Frakklandi sem við einu sinni töldum okkur þekkja. Einhverjir vilja staðsetja hana í úthverfum Parísar en það er aukaatriði. Myndin er ekki dystópísk, hún lýsir veruleika sem þegar hefur knúið dyra, við vitum það ef við lesum rétt út úr fréttum að atburðum. Hryðjuverkaárásir í Frakklandi eru margar en kynþáttátökin hins vegar daglegt brauð eins og myndin er að segja okkur.

Athena! lýsir klofnu landi, fólki sem er fyrir löngu komið til Frakklands en hefur ekki aðlagast eða ekki fengið að aðlagast. Þegar á reynir þá verður aðkomufólkið að taka afstöðu, með nýja heimalandinu eða með gömlum siðum sem fjölskylda og trú halda við. Innflytjendurnir taka lögmál ættflokkasamfélagsins með sér. Við höfum séð saklausari útgáfu af þessu í formi krikketsprófsins í Englandi sem talið var mæla hollustu innfluttra Pakistana, með hvoru landsliðinu héldu þeir, þegar England og Pakistan mættust í krikket. Það bara ein birtingamynd eilífs ákalls um hollustu sem birtist þegar fólk aðlagast ekki samkvæmt draumsýn fjölmenningarsamfélagsins. Fólkið fær ekki að njóta velferðarkerfis eins og í Skandinavíu og ekki tækifæra eins og Bandaríkjunum, það fær bara vera þó það viti ekki hvert förinni sé heitið eða hver stýrir ferðinni.netf

Borgríki í umsátri

Eins og áður sagði er myndatakan ágengi, tekin í löngum skotum án klippingar og stundum með drónum til að hlaða undir spennu, ekki endilega til að skapa tilfinningu fyrir fréttamynd heldur til að útvíkka sviðsmyndina. Tónlistin fylgir myndmálinu og sum átakaatriðin eru eins og skot úr stríðsmyndum þar sem ekki er sagt orð heldur hverfum við í heim hávaða og þagnar, við fáum yfirsýn en reykur byrgir okkur sýn á nærumhverfið.

Athena! er eins og Aþena forðum, borgríki sem býr við umsátur, stundum minna aðgerðir lögreglunnar á árásir á kastalaveggi, kastalinn er íbúðasamstæða og ísskápum og sjónvarpstækjum er hent í höfuðið á umsátursliðinu. Innan kastalans (gettósins) er kallað til vopna undir slagorðinu, „fjölskyldan er allt“. Í nýlegu viðtali sagði Romain að hann trúi því ekki að kvikmyndir geti breytt heiminum, né heldur að kvikmyndagerðarmenn beri siðferðilega ábyrgð. Þeirra leið sé að draga einhverja útgáfu sannleikans að borðinu og láta myndmálið segja sína sögu. Það gerir hann með kröftugum hætti í þessari mynd.