c

Pistlar:

26. október 2022 kl. 18:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ný stjórn og stjórnarsáttmáli í Svíþjóð

Ný ríkisstjórn undir forystu Ulf Kristersson, formanns Hægriflokksins, tók við völdum í Svíþjóð í liðinni viku og batt þar með enda á valdatíð vinstri blokkarinnar undir forystu Jafnaðarmanna. Eftir vantraust á ríkisstjórnina í fyrra dugði ekki að skipta út Stefan Löven fyrir Magdalenu Andersson. Vinstri blokkin hélt ekki velli í kosningum, aðallega vegna stórsigurs Svíþjóðardemókratanna sem fengu ríflega fimmta hvert atkvæði og eru nú næst stærsti flokkur Svíþjóðar. Ný ríkisstjórn í Sví­þjóð samanstendur af Hægriflokkum, Kristilegum demókrötum og Frjálslynda flokknum og er varin vantrausti af Svíþjóðardemókrötum sem enn verða að þola útilokun frá sænskum valdastólum þrátt fyrir að Jimmie Åkesson leiðtogi þeirra sé talinn mjög frambærilegur stjórnmálamaður. Ný ríkisstjórn hefur nauman meirihluta eins og birtist í kosningu um forsætisráðherra þegar 176 þingmenn kusu með Ulf Kristersson en 173 voru á móti.

Þann 14. október var skrifað undir 62 blaðsíðna stjórnarsáttmála, Tidösamkomulagið (Tidöavtalet), kennt við samnefndan kastala í Svíþjóð. Samningurinn varð til rúmum mánuði eftir kosningarnar 11. september síðastliðin. Að samningnum koma Hægriflokkurinn (Moderaterna) Kristilegir demókratar (Kristdemokraterna) og Frjálslindi flokkurinn (Liberalerna). Allir þessir flokkar tóku sæti í stjórninni og skipta á milli sín ráðherraembættunum. Svíþjóðardemókratarnir styðja við stjórnina og stjórnmálaskýrendum verður tíðrætt um að þeir hafi talsverð áhrif á stjórnarsáttmálann sem menn segja að fylgi hugmyndafræði þeirra. Í samtali við Íslendinga í Svíþjóð eða þá sem hafa tengsl þar kemur fram að mikil tortryggni ríkir í garð meginstraumsfjölmiðla og menn gefa sér að ný ríkisstjórn muni eiga erfið samskipti við þá. Vel má sjá fyrir sér að veruleg átök verði um framkvæmd margs af því sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Einnig má sjá fyrir sér að það reyni á ýmis mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu enda vaxandi tilhneiging í Svíþjóð sem hér á landi að senda mál þangað.forsviþ

Stjórnarsáttmálinn

Nýjum stjórnarsáttmála er skipt upp í sex kafla: Heilbrigðismál, loftslags- og orkumál, afbrotamál, innflutning fólks og aðlögun, skólamál og efnahagsmál. Margir telja sig sjá áhrif þróunar mála í Danmörku í sáttmálanum en vel má ætla að breytingarnar í Svíþjóð hafi líka áhrif í komandi þingkosningum í Danmörku og víða á Norðurlöndunum, jafnvel hér á landi. Í Noregi hafa óvinsældir forsætisráðherrans Jonas Gahr Støre og ríkisstjórnar Verkamannaflokksins og Miðflokksins aukist verulega en stjórnin tók við í fyrra.

Utanríkismál eru ekki fyrirferðamikil í sáttmálanum en ný ríkisstjórn leggur áherslu á öryggis- og varnarmál og hyggst ekki sína neitt hálfkák í væntanlegu samstarfi innan Nató. Fyrsta heimsókn Pål Jonson, nýs varnarmálaráðherra Svíþjóðar, var til Helsinki og lagði hann þar þunga áherslu á að varnarsamstarf Svía við Finna breyttist ekki við stjórnarskiptin í Svíþjóð. Hann sagði að Svíar mætu mjög mikils djúpstæða varnarsamvinnu sína við Finna og í því efni yrði engin breyting undir sinni stjórn. Nýr varnarmálaráðherra kemur úr Hægriflokknum og er með doktorsgráðu í heimspeki. Utanríkisráðherrann, Tobias Billström, kemur líka úr Hægriflokknum en hann á að baki fjölbreyttan akademískan feril í heimspeki og sagnfræði. Lögfræðingurinn Jessika Roswall verður ráðherra Evrópumála í ríkisstjórninni en hún kemur líka úr Hægriflokknum sem sýnir hve gríðarlega sterka stöðu hann hefur í ríkisstjórninni með öll helstu ráðuneytin. Áhrif Svíþjóðardemókratanna eru í málefnasamningnum.

Heilbrigðismálin

Ef við skoðum fyrst heilbrigðismál þá er hægri stjórnin trú sinni sannfæringu og leggur upp með að fækka í stjórnunarstöðum og minnka skriffinnsku. Lögð er áhersla á að bæta andlegt heilbrigði þjóðarinnar og setja varnir gegn sjálfsvígum í forgang, er þar ekki síst horft til yngra fólksins. Í Svíþjóð hefur verið langvarandi vandi vegna tannlæknaþjónustu en skortur á tannlæknum veldur því að fólk hefur átt í verulegum vandræðum með að komast að hjá tannlækni. Samræma skal reglur um tannlækningar við aðra heilbrigðisþjónustu og veita öldruðum með verstu tannheilsuna forgang.ulfsv

Kjarnorkan aftur inn

Þingmaður Frjálslyndra, Romina Pourmokhtari, er umhverfis- og loftslagsmálaráðherra en hún er yngsti ráðherra í sögu Svíþjóðar, aðeins 26 ára. Hún er dóttir flóttamanna frá Íran. Yfirvofandi orkuskortur og gríðarlegar hækkanir á orkuverði hafa haft verleg áhrif í Svíþjóð og þetta er ávarpað í sáttmálanum. Tillögur um loftslags- og orkumál ganga út á að tryggja að raforkukerfið virki og að fólk og fyrirtæki eigi að fá rafmagn á stöðugu og lágu verði. Um leið er stefnt að því að kjarnorka fái stærri sess og lagt upp með að fjárfesta í nýjum verum. Um leið verður skoðað hvort hægt sé að koma Ringhals-verinu aftur í gang en það er við suðvesturströnd landsins. Ringhals-verið er stærsta kjarnorkuver Svíþjóðar, en þar eru fjórir kjarnakljúfar og þaðan fá Svíar um fimmtung raforku sinnar. Ætlunin er að takmarka áhrif stjórnmálamanna á framkvæmd orkustefnunarinar og þannig standa gegn því að hlaupi sé upp til handa og fóta og kjarnorkuverum sem eru örugg og í góðu standi sé lokað eftir því sem vindar blása.

Þá fellst mikil breyting í því að markmiðið verður ekki lengur 100% „endurnýjanleg“ orka, heldur 100% „jarðefnaeldsneytisfrí“. Vindorka verði mikilvæg en eigi ekki að njóta sérkjara og taka skuli tillit til umhverfismála og íbúa nærsvæðis. Í Svíþjóð sem annars staðar hefur verið barátta gegn vindmyllum og er þessum ákvæðum ætlað að koma til móts við efasemdir um þær. Tekið er fram að tækni er varðar sólarsellur sé í hraðri framþróun.

En orkukostnaður brennur á venjulegum Svíum og því hyggjast stjórnarflokkarnir setja greiðsluþak á rafmagnsreikninga, með afturvirkum greiðslum. Þá er ítrekað að Svíþjóð skuli fylgja metnaðarfullri loftslags- og umhverfisstefnu en mikilvægt sé að horfa á ástand þeirra mála í heiminum sem heild og þróa alþjóðlegar fjárfestingar samkvæmt sjöttu grein Parísarsamkomulagsins. Einfalda skal regluverk í umhverfismálum til að styrkja samkeppnishæfi matvælaiðnaðar og iðnaðarframleiðslu Svía og styðja við útflutning loftslagsvænna vara og tækni.

Refsilöggjöfin

Enginn fer í grafgötur með að ofbeldi, eignatjón og afbrot hafa verið vaxandi vandamál í Svíþjóð eins og oft hefur verið fjallað um hér í pistlum. Þegar kemur að baráttu gegn afbrotum hyggst ný ríkisstjórn beina sjónum sínum að gengjunum sem eru víða fyrirferðamikil í Svíþjóð. Ætlunin er að efla fyrirbyggjandi úrræði svo að ungmenni leiðist síður út í glæpi. Ætlunin er að breyta refsirammanum og tvöfalda refsingu fyrir meðlimi gengja um leið og fleiri gengjameðlimum verður vísað úr landi séu þeir staddir í Svíþjóð á forsendum hælisvistar. Þá á að leyfa forvirkar rannsóknaaðferðir, vopnaleit á ákveðnum svæðum og taka upp þann möguleika að takmarka búsetusvæði í allt að tíu ár eftir að menn koma úr fangelsi. Slíkt á einnig að gilda fyrir heiðurstengd brot, brot öfgamanna og ofbeldi innan fjölskyldu. Tryggja á stöðu vitna og að fólk geti vitnað undir nafnleysi.ulf2

Í sumum þáttum á að taka á afbrotum sem tengjast menningu innflytjenda, svo sem með því að taka harðar á heiðurstengdum brotum þar sem birtist valdi karl og ættarhöfðingja sem meðal annars hafa beitt meydómsathugunum og reynt að blekkja stúlkur í nauðungarhjónabandsferðir úr landi.

Ekki skal vera leyft að reyna að fá fram breytingar á kynhneigð með hótunum og þvingunum. Lögreglan á að fá aukna vernd og þeir sem ráðast á hana að fá þyngri refsingar, magnafsláttur vegna brota skal felldur niður séu menn orðnir 18 ára. Refsingar verða þyngdar fyrir endurtekin brot og einnig fyrir ofbeldisbrot og kynferðisbrot. Skoða skal möguleikann á að leigja fangelsispláss erlendis sakir fyrirsjáanlegs plássleysis. Neyðarréttur þeirra er ráðist er á á heimili eða nálægt fjölskyldu skal aukinn. Banna skal betl í landinu og ekki leyfa hjónabönd systkinabarna.

Innflytjendamál

Innflytjendamál urðu fyrirferðamikil í kosningunum og kjósendur sögðu hug sinn til þeirra með atkvæðum til Svíþjóðardemókratanna. Málið verður ekki hundsað lengur og mál tengd þessum málaflokki taka um þriðjung stjórnarsáttmálans. Maria Malmer Stenergard úr Hægriflokknum er ráðherra fólksflutninga (migrationsminister) og hefur setið á sænska þinginu síðan 2014. Hún sagði í viðtali þegar hún tók við: „Til að koma skikki á aðlögun verðum við að draga úr fjölda innflytjenda. Með nýjum umbótum mun ríkisstjórnin knýja fram viðhorfsbreytingu í sænskri innflytjendastefnu.“

Hvað innflutning fólks og aðlögun varðar þá hyggst ríkisstjórnin láta fara fram manntal svo það sé á hreinu hverjir búi á landinu og innflytjendur því ekki tví-, eða margskráðir. Um leið verða sveitastjórnir gerðar ábyrgar fyrir því að tilkynna um ólöglega innflytjendur.

Bæta skal landamæraeftirlit og jafnvel taka upp sænska landamæragæslu á flugstöðvum á ESB svæðinu. Skoða skal möguleikann á því að nota DNA próf við útlendingaeftirlit innanlands. Ætlunin er að vísa útlendingum úr landi séu þeir í gengjum, í vændi, öfgasamtökum eða teljist á annan hátt óæskilegir í landinu.

Taka skal við 900 kvótaflóttamönnum á ári sem er mikil fækkun en til þessa hefur verið miðað við 6.500 á ári. Þetta er kostnaðarsamasta flóttamannamóttakan og í raun sú eina sem stjórnvöld hafa stýringu á.

Þá á að gera þær kröfur til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að hún vísi einungis á fólk sem sé líklegt til að aðlagast lífinu í Svíþjóð. Konur, stúlkur og LBGTQ fólk eigi að hafa forgang. Þeir sem sækja um hæli eiga að búa á sérstökum móttökustöðvum á meðan mál þeirra eru í meðferð.

Í stjórnarsáttmálanum er áskilið að fólk sem er nýkomið til landsins eigi ekki að geta farið beint á bætur hjá sænska ríkinu, réttur til slíks eigi að koma smám saman. Bjóða skal upp á sænskunám samhliða verknámi fyrir nýkomna í öllum sýslum (kommúnum) og stefna að forskólanámi fyrir yngstu börnin.

Skerpa skal á reglum um ríkisborgararétt, biðtími eftir honum færður í átta ár og gera skal meiri kröfur til þekkingar á sænsku samfélagi og auka skilning á því hvað fellst í eigin framfærslu. Ein margra fyrirhugaðra lagabreytinga fellst í því að unnt verði að afturkalla ríkisborgarrétt hjá þeim sem hafa tvo slíka, hafi þeir framið brot er ógna samfélaginu eða fengið hann á grundvelli falskra upplýsinga.

Þrengja skal reglur um fjölskyldusameiningar, aðeins maki og börn yngri en 18 ára koma þar til greina og fylgja Svíar þar fordæmi Dana. Skoða skal hvernig sé best að fá þá sem ekki hafa aðlagast sænsku samfélagi til að snúa heim. Séu útlendingar dæmdir fyrir alvarleg brot þá beri að skoða hvort efnislegar forsendur séu til þess að senda þá úr landi og þá skal ekki tekið tillit til meintra tengsla við Svíþjóð. Taka skal harðar á nauðungar- og barnahjónaböndum og skoða hvort hægt sé að ógilda fjölkvænishjónabönd. Skoða skal hvort hætta skuli fjárstuðningi við þau lönd sem neita að taka við eigin þegnum.ulfur3

Skólamál

Hvað skólamálin varðar er markmiðið að bæta skólana og auka þar öryggi og vinnufrið, bæði fyrir nemendur og starfsmenn, og er áréttað að það sé á ábyrgð skólastjórnenda. Þeir skuli vera skyldugur til að flytja nemendur sé það nauðsynlegt, til dæmis ef einelti kemur upp. Auka skal við kennslu í sænsku og stærðfræði en létta í staðinn stjórnunarbyrði og óþarfa skriffinnsku af kennurum. Lögð verði áhersla á lestur sænskra bóka auk fagurbókmennta. Tilgreint er að öfgahyggja og íslamismi sé stórt vandamál í skólum múslima og skal hafa með þeim eftirlit með fyrirvaralausum heimsóknum. Loka skal skólum sem ekki virða þær reglur er gilda um sænska skóla.

Efnahagsmál

Nýr fjármálaráðherra, Elisabeth Svantesson, kemur úr flokki forsætisráðherrans og er reyndur stjórnmálamaður en hún var atvinnumálaráðherra 2013 til 2014. Hún hefur gráðu í hagfræði og hefur starfað sem háskólakennari. Þegar kemur að efnahagsmálum verður aðaláherslan á að vinna gegn atvinnuleysi og bæta framleiðni. Ný ríkisstjórn telur slíkt nauðsynlegt til að Svíþjóð geti áfram verið það ríka velferðarríki sem það telur sig vera. Í samkomulaginu er þó gert ráð fyrir að draga eitthvað úr framlögum til þróunarmála erlendis.

Sú grunnhugsun birtist í sáttmálanum að allir sem það geti reyni að finna sér vinnu og framfleyti sér með henni. Til að hvetja til þess á að lækka skatta á lág- og millitekjufólk á samningstímanum. Stefnt skuli að því að laga þá mótsögn að jafnframt því að það vanti fólk í vinnu þá sé mikið um atvinnuleysi meðal innflytjenda.

Ætlunin er að ráðast í breytingar á bótakerfinu sem hvetja eiga til aukinnar atvinnuþátttöku. Atvinnuleysisbætur eiga þó ekki að breytast. Atvinnurekendum sem ráði langtímaatvinnulausa sé mætt með lægri kostnaði vegna ráðninganna. Koma skal á móti auknum kostnaði heimilanna og lækka stjórnunarkostnað fyrirtækja. Skattar á fyrirtæki eiga að vera hóflegir með það að markmiði að fjölga nýjum fyrirtækjum. Leggja skal áherslu á endurhæfingu fólks sem hefur veikst svo öryrkjum fjölgi ekki um of. Hvetja skal eldra fólk til að halda áfram að vinna. Lækka skal skatta á fjárfestingasparnað, með skattleysismörkum sem miðast við 300.000 krónur sænskar.