c

Pistlar:

20. október 2022 kl. 17:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

10 milljarða reikningurinn

Öðru hvoru rísa menn upp á fæturna í umræðu um útlendingamál hér á landi og fara fram á að hún sé byggð á staðreyndum. Það er hægt að taka undir slíkar óskir en nauðsynlegar staðreyndir um málaflokkinn virðast ekki liggja á lausu í umræðunni eins og bent hefur verið á áður hér í pistli. En út af þessum skorti á upplýsingum auk margvíslegs misræmis í umræðunni (ætla að stilla mig um að tala um upplýsingaóreiðu) þá greinir menn á um hvort ástandið varðandi hælisleitendur sé stjórnlaust og hvort þar ríki neyðarástand. Innan ríkisstjórnarinnar ríkir ekki sátt um hvernig ástandið er skilgreint.hæli1

Látum liggja milli hluta hvernig ástandið verði best orðað en til þess að skilja málaflokkinn verðum við að hafa ýmsar skilgreiningar á hreinu. Eins og það hvernig við afmörkum málaflokkinn. Það virðist blasa við að skilgreina útlendingamál og þá sérstaklega málefni flóttamanna og hælisleitenda sem velferðarmál, einfaldlega vegna þess að stórir hlutar velferðakerfisins eru uppteknir af málaflokknum. Þannig eru félagsþjónusta þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið á móti flóttamönnum að upplifa gríðarlegt álag, um það er ekki deilt þó fjölmiðlar flytji af því minni fréttir en ýmsum öðrum ágöllum hins félagslega kerfis. Stofnanir sem um málaflokkinn sýsla, svo sem Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun, eru undir ólíkum ráðuneytum en þar fellur til mikill kostnaður. Þrátt fyrir að einstök sveitarfélög hafi gert samninga við félagsmálaráðuneytið vegna móttöku flóttafólks er ljóst að greiðsla sem fylgir hverjum einstökum flóttamanni dugar ekki. Það sést af því að ráðuneytið greiðir 200.000 krónur á ári með barni í skóla en kostnaður vegna skólavistarinnar er um 300 til 350.000 krónur á mánuði. Sveitarfélögunum virðist gert að greiða mismuninn og ráðherrann er ekki einu sinni krafinn skýringa. Um leið hafa sveitarfélög orðið að fjölga verulega þeim starfsmönnum sem sjá um málefni flóttamanna.

10 milljarða kostnaður

Velferðakerfi okkar Íslendinga er rammað inn af fjárlögum og fjárheimildum en málefni flóttamanna- og hælisleitenda virðast þar vera undantekning. Þar gilda önnur lögmál og virðist sem tékkheftið sé einfaldlega opið. Við vitum að biðlistar raðast upp víða í heilbrigðiskerfinu vegna nauðsynlegra aðgerða þannig að fólk þarf að bíða von úr viti þar til fjárheimildir opnast. Það er nú gangurinn í opinberum fjármálum.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins bendir á að erfitt hefur reynst að halda utan um kostnaðinn vegna flóttamannabylgjunnar sem nú skellur á landinu. Talið er að í ár nemi hann um 10 milljörðum króna en hann var um 6 milljarðar í fyrra. Þetta kemur heim og saman við það sem fjármálaráðherra lét eftir sér hafa í vikunni. Fyrir 6-7 árum var kostnaðurinn um milljarður króna og þótti mikið. „Við blasir að fjölgi hælisleitendum áfram verða þau útgjöld svimandi há,“ segir Morgunblaðið. Hve mikill má þessi árlegi kostnaður verða svo að menn ranki við sér?

Sumir stjórnmálamenn virðast lita svo á að þarna skuli ekki vera nein takmörk og einstaka stjórnmálamenn látið hafa eftir sér að fjöldinn geti bara ekki verið of mikill þegar kemur að flóttamönnum. Í Dagmálum Morgunblaðsins í gær var Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, spurður um hvað hann teldi að Íslendingar gætu tekið á móti mörgum hælisleitendum og hvaða kostnað það mætti hafa í för með sér. Því vildi hann ekki svara þar og þá, en stjórnmálamenn skulda svör um það, svo almenningur í landinu geti tekið upplýsta afstöðu til þeirra eins og Morgunblaðið bendir á. Svör Sigmars eru dæmi um pólitísk og félagsleg yfirboð, það er látið sem svo að þarna þurfi ekki að horfa í kostnaðinn. Hann er ekki einn um það, fjölmargir þingmenn Pírata og Samfylkingar hafa talað á líkum nótum. Hvernig geta ábyrgir stjórnmálamenn tekið þennan málaflokk út fyrir sviga þegar kemur að útgjöldum til velferðarmála?hæli2

Stofnanirnar stækka og stækka

Fram til loka september skáru eftirfarandi þrír hópar sig úr þegar kom að alþjóðlegri vernd, fjöldi innan sviga: Úkraína (1694), Venesúela (575), Palestína (71). Nú þegar hafa 3.271 manns óskað hælis og áætlað er að fjöldinn verði á milli 4.500 og 5.000 áður en árið er allt. Hjá Útlendingastofnun starfa nú 85 starfsmenn og ljóst að stofnunin ræður illa við ástandið. Hjá Vinnumálastofnun er einnig verið að fjölga starfsmönnum en stofnunin tók við að þjónusta flóttamenn í sumar en þeir eru í umsjá Vinnumálastofnunar þar til niðurstaða fæst í mál þeirra hjá Útlendingastofnun, þ.e.a.s. hvort þeir fái vernd. „Við erum með um 1600 í okkar þjónustu, þar af eru þúsund sem við erum með í búsetuúrræði á okkar vegum og 600 sem búa sjálfstætt eða eru hjá sveitarfélögunum,“ sagði Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, í upphafi vikunnar. Ljóst er að íslenska velferðarkerfið er að sligast undan þessu. Allt þetta fólk þarf á fjárhagsaðstoð að halda og þjónustu félagsþjónustunnar og heilbrigðiskerfisins.

Hvergi í stjórnarskrá er að finna ákvæði eða heimild fyrir því að stjórnvöld ábyrgist alþjóðlega vernd fyrir ótiltekinn fjölda erlends fólks, sem hingað kemur án getu til eigin framfærslu, eða á móti þeim sé tekið af aðilum sem ábyrgist þeim húsnæðis og fæðis meðan þeir dvelja hér á landi. Neyðarástand getur kallað á sérstakar aðgerðir en er ekki einmitt þráttað um hvort slíkt ástand ríki?